Eze, Rabiot, Dyche, Howe og miðjumannsleit Liverpool í slúðurpakka dagsins
   sun 01. september 2024 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Sol Bamba er látinn
Sol Bamba
Sol Bamba
Mynd: Cardiff City
Fyrrum fótboltamaðurinn Sol Bamba er látinn aðeins 39 ára að aldri.

Bamba hóf feril sinn hjá Paris Saint-Germain í Frakklandi en fór þaðan til Skotlands þar sem hann samdi við Dunfermline og síðar Hibernian.

Einnig lék hann með Leicester, Trabzonspor, Palermo og Leeds áður en hann gekk í raðir velska félagsins Cardiff City árið 2016.

Þar var hann í miklum metum en hann var hluti af liðinu sem komst upp í úrvalsdeildina árið 2018. Bamba var valinn í lið ársins í ensku B-deildinni fyrir frammistöðu sína.

Árið 2021, þá á mála hjá Cardiff, greindist hann með hvítblæði, en hann tilkynnti fjórum mánuðum síðar að hann væri laus við krabbameinið eftir að hafa gengist undir lyfjameðferð.

Bamba samdi við Middlesbrough sama ár en lagði skóna á hilluna eftir tímabilið og hélt út í þjálfun. Hann var aðstoðarþjálfari hjá Cardiff frá janúar 2023 og út tímabilið, en fékk ekki nýjan samning.

Fílabeinsstrendingurinn, sem lék 46 landsleiki fyrir þjóð sína, starfaði hjá tyrkneska félaginu Adanaspor áður en tilkynnt var um andlát hans í gær.

„Soleymane Bamba, tæknilegur stjórnandi okkar, veiktist fyrir leikinn gegn Manisa Football Club í gær og var fluttur á Manisa Celal Bayar University-spítalann, en tapaði því miður baráttu sinni þar. Við sendum fjölskyldu hans og samfélaginu okkar samúðarkveðjur,“ segir í tilkynningu Adanaspor.

Cardiff, Leeds og Middlesbrough sendu frá sér tilkynningu stuttu eftir að greint var frá fregnunum og vottuðu fjölskyldu hans samúð.
Athugasemdir
banner
banner
banner