Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   mið 05. júní 2024 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Steini nálgast Frey í sigurleikjum - Með besta sigurhlutfallið
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Freyr stýrði kvennalandsliðinu frá 2013 til 2018.
Freyr stýrði kvennalandsliðinu frá 2013 til 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson nálgast Frey Alexandersson yfir landsliðsþjálfara kvenna sem hafa unnið næstflesta leiki við stjórnvölinn.

Af þeim þjálfurum sem hafa stýrt liðinu í yfir 20 leikjum er hann Þorsteinn þá með besta sigurhlutfallið.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson er með flesta sigra sem landsliðsþjálfari Íslands en hann stýrði liðinu frá 2007 til 2013. Undir hans stjórn spilaði Ísland 77 leiki og vann 39 þeirra. Liðið gerði átta jafntefli og tapaði 30.

Freyr Alexandersson stýrði liðinu í 59 leikjum og vann 28 þeirra. Þrettán enduðu með jafntefli og 19 með tapi. Jón Þór Hauksson tók svo við og stýrði liðinu í 20 leikjum, en tólf þeirra enduðu með sigri. Hann er með 60 prósent sigurhlutfall en stýrði liðinu aðeins í 20 leikjum.

Undir stjórn Steina hefur Ísland spilað 41 leik en 23 þeirra hafa endað með sigri. Átta endað með jafntefli og tíu með tapi samkvæmt gögnum KSÍ. Hann vantar fimm sigurleiki til að ná Freysa og spurning hvort honum takist það í færri leikjum; góðar líkur eru á því.

Steini hefur á tímum þurft að sæta mikilli gagnrýni sem landsliðsþjálfari en liðið hefur gengið í gegnum miklar breytingar undir hans stjórn. Í síðustu leikjum hefur íslenska liðið spilað á löngum köflum vel og náð í góð úrslit. Líklega voru hans bestu úrslit til þessa í gær þegar liðið vann frábæran heimasigur gegn Austurríki í undankeppni EM 2025.

Ísland er núna í afar góðum málum í riðli sínum í undankeppninni upp á það að komast beint á EM. Það skýrist seinna í sumar hvort það takist hjá liðinu.

Sigrar hjá landsliðsþjálfurum Íslands:
1. Sigurður Ragnar Eyjólfsson - 39 sigrar (77 leikir)
2. Freyr Alexandersson - 28 sigrar (59 leikir)
3. Þorsteinnn Halldórsson - 23 sigrar (41 leikir)
4. Jón Þór Hauksson - 12 sigrar (20 leikir)
5. Logi Ólafsson - 6 sigrar (14 leikir)
6. Jörundur Áki Sveinsson - 6 sigrar (21 leikir)
7. Helena Ólafsdóttir - 5 sigrar (14 leikir)
8. Sigurbergur Sigsteinsson - 4 sigrar (8 leikir)
9. Kristinn Björnsson - 3 sigrar (16 leikir)
Aðrir tóku einn sigur eða minna.

Sigurhlutfall hjá þjálfurum með meira en 20 leiki:
1. Þorsteinn Halldórsson - 56,1%
2. Sigurður Ragnar Eyjólfsson - 50,6%
3. Freyr Alexandersson - 47,6%
4. Jörundur Áki Sveinsson - 28,6%
Athugasemdir
banner
banner
banner