banner
   fim 04. júlí 2024 19:23
Brynjar Ingi Erluson
Kirby með Maríu í myndsímtali er hún var kynnt hjá Brighton - „Áttum spennandi samtal“
Fran Kirby með Maríu á FaceTime er hún var kynnt til leiks
Fran Kirby með Maríu á FaceTime er hún var kynnt til leiks
Mynd: Heimasíða Brighton
Maríu tókst að sannfæra Kirby um að koma til Brighton
Maríu tókst að sannfæra Kirby um að koma til Brighton
Mynd: Getty Images
Fran Kirby, ein sú besta í sögu ensku WSL-deildarinnar, hefur samið við Brighton en hún kemur á frjálsri sölu frá Englandsmeisturum Chelsea.

Kirby, sem er 31 árs gömul, eyddi níu árum hjá Chelsea þar sem hún vann samtals fjórtán titla.

Tvisvar hefur hún verið valin besti leikmaður deildarinnar. Fyrst tímabilið 2017-2018 og síðan aftur þremur árum síðar. Á tíma hennar hjá Chelsea skoraði hún 115 mörk í 205 leikjum.

Enska landsliðskonan er talin með þeim allra bestu í sögu deildarinnar og er þetta því gríðarlegur hvalreki fyrir Brighton sem hafnaði í 9. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Kirby var í enska landsliðshópnum sem vann Evrópumótið árið 2022 en gat ekki verið með á HM á síðasta ári vegna meiðsla. England komst þá í úrslitaleikinn.

Hjá Brighton hittir hún Maríu Þórisdóttur. María er dóttir Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta.

Þær voru einmitt liðsfélagar hjá Chelsea og hafði Kirby samband við hana til að fá betri tilfinningu fyrir verkefningu sem er í gangi hjá Brighton.

„Ég vildi halda áfram í deildinni og átti ég afar spennandi samtöl við Brighton og fyrrum liðsfélaga minn, Maríu, um metnað félagsins varðandi framtíðina,“ sagði Kirby við heimasíðu félagsins.

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni ræddu Kirby og María einnig saman þegar enska landsliðskonan var kynnt til leiks hjá Brighton. Greinilega mjög nánar.


Athugasemdir
banner
banner
banner