fös 07.apr 2023 18:46 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Meðeigandi apóteks samhliða fótboltanum þrátt fyrir ungan aldur
Brynjar Atli Bragason, markvörður Breiðabliks, byrjaði ungur að árum að vinna í Reykjanesapóteki í Njarðvík. Í kjölfarið hóf hann nám í lyfjafræði og er núna að taka meistaragráðu. Að því námi loknu getur hann kallað sig lyfjafræðing en það býður upp á fjölbreytt störf. Brynjar er nýorðinn 23 ára en á þrátt fyrir það hlut í Reykjanesapóteki á Fitjum, nýju apóteki sem hann stofnaði ásamt samstarfsfólki sínu. Það er nóg að gera hjá honum en í sumar stefnir hann á að verða Íslandsmeistari með Breiðabliki í annað sinn.
'Mér líst mjög vel á tímabilið. Það er gaman að vera liðið sem hin liðin þurfa að fella til að ná í titilinn'
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
„Við áttum góða keppnisferð til Portúgal þar sem við spiluðum tvo leiki við sterk lið. Mér finnst það heppnast vel þessi hugsunarháttur hjá Breiðabliki að fara frekar í keppnisferð heldur en æfingaferð. Ferðin verður líkari Evrópukeppnisferð og er þar af leiðandi góður grunnur fyrir Evrópukeppnina."
Er að taka meistagráðu í lyfjafræði
Ásamt fótboltanum þá stundar Brynjar nám í lyfjafræði. Hann er útskrifaður með B.S. gráðu í faginu en er núna að taka meistaragráðu. Þegar hann er búinn með hana þá getur hann formlega titlað sig lyfjafræðing.
„Ég sé alls ekki eftir því að hafa valið lyfjafræðina."
„Ég er í lyfjafræði. Ég byrjaði að vinna í Reykjanesapóteki í Njarðvík fyrir nokkrum árum. Ég man að ég hugsaði að mig langaði ekki að vinna í bæjarvinnunni, mér fannst það frekar óspennandi. Ég frétti að það væri að opna apótek í Njarðvík og ég hringdi í eigandann, Sigríði Pálínu Arnarsdóttur. Ég vissi ekkert hvað ég væri að fara út í en svo leist mér vel á starfsemina þar. Reykjanesapótek byrjaði sem lítið krúttlegt apótek í Njarðvík en við höfum farið stækkandi með árunum og erum líklega orðið stærsta apótekið á Suðurnesjum."
„Svo var ég að velja mér háskólanám og vissi ekkert hvað ég vildi velja. Þá benti Sigríður mér á að skrá mig í lyfjafræði. Ég ákvað að hlusta á hana. Fyrstu þrjár annirnar var þetta ekki eitthvað sem mér fannst að ég ætti að vera að gera. Ég var mjög stutt frá því að skrá mig úr náminu, en það var einhver þrjóska í mér sem sagði mér að halda áfram. Ég fann það á öðru árinu að þetta hentaði mér meira og meira. Ég sé alls ekki eftir því að hafa valið lyfjafræðina."
Brynjar segir að þetta nám búi til fjölbreytta möguleika þegar kemur að störfum í framtíðinni.
„Það halda flestir að þetta snúist bara um apótek en þetta er ótrúlega fjölbreytt. Maður áttar sig ekki á því fyrr en maður fer í námið. Þetta er allt frá því að starfa í apóteki, á spítala, í innflutningi á lyfjum, framleiðslu á lyfjum og að þróa lyf. Það er fullt til af störfum fyrir lyfjafræðinga. Það eru flestir sem halda að þetta sé apótek og ekkert annað en það er líklega af því að fólk er í mestum samskiptum við lyfjafræðinga í apótekum."
Á sjálfur hlut í apóteki
Brynjari bauðst skemmtilegt tækifæri eftir að hann útskrifaðist með B.S. gráðu í lyfjafræði.
„Það er gríðarlega spennandi að geta tekið þátt í svona verkefni."
„Ég kláraði B.S. gráðu síðasta sumar og þá bauðst mér og kollegum mínum að kaupa annað apótek. Við gerðum það. Við opnuðum annað apótek í Njarðvík sem heitir Reykjanesapótek Fitjar. Það er gríðarlega spennandi að geta tekið þátt í svona verkefni þegar ég er ungur, að fjárfesta í sjálfum sér. Það er skemmtilegra að fjárfesta í svona frekar en Icelandair eða Arion Banka eins og allir sérvitringar landsins, að fara aðra leið," segir Brynjar.
