Lokatakmarkið er að slá þá út
Leikurinn á morgun er öðruvísi, snýst um okkur, miklu frekar en þá, snýst um að við saumum saman góða og þétta frammistöðu; verði góð og þétt lopapeysa en ekki gisin einhvern veginn og slöpp - illa prjónuð.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net í dag en næst á dagskrá hjá Breiðabliki er seinni leikur liðsins gegn bosníska liðinu Zrinjski í forkeppni Evrópudeildarinnar. Bosníska liðið leiðir með fjórum mörkum eftir fyrri leikinn sem fór fram í síðustu viku.
Frammistaðan er það mikilvægasta
„Ég legg þetta upp þannig að við þurfum fyrst og fremst að sauma saman góða frammistöðu og sjá hvert það tekur okkur. Við þurfum að hafa stjórn á hlutunum, læra af því sem við gerðum ekki vel í Bosníu. Það mikilvægasta er frammistaðan, að vera ekki endilega að hafa áhyggjur af því hver munurinn er. Auðvitað viljum við komast eins nálægt þeim og hægt er og lokatakmarkið er að slá þá út, en ég held það sé hættulegt að ætla fara og reyna skora fimm mörk á fyrstu fjórum mínútum og svo gengur það ekki upp. Við þurfum að byrja á því að spila vel, vera kröftugir, öflugir og óttalausir," sagði Óskar.
Er þjálfarinn með það bakvið eyrað að álagsstýra leikmönnum upp á framhaldið að gera?
„Nei, Evrópukeppnin er bara þess eðlis að þú álagsstýrir ekkert í henni, þú reynir að spila þínu sterkasta liði sem völ er á hverju sinni. Allir sem geta spilað munu spila þennan leik."
Sjá einnig:
Þrír fjarri góðu gamni hjá Breiðabliki
Vilja reyna gera þá óttaslegna
Með jákvæðum úrslitum, þó að það yrði ekki fjögurra marka sigur, telur líka í söfnun á Evrópustigum.
„Frammistaðan er eitthvað sem við þurfum að taka með okkur í næsta verkefni, það er mikilvægt að hún sé góð. Við getum tekið fullt út úr seinni hálfleiknum, eftir að við fengum á okkur sjötta markið þá gerðum við margt mjög vel og sýndum ákveðinn karaktersstyrk að leggjast ekki alveg niður og gefast upp. Það er mikilvægt upp á að ná takti og vera með sjálfstraust; frammistaðan á morgun er mikilvægari en úrslitin. Við viljum reyna koma þeim niður á jörðina og gera þá óttaslegna, ýta aðeins á þeim, það er markmið, en þetta byrjar allt og endar á góðri frammistöðu."
Klessukeyrðu harkalega á vegginn
En hvað var það sem gerðist í fyrri hálfleik í Bosníu? Heimaliðið leiddi með fjórum mörkum í leikhlé og komst svo í 6-0 á 55. mínútu. Hrun?
„Það má alveg til sanns vegar færa að fyrri hálfleikur hafi (verið hrun). Við fáum á okkur klaufalegt mark eftir eina og hálfa mínútu, það var högg og ég talaði um það eftir leikinn að það hefði verið ákveðið andlegt og líkamlegt gjaldþrot. Það raungerðist eftir höggið, menn höfðu ekki kraftinn, orkuna, búið að vera gríðarlega mikið álag á liðinu og á einhverjum tímapunkti þá lendiru bara á veggnum."
„Við klessukeyrðum harkalega á þann vegg. Þessir strákar eru ekki vélmenni, þeir eru að gera fullt annað en að bara spila fótbolta og hugsa um sig. Þeir hafa skyldum að gegna, bæði gagnvart fjölskyldu og vinnu. Mér fannst við lenda á vegg. Í staðinn fyrir að standa upp eftir höggið, eins og við höfum yfirleitt verið góðir í, þá náðum við því bara ekki. Ég skrifa það að stærstum hluta á andlegt og líkamlegt gjaldþrot."
Höfðu engu að tapa og spiluðu upp á stoltið
Náðu Blikarnir að endurstilla sig í seinni hálfleiknum?
„Ég held að þá hafi komið til að menn sóttu einhverja orku, höfðu engu að tapa og voru að spila upp á stoltið. Einhvern veginn náðu menn þegar þeir voru komnir 6-0 undir að sækja einhverja orku sem varð til þess að við áttum margar góðar sóknir og við vörðumst vel. En þá er leikurinn auðvitað búinn og leikmyndin öðruvísi. Á meðan þetta var leikur, þá náðum við engum neinum takti eftir fyrsta markið. Þó að annað markið hafi ekki komið strax, þá gerðum við í raun og veru ekki neitt af því sem við ætluðum okkur að gera í þessum leik. Það fór því eins og það fór."
Vill að lopapeysan verði góð og þétt
Planar Óskar einhverja öðruvísi ræðu fyrir leikinn á morgun heldur en hann gerði fyrir fyrri leikinn.
„Auðvitað á hver leikur sitt líf og þetta er aðeins öðruvísi staða sem við erum í núna. Þegar við fórum út snerist þetta um að ná frumkvæði í einvíginu og þú ferð líka út í ákveðna óvissu, finnur ekki styrk andstæðingsins fyrr en þú stendur á hliðarlínunni og upplifir hann. Leikurinn á morgun er öðruvísi, snýst um okkur miklu frekar en þá, snýst um að við saumum saman góða og þétta frammistöðu; verði góð og þétt lopapeysa en ekki gisin einhvern veginn og slöpp - illa prjónuð. Þetta snýst um stoltið, virðinguna og að við náum góðum takti fyrir lokahnykkinn á þessum brjálæðiskafla sem við erum búnir að vera í síðan landsleikjahléinu lauk," sagði Óskar.
Leikurinn á morgun hefst klukkan 17:30 og fer fram á Kópavogsvelli. Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Viðtalið er talsvert lengra og var hann spurður út í ákvörðun sína að hvíla sjö leikmenn algjörlega á móti KA síðasta sunnudag, leikjaálagið og hvort að liðið væri að fá nægilega hjálp í þessu mikla álagi, félagaskiptagluggann og ummæli um að hann væri einungis þjálfari liðsins og að lokum var hann spurður út í markvörðinn Anton Ara Einarsson.
Athugasemdir