Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 21. ágúst 2023 12:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Breiðablik skoðar hvort hægt sé að fresta leiknum gegn Víkingi - „Engin draumastaða"
Háðir því að Víkingar samþykki það líka
Hiti í lok síðasta leiks liðanna.
Hiti í lok síðasta leiks liðanna.
Mynd: Fótbolti.net
Búið að vera mikið álag á Breiðabliki frá síðasta landsleikjahléi.
Búið að vera mikið álag á Breiðabliki frá síðasta landsleikjahléi.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Víkingur fór langt með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í gær.
Víkingur fór langt með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Breiðablik er að reyna fá leik sínum við Víking frestað. Leikurinn er liður í 21. umferð Bestu deildarinnar og er settur á mánudagskvöld.

Sitthvoru megin við leikinn gegn Víkingi á Breiðablik leiki við Struga í umspili fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Eins og leikjaplanið er hjá Breiðabliki núna er því leikur á fimmtudag í Norður-Makedóníu, leikur á mánudagskvöld á Víkingsvelli og svo seinni leikurinn gegn Struga á fimmudag á Kópavogsvelli.

Það eru ekki margir möguleikar í stöðunni. Einn möguleikinn er að spila leikinn gegn Víkingi í landsleikjahléinu í september, annar möguleikinn er að spila hann seinna í úrslitakeppninni og þriðji möguleikinn er að Blikar fái honum flýtt um einn dag. Landsleikjahléið er frá 4. september til 13. september. Úrslitakeppnin hefst 17. september.

Fótbolti.net ræddi við Karl Daníel Magnússon sem er deildarstjóri afreksstarfs knattspyrnudeildar hjá Breiðabliki.

„Við erum að skoða þetta og erum í því akkúrat núna," sagði Karl. „Við erum að athuga hvað við getum gert, ekki mikið í boði svo sem, það er þétt spilað inn í úrslitakeppnina og Víkingar eru með bikarúrslitaleik ofan í það. Við erum að reyna finna hvað við getum hugsanlega gert."

Mikið er í húfi í viðureigninni við Struga, háir fjármunir og Breiðablik yrði með sigri í einvíginu fyrsta íslenska karlaliðið til að fara í riðlakeppni Evrópu.

Ef horft er raunsætt í stöðuna, hvað er í boði varðandi færslu á leiknum gegn Víkingi?

„Við gætum sett hann á sunnudaginn, degi áður, sem er ekki frábær kostur. Við gætum farið með hann í landsleikjahléið en bæði lið þurfa að samþykkja það. Víkingur er með (Gunnar) Vatnhamar og ungu strákana sína í verkefnum. Við erum með Anton Loga (Lúðvíksson), Ágúst Orra (Þorsteinsson) og Klæmint (Olsen) væntanlega í verkefnum. Það er ekkert rosalega góður kostur, væri líka ágætt fyrir menn að fá smá frí."

„Ég er að fara heyra í Birki (Sveinssyni mótastjóra) til að athuga hvort það sé einhver möguleiki inn í september."
Það þyrfti þá leyfi fyrir mótastjórn að úrslitakeppnin myndi hefjast þó að öll lið væru ekki búin með 22 leiki.

„Í rauninni, ég veit ekki hvort við fáum einhverja heimild til þess. Ég er ekki viss um að Birkir sé rosalega sáttur við það, og mér heyrist að hann sé ekki mjög bjartsýnn á að það geti gengið upp."

Er þín helsta von að Víkingur myndi segja já við að spila í landsleikjahléinu? „Við erum ekkert rosalega spenntir fyrir því. Strákarnir þurfa líka bara að fá pásu. Það er búið að horfa á þessa pásu í langan tíma upp á að strákarnir geti aðeins núllstillt sig, að það sé ekki leikur á þriggja daga fresti. Við erum bara að skoða alla möguleika og athuga hvað hægt sé að gera, en við erum háðir því að Víkingar samþykki það líka. Þetta er engin draumastaða," sagði Karl að lokum.

Blikar halda til Norður-Makedóníu í fyrramálið og leika fyrri leikinn gegn Struga klukkan 15:00 á íslenskum tíma á fimmtudag.

Víkingur er með ellefu stiga forskot á toppi Bestu deildarinnar og Breiðablik er sem stendur í 3. sæti deildarinnar, tíu stigum á undan Stjörnunni, FH og KR sem sitja í 4.-6. sæti.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner