mið 17.apr 2024 15:30 Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir |
|
Var mikið á flakki en fann svo fullkomna staðinn fyrir sjálfa sig
Birta Birgisdóttir er miðjumaður sem hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur. Hún byrjaði í Þrótti, fór í Breiðablik, spilaði með Augnablik, Gróttu og Haukum áður en hún fór í háskólabolta í Bandaríkjunum í stuttan tíma en hún fann svo sinn stað í fyrra þegar hún gekk í raðir Víkings. Birta skoraði af vítapunktinum í gær þegar Víkingar unnu sigur á Íslandsmeisturum Vals í Meistarakeppni KSÍ og hún fagnaði því vel og skemmtilega. Tíminn hjá Víkingi hefur svolítið snúist um það einmitt, að fagna vel.
'Mér fannst það fín byrjun í meistaraflokki að fara í Augnablik. Mér fannst fyrstu árin vera geggjuð. Ég var ung og var að spila með aðeins eldri stelpum sem var bara frábært'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fann sig ekki í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og fór í Víking eftir það.
Mynd/Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Lífið í Bandaríkjunum er allt öðruvísi en hér heima. Að fara úr því að búa hjá mömmu og pabba í það að búa á einhverjum sveitabæ á Alabama var rosaleg breyting'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég talaði við John (Andrews, þjálfara Víkings) á meðan ég var úti. Og ég spurði hann hvort ég mætti ekki bara mæta hjá honum í Víking'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég bjóst ekkert við þessu þegar ég fór í Víking. Ég hélt að ég ætti séns á að fá að spila og ég var bara sátt með það. Þegar við vinnum Lengjubikarinn þá hugsaði ég að við værum nú alveg góðar'
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Bergdís og Birta byrjuðu saman á miðsvæðinu í úrslitaleiknum.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Öll fjölskyldan mín mætti og fór í skrúðgönguna. Það var líka partý eftir leik. Það var geggjað að sjá fjölskylduna í stúkunni eftir leikinn. Daginn eftir voru þau að sýna mér öll myndböndin og það heyrðist í þeim hvað þau voru stolt'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Eins og er, þá er þetta besta augnablikið. Ég gerði ekki mikið í þessum leik. Ég var bara að hlaupa á miðjunni og passa mína menn'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er mjög stolt af ákvörðun minni að fara í Víking og að Víkingur hafi treyst mér til að spila þessa mikilvægu leiki'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Víkingur hefur unnið tvo titla á undirbúningstímabilinu: Reykjavíkurmótið og Meistarakeppni KSÍ.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég er með mjög mikið keppnisskap og ég er stundum pirruð heima ef ég tapa á æfingum. Ef við erum ekki að standa okkur, þá lætur maður stelpurnar heyra það'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fólk er enn að tala um seinasta sumar en við þurfum að reyna að hætta að fókusa á það of mikið. Núna erum við að koma í Bestu deildina og þurfum að einbeita okkur að því'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 7. sæti
Hin hliðin - Emma Steinsen (Víkingur R.)
„Pabbi spilaði í Svíþjóð og er alveg pjúra áhugamaður um fótbolta. Ég held að mamma og pabbi hafi sett mig í fótbolta til að hjálpa mér að losa um orku. Þau segja mér að ég hafi verið á við fjóra krakka. Þau byrjuðu á því að setja mig inn á völlinn til að hlaupa og róa mig. Svo fór það yfir í áhuga hjá mér sjálfri. Ég vildi ekki hætta að mæta á æfingar," segir Birta í samtali við Fótbolta.net.
„Ég var í frjálsum, dansi og fótbolta. Ég held að það hafi alveg náð að hjálpa mér að losa orkuna sem bjó í mér. En þau segja oft hvað þetta var erfitt við mig þegar ég var yngri."
„Ég var alltaf í fótboltatreyjum og var alltaf með fótbolta við fæturnar. Mér finnst ógeðslega gaman að hlaupa og að vera skipa um inn á vellinum. Mér finnst líka geggjað að mæta á æfingar til að vera í félagsskapnum. Það er ótrúlega gaman að mæta á æfingar hjá Víking því við erum svo miklar vinkonur."
