Joshua Zirkzee, VIctor Osimhen, Riccardo Calafiori, Conor Gallagher, Florian Wirtz og fleiri koma við sögu
   fös 05. júlí 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Argentína áfram eftir vítakeppni - Martínez kom til bjargar eftir 'Panenka' klúður Messi
Emiliano Martínez varði tvær vítaspyrnur í vítakeppninni
Emiliano Martínez varði tvær vítaspyrnur í vítakeppninni
Mynd: EPA
Lionel Messi klúðraði 'Panenka' spyrnu í vítakeppninni
Lionel Messi klúðraði 'Panenka' spyrnu í vítakeppninni
Mynd: Getty Images
Lisandro skoraði mark Argentínu eftir venjulegan leiktíma
Lisandro skoraði mark Argentínu eftir venjulegan leiktíma
Mynd: Getty Images
Argentína 1 - 1 Ekvador (4-2 eftir vítakeppni)
1-0 Lisandro Martinez ('35 )
1-0 Enner Valencia ('62 , Misnotað víti)
1-1 Kevin Rodriguez ('90 )

Ríkjandi meistarar Copa America í Argentínu komust áfram í undanúrslit mótsins með því að leggja Ekvador að velli eftir vítakeppni á NRG-leikvanginum í Houston í Texas-ríki í Bandaríkjunum í nótt.

Mark Argentínu gerði Lisandro Martínez með góðum skalla eftir vel útfærða hornspyrnu Lionel Messi.

Messi kom spyrnunni á Alexis Mac Allister sem skallaði hann aftur fyrir og á fjær þar sem Lisandro var einn og óvaldaður. Hann skallaði boltann í átt að marki og tókst markverði Ekvador að blaka boltanum aftur út, en hann fór allur inn fyrir og mark dæmt.

Fyrsta landsliðsmark Lisandro með Argentínu en hann var að spila sinn 21. landsleik.

Leikmenn Ekvador kölluðu eftir rauðu spjaldi á Cristian Romero, varnarmann Argentínu, snemma í síðari hálfleik. Romero var að senda boltann frá sér en þá kom Moises Caicedo á fulla ferð í átt að honum sem varð til þess að löpp Romero hafnaði á sköflungi Caicedo.

Af myndbandinu að dæma virðist erfitt að meta það hvort þetta hafi verið óviljaverk eða ekki. Leikmaður Perú fékk að líta rauða spjaldið á dögunum fyrir svipað atvik í leik gegn Kanada en Romero slapp við spjald í þessu atviki.

Tólf mínútum síðar gat Ekvador jafnað leikinn. Rodrigo De Paul handlék boltann í eigin teig. Vítaspyrna dæmd. Enner Valencia fór á punktinn en setti boltann í stöng.

Messi, sem hefur ekki enn skorað á mótinu, fékk ágætis færi til að gulltryggja Argentínu áfram en markvörður Ekvador varði vel.

Argentínumenn héldu að þeir væru nokkuð þægilega að landa sigri en þá kom Kevin Rodriguez, leikmaður Royale Union St. Gilloise í Belgíu, með jöfnunarmark Ekvador með skalla eftir fyrirgjöf. Markið þótti umdeilt þar sem liðið tók aukaspyrnu snemma og á meðan leikmaður Argentínu lá óvígur á vellinum.

Markið stóð og kom Ekvador í vítakeppni. Hún byrjaði á Messi en sá ætlaði að vera eitursvalur á punktinum og hlaða í 'Panenka' vítaspyrnu með því að vippa honum á mitt markið, en það fór ekki eins og hann hafði áætlað. Boltinn í slá og yfir markið.

Það kom ekki að sök. Messi gat treyst á Emiliano Martínez til að verja tvö víti á meðan þeir Mac Allister, Julian Alvarez, Gonzalo Montiel og Nicolas Otamendi skoruðu úr spyrnum sínum fyrir Argentínu og komu liðinu í undanúrslit þar sem þeir mæta Kanada eða Venesúela.


Athugasemdir
banner
banner
banner