Joshua Zirkzee, VIctor Osimhen, Riccardo Calafiori, Conor Gallagher, Florian Wirtz og fleiri koma við sögu
banner
   fim 04. júlí 2024 20:40
Brynjar Ingi Erluson
Hamann ekki hrifinn af Bellingham - „Væri blessun fyrir Englendinga að vera án hans“
Jude Bellingham
Jude Bellingham
Mynd: Getty Images
Hver annar?
Hver annar?
Mynd: EPA
Didier Hamann hefur skoðanir á öllu
Didier Hamann hefur skoðanir á öllu
Mynd: Getty Images
Didier Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool og þýska landsliðsins, er ekkert sérlega hrifinn af enska landsliðsmanninum Jude Bellingham, en hann segir að það væri blessun ef England væri án hans gegn Sviss í 8-liða úrslitum Evrópumótsins.

Bellingham hefur verið hetja Englendinga til þessa. Hann gerði sigurmarkið í 1-0 sigrinum á Serbíu í riðlakeppninni og sá síðan til þess að England færi ekki heim af mótinu er hann skoraði stórkostlegri bakfallsspyrnu í uppbótartíma gegn Slóvakíu.

Englendingurinn hefur vissulega ekki verið stórkostlegur stóran hluta af mótinu og verið svolítið týndur eins og margir aðrir í liðinu, en hann hefur stigið upp á ögurstundu.

Hamann er ekki sammála um mikilvægi Bellingham en hann ræddi leikmanninn í viðtali við BILD. Möguleiki er á því að Bellingham verði í banni vegna látbragðs í leiknum gegn Slóvakíu en hann hefur neitað sök og segir þetta hafa verið beint til vinafólks.

   01.07.2024 14:21
UEFA skoðar atferli Bellingham


„Gareth Southgate hefði átt að taka Bellingham og Foden af velli mun fyrr. Nú er komin upp sú staða að heppni hans verði þvinguð ef Bellingham verður sendur í bann. Það væri jafnvel blessun fyrir liðið ef hann verður ekki með. Það gæti hjálpað liðinu því eitthvað þarf að gerast.“

„Flest allir sjá að þessi taktík er ekki að ganga upp. Southgate er sá eini sem sér það ekki. Það er fín lína á milli hollustu og þrjósku, en ég myndi alltaf velja heildina fram yfir einstaklingsgæði leikmanna. Þess vegna held ég að Sviss muni henda Englendingum úr leik,“
sagði Hamann.

Hamann minntist þá á ummæli sem Bellingham lét falla um dómarann Felix Zwayer eftir leik með Borussia Dortmund fyrir rúmum tveimur árum. Þar talaði hann um að fótboltasamband Þýskaslands hefði ráðið dómara sem hefur hagrætt úrslitum í stærsta leik þýsku deildarinnar.

Zwayer var vissulega dæmdur í sex mánaða bann af þýska fótboltasambandi fyrir aðild sína að hagræðingu úrslita, en það var líka hann sem tilkynnti höfuðpaurinn í málinu, dómarann Robert Hoyzer.

„Ég er ekki hrifinn af hegðun hans. Það var yfirlýsing fyrir tveimur og hálfu ári síðan hjá Dortmund þar sem hann talaði um dómarann Felix Zwayer, en slapp með sekt. Hann hefði átt að fá bann fyrir það.“

Hamann ræddi einnig um fagn Bellingham gegn Slóvakíu en hann fagnaði með því að segja: „Hver annar?“ . Það fór ekki vel í Hamann.

„Þú ert ekkert án liðsfélaga þinna og ef hann stendur þarna og segir þetta þá myndi ég hafa verulegan áhuga á því að heyra hvað liðsfélagarnir segja um þetta. Fyrir utan mörkin hefur hann ekkert sést í þessum fjórum leikjum. Ég myndi bíða og sjá hvar hann verður eftir 2-3 ár. Við þurfum ekki að tala um þá staðreynd að hann sé hæfileikaríkur leikmaður en það hafa hlutir gerst sem hann ætti ekki að gera.“

„Hann er í raun að segja að ef hann skorar ekki þá mun enginn annar gera það. Þetta eru ekki iðnaðarmenn sem eru að spila með honum. Þetta hefur líka svolítið með það að gera að vera jarðbundinn og bera virðingu fyrir liðsfélögunum. Það virðist vanta hjá honum, en jafnvel í mestu alsælu ætti þetta ekki að gerast. Þetta virðist hins vegar vera í hausnum á honum. Hann skorar ekki mark og man síðan skyndilega að hann sé bestur og mestur. Það virðist vera hluti af honum, en hann þarf að fara varlega,“
sagði Hamann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner