Steinþór Már Auðunsson leikmaður KA betur þekktur sem Stubbur átti virkilega góðan leik milli stangana í kvöld þrátt fyrir að fá á sig 5 mörk þegar Club Brugge sigraði Akureyringa 5-1 í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 1 - 5 Club Brugge
„Við getum tekið helling út úr þessu, við spiluðum 6 hörku leiki og við unnum þrjá, gerðum eitt jafntefli og töpuðum tveim á móti Club Brugge. Ég held að það sé bara helvíti góður árangur."
Stubbur var frekar óvænt valinn í markið í dag þar sem hann hefur setið á bekknum eiginlega allt tímabilið. Hann átti góðan leik og gerir mögulega tilkall í að byrja fleiri leiki.
„Ég veit ekkert um það, það verður bara að fá að koma í ljós. Það er bara gaman að fá að spila fótboltaleik og tikka allavega í Evrópu boxið, þá er maður búinn með það."
Steinþór var að spila fyrsta Evrópu leik sinn á ferlinum og á móti risa stóru liði en hann segist ekkert hafa verið neitt meira stressaður.
„Nei ég get ekki sagt það, ég var furðu lítið stressaður fyrir þessum leik. Ég meina ég hafði engu að tapa og fór bara inn á til þess að hafa gaman og gera mitt besta og það gekk ágætlega."
KA getur enn tryggt sér Evrópu sæti á næsta tímabili annaðhvort með því að vinna Bikarúrslitaleikinn eða með því að ná í 4. sætið.
„Við ætlum alltaf að klára þennan bikar, það er alveg á hreinu sko og við stefnum á fjórða sætið svo Evrópa sé örugg svo við getum upplifað þetta aftur."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.