„Þetta var geggjað tækifæri sem Sigríður bauð mér og öðrum að taka þátt í. Að vera hluthafi í apóteki er mjög spennandi og eitthvað sem ég mun reyna að vinna með í framtíðinni. Við erum nokkrir lyfjafræðinemar og lyfjafræðingar í apótekinu og erum að reka það saman. Það gengur framar vonum en við opnuðum síðasta haust."
„Við erum sjö saman með þetta nýja apótek, lyfjafræðingar, lyfjafræðinemar og svo er einn viðskiptafræðingur með okkur. Við erum sjö manna hópur sem erum að gera þetta saman. Með skóla og fótboltanum gefst lítill tíma til að vinna í apótekinu núna. En ég tek einhverjar vaktir í báðum apótekum. Ég er mikið að einbeita mér að náminu núna og fer í sumar að einbeita mér að apótekinu meira. Ég verð að klára námið til að fá starfsleyfi sem lyfjafræðingur."
Það eru áhugaverð verkefni í gangi í apótekinu.
„Reykjanesapótek fór nýverið af stað með tilraunaverkefni sem kallast lyfjastoð. Við erum í samstarfi með Heilbrigðisráðuneytinu og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við fengum styrk til að þróa verkefnið áfram. Markmiðið er að draga úr rangri lyfjanotkun og tryggja öruggari innleiðingu meðferða hjá sjúklingum. Þetta verkefni sem við erum að þróa fer fram í báðum apótekum og hefur fengið mjög góðar viðtökur sem við erum þakklát fyrir."
Það er óskrifað blað eins og er
Brynjar klárar námið næsta sumar, en hvað er planið hjá honum þá?
„Ég mun allavega halda mínum hlut í apótekinu, hvort sem ég fer að vinna þarna á fullu eða ekki. Kærasta mín býr út á Ítalíu og er að spila fótbolta þar. Kannski kíkir maður eitthvað út á hana og mögulega eru einhver verkefni fyrir mig þar sem lyfjafræðingur eða þá að ég haldi áfram í fótboltanum þar. Það er óskrifað blað eins og er, en ég mun alltaf vera innviklaður í Reykjanesapótek," segir Brynjar.
Kærasta Brynjars er Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í fótbolta. Þau hafa verið lengi saman en hafa undanfarin ár verið í fjarsambandi þar sem Alexandra er atvinnukona hjá Fiorentina á Ítalíu.
„Ég er mjög þakklátur fyrir það og það er stór ástæða fyrir því að maður er í Breiðabliki."
„Við erum búin að vera í fjarsambandi í tvö ár. Það hefur gengið mjög vel. Ég reyni að fara út og heimsækja hana þegar ég get. Námið hentar ekki frábærlega í það að skreppa mikið út því það er svo mikið staðnám í lyfjafræðinni. Óskar (Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks) er búinn að hjálpa mér mikið að hleypa mér út þegar ég þarf á því að halda og þegar minna er að gera í skólanum. Ég er mjög þakklátur fyrir það og það er stór ástæða fyrir því að maður er í Breiðabliki. Þó svo að þetta hafi verið krefjandi púsluspil þá hefur þetta gengið nokkuð vel."
Hann segir það heillandi hugsun að flytja til Ítalíu þegar náminu er lokið.
„Það er heillandi að flytja til Ítalíu og prófa að búa þar. Flórens er geggjuð borg. Lífstíllinn og menningin hjá Ítalanum er eitthvað sem heillar mig mikið. Hún bjó í Frankfurt áður en það var svolítið kalt umhverfi. Ítalarnir taka manni fagnandi og það er þægilegra umhverfi."
Var líka í landsliðinu í körfubolta
Brynjar lék upp alla yngri flokkana með Njarðvík í fótboltanum en hann var einnig í körfubolta. Hann var í landsliðunum í báðum íþróttum.
„Ég er uppalinn í Njarðvík og lék þar upp alla yngri flokkana. Ég fór á reynslu til Sheffield United í Englandi en meiddist á nára um leið og ég kom heim. Ég var frá í einhverja fjóra mánuði. Það gekk ekki upp. Svo fór ég til Bolton líka, en það var aðeins skrítnara og Sheffield United heillaði mig meira."
