Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   þri 04. júní 2024 12:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það er alltaf von" - Frábært framtak FH með nýjum búningi
Úlfur Ágúst fagnar marki í treyjunni gegn Fram.
Úlfur Ágúst fagnar marki í treyjunni gegn Fram.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Skjáskot
FH gaf á dögunum út frábært myndband í tilefni af nýjum búningi sem félagið gaf út. Nýi þriðji búningurinn, sem er gulur, var opinberaður í Kaplakrika á föstudaginn fyrir leik FH-Fram í Bestu deild karla.

Í fyrra notaði FH þriðja búninginn til að styrkja Krabbameinsfélags Íslands og var sá búningur bleikur. Núna notar félagið tækifærið til að styrkja annað mjög svo mikilvægt málefni: PÍETA.

„Strax eftir að sú bleika varð uppseld fórum við að skoða hvað við gætum gert að ári. Okkur langaði ekki bara að breyta um lit og halda sömu merkingum heldur vildum við gera eitthvað nýtt og ferskt," segir Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH.

„Ég og Ólafur Þór Kristinsson, grafískur hönnuður, tókum samtalið, hófum hönnun og prófuðum ýmsar útgáfur. Guli liturinn varð fyrir valinu og Píeta samtökin varð málefnið sem við ætluðum að styrkja. Allar merkingar eru settar í 80´s búning, sóttum í eldri logo í einhverjum tilvikum, ný númer og “Það er alltaf von” slagorð Píeta er aftan á hálsmálinu."

„Myndbandið er líklega það flottasta sem við höfum gert og Freyr Árnason og Orri Freyr eiga þar allt hrós skilið. Við héldum þar í hefð sem hefur skapast að vinna með hafnfirskum tónlistarmönnum en rapparinn ISSI les inn textann. Lokaskotið í myndbandinu er fallegt þar sem Jón Páll heldur á treyju ungs FH-ings Orra Ómars, sem fór frá okkur alltof snemma. En Jón Páll þjálfaði hann upp alla yngri flokka FH."

Þetta er afskaplega flott verkefni hjá FH en 1000 krónur af hverri seldri treyju mun renna óskipt til PÍETA samtakanna. Auður ætlar svo að tvöfalda þá upphæð sem safnast.

Hægt er að nálgast treyjuna með því að smella hérna.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Þá er hægt að nálgast upplýsingar um Píeta samtökin hérna.



Athugasemdir
banner
banner