Fannst það gera mig að betri leikmanni
Birta, sem er fædd árið 2003, hóf sinn fótboltaferil í Þrótti en leiðin lá svo í Kópavog.
„Ég hugsaði að ég væri nú alveg góð í fótbolta eftir það"
„Ég byrja í Þrótti í Laugardalnum. Ég bjó í Laugardalnum alveg þangað til ég var 16 ára og flutti þá í Kópavoginn. Þá fór ég Breiðablik. Ég byrjaði með öllum vinkonum mínum og stelpunum sem ég ólst upp með í Þrótti, en ég fór svo í Breiðablik til að fá aðeins meira úr fótboltanum. Ég sá mig ekki geta verið lengur í Þrótti því ég var byrjuð að missa áhugann. Ég hugsaði að ef ég fæti í nýtt umhverfi, þá gæti áhuginn komið aftur," segir Birta en hún kynntist öðruvísi umhverfi í Breiðabliki.
„Það gerði mikið fyrir mig sem leikmann að fá æfa hjá Herði (Inga Harðarsyni) sem er þjálfari í 4. flokki Breiðabliks. Að fara í Breiðablik var eins og 180 snúningur. Ég fékk strax möguleikann á að spila með 2. flokki eftir að hafa verið í tvo mánuði í Breiðabliki og ég hugsaði að ég væri nú alveg góð í fótbolta eftir það. Í Þrótti vorum við ekki margar í '03 árganginum en þegar ég fór í Breiðablik voru 90 stelpur eða eitthvað að æfa þar. Mér fannst það gera mig að betri leikmanni því mig langaði að vera í liði eitt og ég gerði það sem ég gat til að vera þar."
Höfuðhögginn erfið en tekur það jákvæða
Birta byrjaði ung að spila í meistaraflokki með Augnabliki, sem er venslafélag Breiðabliks.
„Ég fór úr 3. flokki yfir í Augnablik. Mér fannst það fín byrjun í meistaraflokki að fara í Augnablik. Mér fannst fyrstu árin vera geggjuð. Ég var ung og var að spila með aðeins eldri stelpum sem var bara frábært. Svo lendi ég í tveimur höfuðhöggum á hálfu ári 2020-21," segir Birta.
„Ég hugsa að ég hafi orðið mun betri leikmaður þarna"
„Það var erfitt að fá þessi höfuðhögg en eftir að hafa gengið í gegnum þennan tíma líður mér eins og ég sé miklu betri í fótbolta. Ég reyndi að horfa mikið á fótbolta utan frá og mér finnst eins og leikskilningurinn minn hafi orðið mun betri. Ég er á miðjunni og ég hef horft mikið á það hvernig miðjumenn eiga að vera. Þótt ég lendi í þessum höfuðhöggum þá var það gott að einhverju leyti og ég gat tekið það með mér. Það var ekki bara mínus en þetta var auðvitað erfitt líka."
„Ég gat ekki mætt í skólann í alveg heila önn. Ég fékk hausverk við að labba og ég gat ekki gert mikið. Ég gat ekki verið mikið í tölvunni eða horft mikið á sjónvarpið. Ég fór talsvert í göngutúra og svaf mikið. Ég fékk sálfræðihjálp í gegnum þetta og það hjálpaði líka. Ég man þegar ég var nýkomin til baka og mátti byrja að spila á æfingum, þá fékk ég neglu í hausinn. Ég þurfti að byrja allt ferlið upp á nýtt þegar ég var svo nálægt því að vera búinn. Mér fannst ferlið eftir seinna höggið ganga betur því þá vissi ég nákvæmlega hvað ég ætti að gera. Ég vissi alveg hverju ég ætti að búast við þá."
„En varðandi fótboltann þá hugsa ég ekki mikið um tímann sem ég missti af. Ég hugsa að ég hafi orðið mun betri leikmaður þarna. Ég er alveg góð í dag. Þegar ég fór í Víking þá fór ég bara í alla skallabolta og það hefur ekki verið neitt vandamál."
