Eyjamenn þurftu að sætta sig við sitt sjöunda tap í röð þegar þeir sóttu Grindavík heim á Mustad völlinn í Grindavík. Eftir góðan fyrri hálfleik þar sem Eyjamenn náðu forystu og leiddu í hálfleik fengu þeir tvö mörk á sig í þeim síðari og þurftu því frá að hverfa stigalausir.
Lestu um leikinn: Grindavík 2 - 1 ÍBV
„Ef ég vissi svarið værum við ekki að fara frá Grindavík með 2-1 tap,“ sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, um hvað hefði gerst í síðari hálfleik og bætti svo við: „Ég sagði bara við strákana í hálfleik að halda áfram að gera það sem var að virka vel í fyrri hálfleik. Vera þéttir, pressa á rétta mómentinu en mér fannst fyrstu 5-10 mínúturnar í seinni eins og við værum bara að bíða eftir marki. Við vorum alltof neðarlega og vorum ekki að gera það sem við gerðum vel í fyrri hálfleik.“
Þjálfarar ÍBV töluðu um eftir tap liðsins gegn Fylki að talsvert hafi vantað upp á baráttu Eyjamanna í þeim leik. Var annað upp á teningnum í dag?
„Já klárlega þetta var allt annað hjá okkur sérstaklega í fyrri hálfleik og líka stóran hluta af seinni hálfleik það var 10-15 mínútna kafli sem við vorum of langt frá mönnum en fyrir utan það er ég bara mjög ánægður hvernig menn voru að leggja sig fram í dag.“
Næsti leikur ÍBV fer fram næsta laugadag á Þjóðhátíð í Eyjum gegn HK. Er einhver betri staður til að snúa dæminu við en þar?
„Það verður bara vonandi brjáluð og góð stemming og vonandi getum við byrjað þar að snúa þessu þar við og ná í þrjú stig á móti HK.“
Sagði Ian Jeffs en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir