Fernandes og De Bruyne til Sádí-Arabíu? - Salah fær nýjan samning - Calafiori til Arsenal
banner
   fim 04. júlí 2024 11:49
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þjálfarar Víkings farnir til Írlands
Arnar nokkuð sáttur eftir sigurinn í gær.
Arnar nokkuð sáttur eftir sigurinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stephen Bradley er stjóri Shamrock. Hann mætti á Kópavogsvöll í fyrra.
Stephen Bradley er stjóri Shamrock. Hann mætti á Kópavogsvöll í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á þriðjudaginn tekur Víkingur á móti Shamrock Rovers í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Viku síðar mætast svo liðin á Írlandi í seinni leiknum.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur því sigurliðið í einvíginu tryggir sér farseðil í umspil um sæti í riðlakeppni eins og sjá má hér neðst.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, og aðstoðarmaður hans, Sölvi Geir Ottesen, eru farnir til Írlands og munu sjá Shamrock taka á móti Dundalk í írsku deildinni í kvöld.

Shamrock hefur orðið írskur meistari fjögur ár í röð og mætti liðið Breiðabliki á sama stigi forkeppninnar í fyrra og Breiðablik vann báða leiki liðanna. Í dag situr Shamrock í 4. sæti írskur deildarinnar, fimmtán stigum á eftir Shelbourne sem hefur spilað leik meira.

„Nú er það bara Shamrock Rovers. Þetta heldur sumrinu gangandi. Það hefði verið súrt að fara inn í þá leiki með því að tapa þessum leik," sagði Arnar í viðtali eftir bikarsigurinn í gær.

„Við erum búnir að rýna í þá. Ég og Sölvi erum að fara (í dag) að horfa á leikinn (í kvöld). Við erum búnir að horfa á mikið af leikjum og teljum okkur þekkja þá mjög vel. Þetta voru hörkuleikir hjá þeim við Blikana en tilfinningin var sú að Blikarnir væru bara sterkari, væru sterkara fótboltalið og fóru verðskuldað áfram. Það er spurning hvort þeir hafa breyst frá því í fyrra. Þetta er Meistaradeildin, það er bara að njóta. Við höfum sex daga til að undirbúa okkur, sleikjum sárin og söfnum orku. Við ætlum okkur að fara áfram og mætum helpeppaðir í þann leik," sagði Arnar.

Ari Sigurpálsson, leikmaður Víkings, var sömuleiðis spurður út í Shamrock.

„Þetta leggst vel í okkur, held þetta verði erfiður leikur. Menn eru að segja að þeir séu sterkari en í fyrra þegar Blikarnir tóku þá. Þetta verður erfiður leikur. Við viljum vinna í þessari umferð því það gerir leiðina í riðlakeppni léttari," sagði Ari.

Leiðir Víkinga í umspil um riðakeppni í Evrópu:
Sigur gegn Shamrock --> Sigur í 2. umferð í MD --> Sigur í 3. umferð MD --> Umspil um sæti í riðlakeppni MD.
Sigur gegn Shamrock --> Sigur í 2. umferð MD --> Tap í 3. umferð í MD --> Umspil um sæti í riðlakeppni ED.
Sigur gegn Shamrock --> Tap í 2. umferð MD --> Sigur í 3. umferð í ED --> Umspil um sæti í riðlakeppni ED.
Sigur gegn Shamrock --> Tap í 2. umferð MD --> Tap í 3. umferð í ED ---> Umspil um sæti í riðlakeppni SD.
Tap gegn Shamrock --> Sigur í 2. umferð SD --> Sigur í 3. umferð SD --> Umspil um riðlakeppni SD.

MD er Meistaradeildin, ED er Evrópudeildin og SD er Sambandsdeildin.
Athugasemdir
banner
banner
banner