Fann sig ekki í Bandaríkjunum
Eftir að Birta sneri til baka eftir seinna höfuðhöggið þá var hún orðin óþreyjufull að snúa aftur í fótboltann.
„Að fara úr því að búa hjá mömmu og pabba í það að búa á einhverjum sveitabæ á Alabama var rosaleg breyting"
„Ég mátti spila í einhvern ákveðinn mikinn tíma fyrst þegar ég kom til baka og þá var ég í Augnabliki. Ég var samt ekki alveg að fá að spila þann tíma sem ég gat fengið að spila, og vildi fá að spila. Þetta var líka þrjóska í mér. Það var erfitt að sanna fyrir fólki að ég gæti spilað og ég væri tilbúin. Ég fór á láni í Gróttu til Magga (Magnús Örn Helgason) og eftir að ég var hjá honum, þá hef ég stigið upp sem leikmaður," segir Birta.
Hún fór svo í háskólaboltann í Bandaríkjunum - fór í Jakcsonville State - en fann sig ekki alveg þar.
„Ég fór svo í skóla til Bandaríkjanna haustið 2022. Hann var búinn að hæpa þetta ekkert eðlilega mikið upp þessi þjálfari sem var þarna. Svo mætti ég þarna út og þetta var ekki alveg eins fótbolti og var búið að segja mér frá. Hann sagði mér að þær væru að spila evrópskan fótbolta og þetta væri geggjað. Svo var þetta bara 'kick and run' og ég hugsaði að þetta væri ekki minn stíll," segir Birta.
„Lífið í Bandaríkjunum er allt öðruvísi en hér heima. Að fara úr því að búa hjá mömmu og pabba í það að búa á einhverjum sveitabæ á Alabama var rosaleg breyting. Ég átti mjög erfitt fyrstu tvo mánuðina úti og mér fannst þetta ekki vera fyrir mig. Ég var með mikla heimþrá og vildi bara fara heim. Skólinn var líka mjög léttur og ég var ekki að fá mikið út úr því að vera þarna. Ég sá það ekki að ég myndi bæta mig mikið þarna í fótbolta."
„Mig langaði að prófa að búa annars staðar en á Íslandi. Ég er alveg sátt við að ég fór út. Ég lærði alveg fullt á að vera ein og að vera í svona umhverfi. En þetta fór ekki alveg eins og ég vildi að þetta hefði farið," segir Birta.
Besta ákvörðunin
Þegar Birta sneri aftur heim, þá ákvað hún að fara í Víking. Og það er óhætt að fullyrða að það hafi verið hennar besta ákvörðun á fótboltaferlinum. Hún hafði þarna ekki alveg fundið sig en í Víkinni smellpassaði hún inn í hlutina.
„Ég bjóst ekkert við þessu þegar ég fór í Víking"
„Ég talaði við John (Andrews, þjálfara Víkings) á meðan ég var úti. Og ég spurði hann hvort ég mætti ekki bara mæta hjá honum í Víking. Ég ætlaði að fara í Víking áður en ég fer í Hauka árið 2022, en ég valdi Hauka þá. John mætir á flestalla leiki og maður vissi alveg hver hann væri. Ég prófaði að fara í Víking til að sjá hvernig það væri," segir Birta.
„Ég er búin að vera flakkari og búin að vera á nokkrum stöðum í stuttan tíma. Þegar ég var í öðrum liðum var ég að spila í vitlausum stöðum. Ég var frammi eða á kanti. Ég er enginn framherji eða sóknarmaður. Þegar ég kem í Víking var fyrsti æfingaleikurinn á móti Breiðabliki. Á æfingunni fyrir leikinn var mér sagt að ég yrði í bakverði en ég hafði aldrei spilað þá stöðu. Að vera djúp á miðju eða einhvers staðar í varnarlínunni, ég er búinn að finna að það er mitt."