„Ég var í körfubolta þar til ég var 16 ára. Ég ákvað að hætta í körfu þegar ég frétti af Sheffield United. Þá var kominn tími á að velja íþrótt. Ég hef alltaf verið með marga bolta á lofti. Ég spilaði körfubolta með Njarðvík og með yngri landsliðunum. Eitt sumarið hoppaði ég úr U17 landsliðsverkefni með fótboltanum beint yfir í körfuna. Það var líka mjög gaman. Ég spilaði allar stöður í körfuboltanum, frá ás til fimmu eftir því hvað þurfti. Ég var vinnuþjarkur og var oft settur á besta manninn í hinu liðinu. Ég spilaði bara þar sem þjálfarinn þurfti að nota mig."
Hann segir að það hafi verið erfitt að velja á milli fótbolta og körfubolta.
„Það var erfitt að taka ákvörðun, eiginlega það erfiðasta sem ég hafði gert á þeim tíma. Njarðvík er mikill körfuboltabær og það er mikil ást gagnvart körfubolta. Mér finnst körfubolti mjög skemmtilegur og fylgist enn mikið með honum. Svo þarf maður að taka ákvörðun en ég sé ekki eftir henni þó maður sakni körfuboltans. Alexandra þurfti líka að velja á milli handbolta og fótbolta, og var fótboltinn líka fyrir valinu hjá henni."
Atvinnumennskan væri ekki fyrir mig
Eins og áður segir þá fór Brynjar á reynslu til Englands þegar hann var yngri og það var áhugi á honum, en hann segir að eftir á að hyggja sé hann ekki svekktur með að hafa ekki farið út. Honum þykir vænt um þau verkefni sem hann er að vinna hér heima og þótti mikilvægt að mennta sig.
„Á þeim tíma var mjög svekkjandi að missa af Sheffield United. Þeir höfðu samband við Njarðvík og voru áhugasamir. Svo datt það upp fyrir sig þegar ég meiddist. Eftir á að hyggja er ég sáttur að hafa ekki farið út. Þegar ég fór til Bolton fann ég að mig langaði ekki út. Atvinnumennska var ekki eitthvað sem ég var heitur fyrir. Eftir á að hyggja er ég glaður með þetta, að hafa klárað skólann hér heima og hafa ekki farið út."
„Ég hélt alltaf að ég vildi verða atvinnumaður í fótbolta þangað til ég var svona 18-19 ára. Ég leit aftur í tímann þegar ég fékk þessa spurningu áður fyrr - hvort ég væri svekktur - og ég var ekkert það svekktur þegar ég fór að hugsa út í það. Ég veit ekki alveg hvað það var. Mér þykir vænt um það sem ég er að gera hér heima og þetta var ekki alveg að henta mér. Kannski var það England, ég veit það ekki. Það er mikill akademíufílingur á Englandi. Ég hef alltaf stefnt á því að mennta mig eitthvað og það var ofarlega í huga hjá mér að ég myndi þá kannski sóa því að mennta mig þegar ég var ungur. Það var eitthvað í hausnum á mér sem sagði við mig að atvinnumennskan væri ekki fyrir mig."
Hann er algjör goðsögn
Brynjar tók sín fyrstu skref í meistaraflokki með uppeldisfélagi sínu Njarðvík og lék einnig með Víði Garði á láni.
„Hann er algjör goðsögn og það er gaman að geta sagt að hann hafi þjálfað mann."
„Það var geggjað að spila fyrir uppeldisfélagið og taka þátt í því þegar þeir fara upp í næst efstu deild. Ég fór svo í Víði árið eftir til að fá reynslu og það var líka frábært, þar fæ ég traustið í fyrsta sinn sem aðalmarkvörður. Ég var 18 ára og það var mjög skemmtilegur tími. Víðir er fjölskyldufélag og átti ég mjög góðan tíma þar. Eftir það fékk traustið hjá Njarðvík í næst efstu deild. Ég var þakklátur að fá traustið í Njarðvík," segir Brynjar en hann fylgist enn með Njarðvíkingum og vonast hann til að fótboltadeild félagsins muni taka skref fram á við á næstu árum.
Brynjar ákvað að breyta til eftir tímabilið 2019 er Njarðvík féll úr Lengjudeildinni.
