
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings gat heldur betur glaðst eftir 3-1 sigur gegn KR í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Sigur Víkinga var að lokum sannfærandi og sanngjarn.
Viðtalið var tekið strax eftir leik, áður en Víkingar drógust gegn Fylki á útivelli í 8-liða úrslitunum.
Viðtalið var tekið strax eftir leik, áður en Víkingar drógust gegn Fylki á útivelli í 8-liða úrslitunum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 KR
„Við lögðum grunninn að sigrinum með frábærum kafla í fyrri hálfleik," sagði Arnar um leik kvöldsins en hann fer betur yfir leikinn í viðtalinu sem sjá má í spilaranum hér að ofan.
„Ég er frekar ósáttur við að skora ekki fleiri mörk. Það voru tækifæri til þess. Um leið og við létum boltann ganga þá fundum við nóg af opnunum."
Arnar var að vinna sinn fyrsta sigur á KR síðan hann tók við Víkingsliðinu.
„Þetta er keppni sem ég met mikils, minn fyrsti titill sem þjálfari. Við lögðum mikið á okkur til að vera með í hattinum í kvöld og við ætlum að verja þennan titil."
Erlingur Agnarsson var maður leiksins. Hann skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu og átti auk þess stoðsendingu.
„Hann hefur fengið gagnrýni en veit hversu mikils við metum hann hér í Víkinni. Hann sinnir ótrúlega mikilli varnarvinnu og er með betri framherjum í varnarvinnu í deildinni. En spilandi þetta framarlega þá gerir maður kröfu á að hann skori fleiri mörk. Hann veit það. Vonandi opnast flóðgáttirnar með þessu marki í kvöld."
Kári Árnason fór meiddur af velli í seinni hálfleik. Hvernig er útlitið varðandi hann, verður hann klár fyrir næsta leik?
„Það lítur ekkert sérstaklega vel út. Kári var að ströggla fyrir leik í náranum. Við eigum eftir að meta hann betur en þetta lítur ekki vel út."
Athugasemdir