„Mér finnst ég vera best djúp á miðjunni. Mér finnst ég halda minni stöðu vel, að vera í sexunni. Ég leyfi þá áttunni og tíunni þá frekar að einbeita sér að sóknarleiknum. Mér finnst geggjað að vinna ruslavinnuna, elska að vera í tæklingum, að vera 'body-a' stelpur, ræna boltanum og búa til sóknir. Mér finnst það geggjað. Þegar ég er að horfa á fótbolta þá horfi ég aðallega á sexuna. Mér finnst ótrúlega gaman að horfa á mismunandi leikmenn spila. Ég hugsa: 'Ég gæti gert þetta líka'. Ég tek frá öllum leikmönnum sem ég horfi og reyna að læra eitthvað af öllum."
„Mér finnst ég vera með mikið sjálfstraust eftir síðasta sumar. Að vera á miðjunni og hvernig ég spila. Það hefur mikið breyst eftir að ég kom heim frá Bandaríkjunum. Þetta er mín staða og ég kann alveg að vera í þessari stöðu. Þegar ég var frammi þá skoraði ég alltaf bara eða tvö eða þrjú mörk. Ég veit hvar ég á að vera miðjunni, það er náttúrulegt fyrir mig."
Síðasta sumar var ótrúlegt í Víkinni. Þær byrjuðu á því að vinna B-deild Lengjubikarsins fyrir mót og unnu svo bæði Mjólkurbikarinn og Lengjudeildina. Víkingur varð þarna fyrsta liðið úr B-deild til vinna en Mjólkurbikarinn en þær lögðu Breiðablik eftirminnilega á sumarkvöldi í Laugardalnum.
„Ég bjóst ekkert við þessu þegar ég fór í Víking. Ég hélt að ég ætti séns á að fá að spila og ég var bara sátt með það. Þegar við vinnum Lengjubikarinn þá hugsaði ég að við værum nú alveg góðar. Það er alveg hægt að segja að það séu kannski ekki stjörnuleikmenn í Víking en þegar við spilum saman og erum að spila góðan fótbolta, þá smellvirkar þetta," segir Birta.
Höfðu fulla trú á verkefninu
Víkingsliðið vakti skiljanlega mikla athygli enda árangurinn magnaður. Að fara í bikarúrslitaleik gegn Breiðabliki og vinna hann; það var ekki eitthvað sem margir bjuggust við fyrir tímabil. En liðið fyrir leikinn byggt upp ótrúlega stemningu og magnaða liðsheild.
„Ég vissi alveg að við ef myndum mæta rétt til leiks, að þá gætum við unnið"
„Tveimur dögum fyrir bikarúrslitaleikinn sagði John okkur frá byrjunarliðinu. Ég og Bergdís (Sveinsdóttir) sátum hlið við hlið í fundarherberginu og héldumst í hendur. Við vonuðumst til að fá að byrja. Miðjan hjá okkur er sterk og við vorum stundum að rótera. Hver var að fara að byrja? Ég og Bergdís fengum svo báðar að byrja. Ég var eiginlega ekkert stressuð fyrir þessum leik og hugsaði bara að við ættum bullandi séns," segir Birta en það er til marks um hugarfarið innan hópsins.
„Það var alveg sama að þær væru í Bestu deildinni. Við gátum alveg unnið ef hausinn væri á réttum stað og við myndum spila okkar leik."
Fyrir úrslitaleikinn var Birta að vinna á Kópavogsvelli með nokkrum stuðningsmönnum Breiðabliks.
„Ég er að vinna á sumrin á Kópavogsvelli og það var í eyranu á mér mánuðinn fyrir leikinn að Breiðablik væri að fara að vinna þennan leik. Ég er að vinna með Blikum en þetta eru samt allt auðvitað vinir mínir. Þau eru stundum að gaggast í manni. HK-ingarnir sem eru að vinna þarna höfðu meiri trú á okkur. Yfirmaðurinn minn er HK-ingur og hann var mjög ánægður eftir leikinn. Hann sendi mér SMS strax eftir leik og óskaði mér til hamingju. Ég vissi alveg að við ef myndum mæta rétt til leiks, að þá gætum við unnið."
Heyrðist í þeim hvað þau voru stolt
Það var áhorfendamet sett á leiknum og var stuðningurinn hjá Víkingum stórkostlegur.
