fim 27.apr 2023 16:30 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 8. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Grindavík er spáð áttunda sæti deildarinnar og sleppur við fall ef spáin rætist.
Úr leik síðasta sumar. Sigríður Emma F. Jónsdóttir gerði fimm mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum í vetur.
Mynd/Fótbolti.net - J.L.
'Það leggst bara mjög vel í mig og er ég mjög þakklátur fyrir traustið sem ég fæ með að stýra liðinu þetta tímabilið eftir að hafa verið Jóni Óla innan handar síðustu tvö tímabil. Það var mjög dýrmæt reynsla fyrir mig að hafa fengið að starfa með honum'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég vil bara hvetja fólkið, og sérstaklega þá iðkendur sem eru að æfa hjá Grindavík, að mæta í stúkuna í sumar og styðja við bakið á okkar liðum í sumar'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8. Grindavík, 44 stig
9. Fram, 40 stig
10. KR, 38 stig
Lokastaða í fyrra: Grindavík var í fallbaráttu í dágóðan tíma í fyrra en náði að enda mótið vel og bjarga sér örugglega. Liðið endaði að lokum í sjöunda sæti, 12 stigum frá fallsvæðinu. Liðinu er spáð svipuðu róli í ár en það verður svo sannarlega fróðlegt að fylgjast með því hvernig sumarið þróast hjá liðinu.
Þjálfarinn: Anton Ingi Rúnarsson tók við þjálfun Grindavíkur eftir að síðasta tímabili lauk. Hann tók við starfinu af Jóni Óla Daníelssyni eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari hans í tvö ár. Anton er ungur að árum en hann er aðeins 27 ára gamall en hann hefur líka verið að starfa í yngri flokkum Grindavíkur. Spennandi þjálfari sem fær stórt tækifæri í sumar.
Styrkleikar: Grindavík hefur spilað marga leiki í vetur, náð að stilla saman strengi og hafa skorað í flestum leikjunum. Sóknarleikurinn hefur litið vel út og eru þær mjög góðar á boltann þegar uppspilið gengur upp. Þær sóttu tvíburasystur frá Bandaríkjunum sem eru báðar mjög öflugir framherjar og það mun setja aukinn kraft í góðan sóknarleik. Þær bandarísku gætu orðið mjög góðar í þessari deild. Það er mikið af uppöldum leikmönnum í þessu liði sem eru með mikla ástríðu fyrir Grindavík.
Veikleikar: Sóknarleikurinn er góður, en aftur á móti hefur varnarleikur liðsins ekki verið nægilega sterkur á undirbúningstímabilinu. Þær eru búnar að fá á sig mikið af mörkum í vetur, og fengu til að mynda á sig 27 mörk í sjö leikjum í Lengjubikarnum. Þær misstu út mikilvægan leikmann í Momola Adesanmi sem er mjög svo öflugur hafsent og spurning hvernig gengur að fylla í hennar skarð.
Lykilmenn: Arianna Lynn Veland, Ása Björg Einarsdóttir og Colbert-tvíburarnir.
Fylgist með: Ragnheiður Tinna Hjaltalín er efnilegur leikmaður sem spilaði sjö leiki í Lengjudeildinni í fyrra. Hún hefur raðað inn mörkum í yngri flokkunum og er spennandi leikmaður.
Komnar
Arianna Lynn Veland frá Japan
Chante Sherese Sandiford frá Stjörnunni (verður aðstoðarþjálfari)
Heiðdís Emma Sigurðardóttir frá Stjörnunni (á láni)
Ísabel Jasmín Almarsdóttir frá Keflavík
Jada Lenise Colbert frá Bandaríkjunum
Jasmine Aiyana Colbert frá Bandaríkjunum
Mist Smáradóttir frá Stjörnunni (á láni)
Unnur Stefánsdóttir frá Þór/KA
Þuríður Ásta Guðmundsdóttir frá Haukum
Farnar
Birgitta Hallgrímsdóttir í Gróttu
Caitlin Rogers til Svíþjóðar
Eva Lind Daníelsdóttir í Keflavík (var á láni)
Irma Rún Blöndal í Keflavík (var á láni)
Írena Björk Gestsdóttir í Fram
Júlía Ruth Thasaphong í Keflavík
Lauren Houghton til Kanada
Okkar markmið eru töluvert hærri
„Það er bara gaman að því þegar verið er að spá í spilin bæði í fótboltanum og veðrinu og virðist það haldast í hendur að þær spár rætast mjög sjaldan," segir Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Fótbolta.net.
