þri 15.apr 2025 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 2. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Valur muni enda í öðru sæti Bestu deildar kvenna í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir röðuðu liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig. Valur rétt missti af titlinum í fyrra og það gerist aftur ef spáin rætist.
Matthías Guðmundsson og Kristján Guðmundsson stýra Val saman.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. Valur, 85 stig
3. Víkingur R., 72 stig
4. Þróttur R., 71 stig
5. Þór/KA, 67 stig
6. Stjarnan, 48 stig
7. FH, 47 stig
8. Fram, 25 stig
9. FHL, 19 stig
10. Tindastóll, 16 stig
Um liðið: Valskonum var spáð titlinum í fyrra og þær voru með pálmann í höndunum þegar deildin skiptist. Þær voru með forskotið á Blika, en Breiðabliksliðið var á þessum tíma illviðráðanlegt. Valur vann bikarúrslitaleikinn og það kveikti í þeim grænklæddu úr Kópavogi. Blikaliðið tók yfirhöndina eftir skiptingu en úrslitin réðust ekki fyrr en í lokaumferðinni þegar áhorfendamet var sett á leik Vals og Blika á Hlíðarenda. Valur þurfti að vinna þann leik en það tókst ekki. Hann endaði með markalausu jafntefli og Breiaðblik endurheimti Íslandsmeistaratitilinn í Kópavog. Valur fer núna inn í mótið í hefndarhug en það eru áhugaverðar breytingar hjá Hlíðarendafélaginu.
Þjálfararnir: Eftir að síðasta tímabili lauk þá ákvað Pétur Pétursson að hætta þjálfun liðsins. Hann hafði stýrt Val lengi og með frábærum árangri. Í hans stað koma tveir menn, Matthías Guðmundsson og Kristján Guðmundsson. Matthías er Valsari að upplagi en hann spilaði fyrir félagið og var svo aðstoðarþjálfari kvennaliðsins. Hann stýrði Gróttu á síðasta tímabili og kom liðinu næstum því upp úr Lengjudeildinni. Kristján þjálfaði meistaraflokk karla hjá Val fyrir nokkrum en síðast var hann þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar. Kristján er mun reynslumeiri þjálfari en Matthías en það verður áhugavert að sjá hvernig þeir vinna saman.
Álit Magga
Magnús Haukur Harðarson, fyrrum þjálfari Fjölnis, er sérfræðingur Fótbolta.net í Bestu deild kvenna. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru breyttir tímar á Hlíðarenda
„Breyttir tímar á Hlíðarenda en eftir sigursæl ár með Pétri Péturssyni (goðsögn) hafa Kristján Guðmundsson og Matthías Guðmundsson tekið við liðinu. Liðið varð bikarmeistari á síðasta tímabil og gerði svo jafntefli í lokaleik tímabilsins sem varð til þess að liðið endaði í öðru sæti."
„Það hefur gustað um leikmannahópinn í vetur en margir reynslumiklir leikmenn horfið á braut og ungir leikemnn verið keyptir inn sem partur af nýrri stefnu félagsins og hefur undirbúningstímabilið verið niður og upp en aðallega upp núna rétt fyrir mót en liðið vann Breiðablik 1-0 í uppgjöri meistara síðasta árs."
„Innkoma Jordyn Rhodes er í raun fullkominn þar sem liðinu vantaði sárlega níu til að skora þessi 15+ mörk sem þarf til að liðið geti keppt við Breiðablik á þessu tímabili. Með vel skipulagt lið og sterka hryggjarsúlu mun Valur heldur betur gera tilkall í að vinna Íslandsmeistartitilinn í haust en til að það gangi upp þurfa reynslumiklir leikmenn að halda sér heilum og taka ansi mikla ábyrgð til sín svo að ungu leikmennirnir geti gert sín mistök og lært af þeim."
„Valur gerir alltaf vel í umgjörð og vonandi skilar fólk sér á völlinn til að upprennandi stjörnur verða til og að sjá þessar eldri stjörnur leiða þær áfram."
Lykilmenn: Berglind Rós Ágústsdóttir og Jordyn Rhodes
Eftir að hún kom heim úr atvinnumennsku, þá hefur Berglind Rós komið frábærlega inn í Valsliðið og verið ótrúlega mikilvægur hlekkur á miðri miðjunni. Hún byrjaði báða leiki landsliðsins í síðasta verkefni og það segir mikið um þau gæði sem hún býr yfir. Hún hefur burði til þess að vera besti miðjumaðurinn í þessari deild og einn besti leikmaður deildarinnar. Þá mun það skipta miklu máli hversu vel Jordyn Rhodes leikur fyrir Valsliðið. Hún kom frá Tindastóli og þarf að vera eins öflug og hún var í fyrra svo Valur muni veita Breiðabliki samkeppni um Íslandsmeistaratitilinn í sumar. Hún ætti að geta skorað meira í Val en hún gerði fyrir Breiðablik í fyrra.
Gaman að fylgjast með: Arnfríður Auður Arnarsdóttir
Valur keypti efnilegasta leikmann Lengjudeildarinnar í sínar raðir í vetur. Aufí, eins og hún er kölluð, var keypt frá Gróttu eftir að hafa slegið í gegn á Seltjarnarnesinu. Hún var stórkostleg þegar Grótta komst næstum því upp í fyrra og Matthías, nýr þjálfari Vals, þekkir hana vel. Aufí er aðeins fædd árið 2008 en hún byrjaði gegn Breiðabliki á dögunum og það verður gaman að sjá hvernig hlutverk hún mun fá í þessu sterka Valsliði í sumar.
Komnar:
Jordyn Rhodes frá Tindastóli
Elín Metta Jensen frá Þrótti
Tinna Brá Magnúsdóttir frá Fylki
Hrafnhildur Salka Pálmadóttir frá Stjörnunni (var á láni hjá HK)
Sóley Edda Ingadóttir frá Stjörnunni
Arnfríður Auður Arnarsdóttir frá Gróttu
Esther Júlía Gustavsdóttir frá Keflavík (var á láni hjá ÍR)
Bryndís Eiríksdóttir frá Þór/KA (var á láni)
Eva Stefánsdóttir frá Fram (var á láni)
Ágústa María Valtýsdóttir frá ÍBV (var á láni)
Kolbrá Una Kristinsdóttir frá Gróttu (var á láni)
Snæfríður Eva Eiríksdóttir frá Aftureldingu (var á láni)
Farnar:
Fanney Inga Birkisdóttir til Häcken
Ísabella Sara Tryggvadottir til Rosengård
Berglind Björg Þorvaldsdótir í Breiðablik
Katie Cousins í Þrótt
Hailey Whitaker til Kanada
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í Víking
Málfríður Anna Eiríksdóttir til Danmerkur
Málfríður Erna Sigurðardóttir hætt og farin í stjórn Vals
Íris Dögg Gunnarsdóttir hætt
Samningslausar:
Anna Björk Kristjánsdóttir (1989)
Aníta Björk Matthíasdóttir (2009)
Valgerður Gríma Sigurjónsdóttir (2005)

Fyrstu fimm leikir Víkings:
16. apríl, Víkingur R. - Þór/KA (Víkingsvöllur)
22. apríl, Stjarnan - Víkingur R. (Samsungvöllurinn)
29. apríl, Víkingur R. - Þróttur R. (Víkingsvöllur)
3. maí, Breiðablik - Víkingur R. (Kópavogsvöllur)
9. maí, Víkingur R. - Fram (Víkingsvöllur)
Spámennirnir: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Anton Freyr Jónsson, Brynjar Óli Ágústsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Mist Rúnarsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Athugasemdir