Eze, Rabiot, Dyche, Howe og miðjumannsleit Liverpool í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 31. ágúst 2024 18:28
Brynjar Ingi Erluson
England: Haaland skoraði þrennu annan leikinn í röð
Haaland er engum líkur
Haaland er engum líkur
Mynd: EPA
Haaland er kominn með 7 mörk í 3 deildarleikjum á þessu tímabili
Haaland er kominn með 7 mörk í 3 deildarleikjum á þessu tímabili
Mynd: EPA
West Ham 1 - 3 Manchester City
0-1 Erling Haaland ('10 )
1-1 Ruben Dias ('19 , sjálfsmark)
1-2 Erling Haaland ('30 )
1-3 Erling Haaland ('84 )

Englandsmeistarar Manchester City unnu 3-1 sigur á West Ham í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Ólympíuleikvanginum í Lundúnum í kvöld. Erling Braut Haaland skoraði öll mörk gestanna í leiknum.

Haaland skoraði fyrsta markið á 10. mínútu. Heimamenn gáfu gestunum markið á slifurfati. Bernardo Silva vann boltann fyrir utan vítateig West Ham, var fljótur að stinga honum inn fyrir á Haaland sem var ekki í neinum vandræðum með að afgreiða boltann í netið.

Hamrarnir jöfnuðu metin níu mínútum síðar með smá heppni. Jarrod Bowen fékk boltann hægra megin á vængnum, hljóp inn að teignum og kom með fyrirgjöfina inn í teiginn sem Ruben Dias stýrði í eigið net.

Það kom ekki að sök. Haaland kom Man City yfir þegar hálftími var liðinn af leiknum. Rico Lewis lagði boltann út í teiginn á Haaland sem þrumaði honum í þaknetið. Gríðarlega öruggt skot og hans sjötta deildarmark á tímabilinu.

Man City fór með forystu inn í hálfleikinn en það var West Ham sem byrjaði betur í þeim síðari.

Mohammed Kudus sýndi frábæra takta vinstra megin á vellinum. Hann lék á nokkra áður en hann keyrði upp vænginn, skiptist á sendingum við Bowen áður en hann fékk boltann aftur við teiginn, en skot hans í stöng. Ganamaðurinn óheppinn.

West Ham átti fína kafla í leiknum en ekki tókst að koma boltanum í netið.

Haaland gerði síðan út um leikinn þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og fullkomnaði um leið þrennu sína. Matheus Nunes fann Haaland inn fyrir, sem komst einn á móti markverði og eftirleikurinn auðveldur.

Þetta var önnur þrennan í röð hjá Haaland og ekki í fyrsta sinn sem hann nær þeim áfanga en hann gerði það einnig á fyrsta tímabili sínu með liðinu.

Norðmaðurinn hefur nú skorað 70 mörk í 69 deildarleikjum sínum með Man City frá því hann kom frá Borussia Dortmund fyrir tveimur árum. Ótrúlegur.

Lokatölur í Lundúnum, 3-1. Man City hefur unnið alla þrjá leiki sína á tímabilinu en West Ham aðeins unnið einn og tapað tveimur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner