Man City hefur áhuga á Pogba - Barist um Kudus - Amorim ætlar að styrkja hóp Man Utd
   sun 15. desember 2024 16:37
Brynjar Ingi Erluson
Glódís og Bayern í banastuði - Alexandra tapaði fyrir toppliðinu
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern München eru nú taplausar í síðustu ellefu leikjum í öllum keppnum eftir að liðið lagði Potsdam, 2-0, í þýsku deildinni í dag.

Carolin Simon skoraði bæði mörk Bayern í dag en þetta voru fyrstu mörk hennar fyrir Bayern í deildinni á tímabilinu.

Glódís lék allan leikinn í hjarta varnarinnar en vörnin hefur staðið sig frábærlega á tímabilinu og haldið hreinu í ellefu leikjum í öllum keppnum.

Bayern er komið upp að hlið Eintracht Frankfurt á toppnum. Bæði lið eru með 29 stig en Frankfurt með betri markatölu. Bayern hefur verið í miklu stuði undanfarið en það hefur unnið átta og gert þrjú jafntefli í síðustu ellefu leikjum.

Þar að auki er liðið á toppnum í C-riðli Meistaradeildarinnar með 13 stig og komið áfram í 8-liða úrslit.

Dagný Brynjarsdóttir spilaði síðustu mínúturnar í 3-1 tapi West Ham gegn Aston Villa í WSL-deildinni á Englandi. West Ham er í 10. sæti með 8 stig.

Alexandra Jóhannsdóttir kom inn af bekknum í síðari hálfleik er Fiorentina tapaði fyrir toppliði Juventus, 3-0, í Seríu A á Ítalíu. Úrslitin þýða að Juventus er aftur komið með sjö stiga forystu á toppnum en Fiorentina er í 4. sæti með 26 stig.
Athugasemdir
banner
banner