„Við erum ekki mikið að stressa okkur á því að vera spáð 8. sætinu. Við vitum alveg okkar gæði og trúum á okkar verkefni sem er að fara í gang á þessu tímabili."
Hann segir að spáin komi ekki mikið á óvart. „Þessi spá kemur mér ekkert mikið á óvart og er hún mjög líklega byggð á úrslitum í Lengjubikarnum. Þegar þú nærð ekki góðum úrslitum á undirbúningstímabilinu þá er liðum oftast spáð neðarlega en lítið er að marka flest lið á undirbúningstímabilinu þar sem mannskapurinn er aldrei allur saman kominn fyrr en deildin byrjar hjá flestum liðum í deildinni."
Um undirbúningstímabilið segir hann: „Úrslitin hafa ekki verið að detta með okkur í Lengjubikarnum í vetur og höfum við verið í töluverðum meiðslavandræðum í vetur. Fjölmargir leikmenn hafa fengið að spreyta sig í vetur, sem er mjög jákvætt, að geta gefið ungum leikmönnum tækifæri á því að sanna sig fyrir tímabilið. Við höfum spilað bæði góða og slæma leiki í vetur og úrslitin ekki alltaf okkur í hag en það er hluti af undirbúningstímabilinu að gera þau mistök sem þarf að gera til þess að læra af þeim og byggja sig upp fyrir tímabilið. Er ég sáttur með margt að því sem við höfum framkvæmt en einnig höfum við verið að vinna í þeim veikleikum sem hafa komið upp."
Anton er að fara inn í sitt fyrsta tímabil sem aðalþjálfari í meistaraflokksþjálfun og það leggst vel í hann.
„Það leggst bara mjög vel í mig og er ég mjög þakklátur fyrir traustið sem ég fæ með að stýra liðinu þetta tímabilið eftir að hafa verið Jóni Óla innan handar síðustu tvö tímabil. Það var mjög dýrmæt reynsla fyrir mig að hafa fengið að starfa með honum. Ég er virkilega spenntur fyrir komandi tímabili og tel ég okkur geta gert skemmtilega hluti í sumar. Ég hef unnið markvisst í því að koma mínum fótboltastíl á liðið og hvernig ég vill að liðið nálgist leikina og vona að það smelli saman akkurat núna í fyrsta leik."
„Það eru einhverjar breytingar frá síðasta tímabili á hópnum. Allir þrír erlendu leikmennirnir frá síðasta tímabili koma ekki aftur og svo færði Júlía Ruth sig yfir í Keflavík, En Grindvíski kjarninn er mjög góður og höfum við bætt við leikmönnum til þess að styrkja hann og fengið Heiðdísi og Mist á láni frá Stjörnunni og Ástu sem kom frá Haukum. Við vorum komin með þrjá erlenda leikmenn, en við urðum fyrir því áfalli að Mó sleit krossband eftir 90 sekúndur í fyrsta leik, svo hún mun ekkert spila, og er því von á öðrum hafsent í hennar stað og einum framherja í viðbót í hópinn."
Hann býst við jafnri deild og segir markmiðin hjá Grindavík vera meiri en þau að lenda í áttunda sæti. „Ég hugsa þetta verði mun jafnari deild en fólk á von á og tel ég að þetta verði allt hörkuleikir í sumar. Það verður spennandi að sjá hvernig spilast úr deildinni. Okkar markmið eru töluvert hærri en spáin segir til um."
„Ég vil bara hvetja fólkið, og sérstaklega þá iðkendur sem eru að æfa hjá Grindavík, að mæta í stúkuna í sumar og styðja við bakið á okkar liðum í sumar; skapa smá stemningu eins og hún var áður fyrr og aðstoða liðin í þeim markmiðum sem liggja fyrir í sumar," sagði Anton Ingi að lokum.
Fyrstu þrír leikir Grindavíkur:
2. maí, Fram - Grindavík (Framvöllur)
13. maí, Grindavík - FHL (Grindavíkurvöllur)
17. maí, Fylkir - Grindavík (Würth völlurinn)