„Mér fannst kominn tími á að breyta til og taka annað skref. Það voru félög í efstu deild sem heyrðu í mér. Ég var kominn niður í það að velja á milli KR og Breiðabliks. Ég var nálægt því að velja KR en svo var eitthvað sem heillaði mig við Breiðablik. Óskar var nýtekinn við og ég hafði spilað oft á móti honum þegar hann var í Gróttu. Þetta var öðruvísi fótbolti og hann hreif mig. Ég vildi fara á láni á fyrsta tímabilinu og Breiðablik var tilbúið að gera það. Þeir sýndu meiri áhuga á mér og ég ákvað á endanum að taka þá fram yfir KR," segir Brynjar en hann fór svo til Víkings Ólafsvíkur á láni. Þar spilaði hann undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar.
„Það var frábær reynsla að fara til Ólafsvíkur. Jón Páll (Pálmason) var þarna fyrst og svo Gaui Þórðar. Það var góður tími. Ég bjó þar með nokkrum liðsfélögum, og það var mjög gaman. Ég fann að fólkið í bænum kunni að meta okkur. Það var skemmtilegt að finna það. Gaui Þórðar er mjög skemmtilegur karakter. Hann kunni held ég mikið að meta mig og mér fannst leiðinlegt að fá ekki lengri tíma með honum. Hann er algjör goðsögn og það er gaman að geta sagt að hann hafi þjálfað mann."
Það eru kannski einhverjir sem gagnrýna mig
Brynjar hefur undanfarin tímabil verið varamarkvörður fyrir Anton Ara Einarsson hjá Breiðabliki. Honum segist líða vel í Breiðabliki og það fari sérstaklega vel með náminu.
„Það eru kannski einhverjir sem gagnrýna mig fyrir að hafa ekki farið frá Breiðabliki þar sem ég hef lítið fengið að spila en ég er bara mjög sáttur. Þetta hentar frábærlega með náminu og Óskar skilur mig mjög vel. Það er stór ástæða fyrir því að mér líður vel þarna. Kúltúrinn er líka frábær og 'standardinn' á allt öðru stigi miðað við önnur félög. Breiðablik er að bæta umgjörðina og að taka þátt í þessu ævintýri, ég vildi ekki sleppa því," segir markvörðurinn öflugi.
„Ég fékk smá áhuga úr Bestu deildinni fyrir þetta tímabil en ég ákvað á endanum að vera áfram í Breiðabliki. Ég kíki alltaf á eitthvað sem kemur upp en ég get ekki sagt neitt annað en góða hluti um Breiðablik. Æfingakúlturinn er frábær hjá liðinu og ég reyni að halda góðum 'standard' þar, að vera með tvo góða markverði er mikilvægt."
„Það eru allir að reyna að fella okkur en ég held að það efli okkur líka."
„Ég held líka að menn í liðinu kunni að meta mig. Ég var valinn leikmaður leikmannana tvö ár í röð. Það er viðurkenning fyrir mig. Ég finn frá strákunum að þeir kunna að meta mig. Maður reynir að gefa af sér eins og maður getur þó maður sé ekki inn á vellinum alltaf," segir Brynjar og bætir við að það sé gott að vinna með Antoni Ara.
„Það er mjög gott að vinna með Antoni. Við myndum gott teymi saman. Ég er búinn að læra fullt af honum og hann vonandi eitthvað af mér."
Breiðablik er að fara inn í áhugavert tímabil en þeim er spáð efsta sæti deildarinnar af nánast öllum. Þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar og eru liðið sem allir vilja fella af toppnum.
„Mér líst mjög vel á tímabilið. Það er gaman að vera liðið sem hin liðin þurfa að fella til að ná í titilinn. Ég held að við séum búnir að læra á þennan meistarakúltur, að vera meistarar. Það eru allir að reyna að fella okkur en ég held að það efli okkur líka. Ég held að við munum takast vel á við það. Óskar er með góða stjórn á þessu og við erum með þroskað lið," segir Brynjar en hann hlakkar til að taka þátt í Meistaradeildinni.
„Það er gaman að fara í Meistaradeildina í fyrsta sinn. Það eru miklar væntingar gerðar þar og það verður spennandi að sjá hvernig forkeppnin fer."
„Framtíðin er óskrifað blað, hvort sem ég fer til Ítalíu eða hvort ég verði áfram hér og Alexandra þurfi að bíða aðeins lengur. Ég veit það ekki alveg, það kemur bara í ljós," sagði Brynjar sem er með nóg á sinni könnu en það er eitthvað sem hann er vanur og kann vel við.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 1. sæti: Breiðablik
Hin hliðin - Ágúst Orri Þorsteinsson (Breiðablik)
Athugasemdir