
„Við mætum hérna liði með bullandi sjálfstraust og vissum að þetta yrði erfitt. Við mætum hérna með fína baráttu sem við þurftum að hafa í farteskinu. Mér fannst strákarnir okkar vera nokkuð góðir í fyrri hálfleik og förum með verðskuldaða forystu inn í hálfleik.“ sagði Tryggvi Guðmundsson aðstoðarþjálfari ÍBV eftir útisigur þeirra á Þrótturum í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld.
Abel Dhaira byrjaði leikinn í markinu hjá ÍBV og var það eina breyting Eyjamanna úr leiknum gegn FH á sunnudaginn var.
„Við erum með tvo rosalega góða markmenn og maður fær eiginlega samviskubit í hvert skipti sem maður horfir Abel á bekknum. Hérna var gott tækifæri fyrir hann til að sýna sig fyrir öðrum en okkur þjálfurunum og hann stóð sig vel.“
„Ég er sáttur með Aron, Víði, Gunna Þorsteins og Mees inni á miðjunni. Vörnin var solid og Abel góður. Það er búið að vera mikill stígandi í leik Arons og Víðis og þeir eru með hæfileika sem ég vildi að ég hefði haft þegar ég var í boltanum. Þeir eru með mikla tækni og mikinn hraða og eru farnir að nýta sér það betur.“
Þegar hann var spurður út í draumamótherja í næstu umferð vildi Tryggvi alla vega ekki þurfa að spila í bláum búningum.
Við erum búnir að spila í bláum búningum í síðustu tveimur umferðum þannig að ég vona að við mætum einhverjum hvítum og heima. Það er gaman að spila á Hásteinsvelli.“
Athugasemdir