Man Utd heldur áfram að reyna við Dorgu, Neymar er til í að fórna launum til að komast til Santos og Aston Villa hefur áhuga á varnarmanni Chelsea
   fös 17. ágúst 2018 18:14
Elvar Geir Magnússon
Yfirlýsing vegna ásakana Þóru - „Á ekki við nein rök að styðjast"
Mynd: Raggi Óla
Þórður Georg Lárusson, fyrrum þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, hefur sent frá sér yfirlýsingu.

Yfirlýsingin kemur vegna ásakana Þóru B. Helgadóttur, fyrrum markvarðar kvennalandsliðsins. Smelltu hér til að lesa nánar um þær.

Hér má sjá yfirlýsingu Þórðar:

Til þeirra sem málið varðar

Á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík í gær, sem bar yfirskriftina „Kyn og íþróttir“ hélt Þóra Helgadóttir tölu undir yfirskriftinni „Girl in a man‘s world – A story from a former professional football player“. Í máli sínu vék hún að undirrituðum og bar mig alvarlegum ávirðingum.

Þær ásakanir eiga ekki við nein rök að styðjast. Svo langt var gengið að vísa til þess að ég eigi að hafa verið drukkinn í landsliðsverkefni og reynt að fá leikmenn liðsins uppá herbergi með mér. Þessum ásökunum vísa ég alfarið á bug.

Ég hef aldrei á starfsævi minni blandað saman áfengi og vinnu og því síður hefði mér dottið í hug að reyna að fá leikmenn til þess að koma upp á herbergi með mér. Það geta þeir sem mig þekkja vitnað til um. Það er ljóst að ef ég hefði verið undir áhrifum áfengis og freistað þess að misnota stöðu mína hefði verið tekið strax á slíku máli.

Mér er misboðið að vegið sé að persónu minni og æru með svona aðdróttunum. Ég hef alla tíð freistað þess að leggja mig allan fram í verkefnum mínum, hvaða nafni sem þau nefnast. Það kann vel að vera að leikmenn liðsins hafi verið ósáttir við þjálfunaraðferðir mínar, enda lögðust þær gegn því að ég héldi áfram með liðið. Það er eitt. Það er hins vegar allt annað að bera mig alvarlegum ásökunum um að ég hafi freistað þess að misnota aðstöðu mína. Það myndi ég aldrei gera og vísa ég þeim ásökunum algerlega á bug.

Ég mun ekki tjá mig frekar um þetta mál.
Þórður Georg Lárusson
Athugasemdir
banner
banner