Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   fös 24. maí 2024 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grét þegar hann frétti af áhuga Man Utd - „Þetta er meira en draumur"
Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fernandes fagnar marki á Old Trafford.
Fernandes fagnar marki á Old Trafford.
Mynd: EPA
'Ég skellti á umboðsmanninn og faðmaði konuna mína. Og ég grét bara'
'Ég skellti á umboðsmanninn og faðmaði konuna mína. Og ég grét bara'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, segir enga betri tilfinningu en að ganga út á Old Trafford. Hann vill ekki yfirgefa United þrátt fyrir að sögur séu um það.

Fernandes skrifaði langa grein í Players Tribune fyrir bikarúrslitaleikinn á sunnudag þar sem hann skrifar aðallega um ástina sem hann ber í garð United.

„Þetta félag er miklu meira en eitthvað sem ég get sett inn í fallega tilvitnun fyrir samfélagsmiðla. Félagið er eitthvað sem mér þykir ótrúlega vænt um," skrifar Fernandes og bætir hann við að þetta tímabil sé óásættanlegt fyrir félagið og stuðningsmennirnir eigi mun meira skilið.

„Ég mun aldrei gleyma hvar ég var þegar ég fékk tækifæri til að koma hingað fyrir fjórum árum. Ég stóð í skápnum í svefnherberginu okkar í Lissabon. Umboðsmaðurinn minn hafði hringt í mig um tíu að kvöldi og dóttir mín var aðeins þriggja ára þá, svo það var háttatími fyrir okkur. Ég fór inn í litla skápinn til að fá ró og næði. Ég hef alltaf sagt við umboðsmanninn minn að ég vilji ekki heyra um nein félagaskipti fyrr en það 100 prósent raunverulegt. Ég vil ekki láta trufla mig nema að það komi tilboð."

„Ég vissi að ef hann væri að hringja í mig á þessum tíma, að það væri eitthvað í gangi þá. Hann spurði mig hvort ég væri tilbúinn að heyra fréttirnar? Um að fara... 'Fara hvert? Til Spurs? Nei, United'. Ég spurði hvort að hann væri að grínast, en hann sagði að það væri klárt. 'Þetta er bara undir þér komið núna. Hvað viltu gera?' Ég svaraði ekki einu sinni. Ég barðist við tárin," skrifar Fernandes en tilfinningarnar tóku yfir Fernandes þegar hann vissi að United vildi kaupa hann.

„Svo opnar Ana, konan mín, dyrnar og ég segi henni að United vilji fá mig. Hún spyr mig hvort ég sé að gráta. 'Ég veit það ekki, ég held að þetta séu hamingjutár'."

Fernandes var keyptur til Man Utd í janúar 2020 en sumarið áður hafði verið áhugi á honum úr ensku úrvalsdeildinni frá Tottenham. Hann segist hafa verið spenntur fyrir því á þeim tíma. „Eitt af markmiðum mínum í lífinu var að spila í ensku úrvalsdeildinni. Ég sagði við Önu að ég væri að upplifa draum að spila með Sporting. En þetta er meira en draumur, þetta er Manchester United."

„Ég skellti á umboðsmanninn og faðmaði konuna mína. Og ég grét bara."

Fernandes segir að það hafi verið draumur sinn að spila fyrir Man Utd, eins og fyrir alla krakka í Portúgal sem ólust upp við að sjá Cristiano Ronaldo í treyjunni. Hann þakkar Önu, konu sinni, fyrir að hafa hjálpað sér á vegferðinni. Hún hafi sýnt honum ótrúlegan stuðning á erfiðum tímum.

„Eftir erfitt tímabil, þá er það á minni ábyrgð að gefa meira. Það byrjar hjá mér. Ég elska það meira en nokkuð annað að stíga út á Old Trafford. Ég vil ekki fara. Þetta hefur alltaf verið minn helsti draumur. Ég vil bara halda áfram að berjast. Ég vil vera hérna og fjölskyldan mín vill vera hérna," segir Fernandes.

Fernandes var valinn leikmaður ársins hjá Man Utd á yfirstandandi tímabili en hann mun á morgun leiða lið sitt út í úrslitaleik FA-bikarsins á Wembley.
Athugasemdir
banner
banner