„Það var mikill stuðningur á bak við okkur og það var ótrúlega gaman að sjá"
„Við fórum í mat í hádeginu á leikdegi og þá kom markaðsstjórinn til okkar. Hann sagði að það væri búið að bæta áhorfendametið, búið að kaupa fleiri miða en nokkru sinni áður. Við að heyra það fór stressið einhvern veginn. Fólk var að fara að mæta á þennan leik og styðja við bakið á okkur. Öll fjölskyldan mín mætti og fór í skrúðgönguna. Það var líka partý eftir leik. Það var geggjað að sjá fjölskylduna í stúkunni eftir leikinn. Daginn eftir voru þau að sýna mér öll myndböndin og það heyrðist í þeim hvað þau voru stolt," segir Birta og hlær.
„Systir mín var kasólétt mætt á leikinn og hún var grátandi. Fólk var að mæta sem fylgist ekki einu sinni með fótbolta. Það var mikill stuðningur á bak við okkur og það var ótrúlega gaman að sjá."
Er þetta besta augnablikið á ferlinum, og jafnvel í lífinu?
„Eins og er, þá er þetta besta augnablikið. Ég gerði ekki mikið í þessum leik. Ég var bara að hlaupa á miðjunni og passa mína menn. Hlaupatölurnar voru mjög háar en ég held ég hafi snert boltann bara 20 sinnum. Þær voru aðallega að sækja á köntunum og bakverðirnir voru að gera mest varnarlega séð. Ég var að loka á tíuna þeirra og mér fannst ég hafa gert það nokkuð vel."
Mjög stolt af ákvörðuninni
Birta segist líta stolt til baka að hafa tekið ákvörðun um að koma heim og fara í Víking. Það er klárlega ekki ákvörðun sem hún sér eftir.
„Þetta passar allt vel við mig"
„Ég er mjög stolt af ákvörðun minni að fara í Víking og að Víkingur hafi treyst mér til að spila þessa mikilvægu leiki. Ég er í háskólanum núna og þegar ég segi fólki að ég sé leikmaður Víkings, þá er ég spurð að því hvort ég hafi spilað bikarleikinn. 'Já, ég var þarna. Ég var inn á'. Fólk sem er ekki endilega að horfa mikið á fótbolta spyr mig út í þetta. Það er æðislegt. Að vinna Lengjudeildina, það var geggjað að vinna hana með stelpunum í liðinu," segir Birta.
„Víkingur hefur hjálpað mér mikið. Ég er þarna alla daga vikunnar því ég er að þjálfa líka í yngri flokkunum. Ég mæti líka á séræfingar með John eða á aukaæfingar með pabba. Ég held að ég hafi blómstrað sem leikmaður eftir að ég fór í Víking. Leikstíllinn, menningin og hópurinn... þetta spilar allt inn í. Þetta passar allt vel við mig."
Sálfræðin hefur hjálpað
Meðfram fótboltanum er Birta í Háskólanum í Reykjavík að læra sálfræði. Hún er að klára fyrsta árið sitt núna.
„Ég kann betur á mig og skil mig betur"
„Ég er að læra sálfræði í HR og er að klára fyrsta árið þar. Ég tók hálft ár í sálfræði í Bandaríkjunum. Það er mikið að vera í fótbolta, að þjálfa og að vera í háskóla. Ég reyni að púsla þessu öllu saman," segir Birta.
„Sálfræðin er heillandi en ég veit ekki alveg hvernig sálfræði ég vil þjálfa mig í seinna meir. Ég er að byrja á grunninum. Þetta hefur hjálpað mikið hugarfarslega séð í fótboltanum. Ég kann betur á mig og skil mig betur. Ég er með kvíða en ég kann að vinna úr honum, sérstaklega ef það er eitthvað stressandi að gerast. Það er ekkert slæmt að fara að gerast þó ég tapi einum leik í sumar. Það verður enginn heimsendir. Mér finnst geggjað að tengja sálfræðina við íþróttir og það er alveg spennandi hugsun að gerast íþróttasálfræðingar. Mér finnst það líka spennandi að sjá þroska hjá börnum og unglingum."
Birta segist vera með mikið keppnisskap en það sakar yfirleitt ekkert í fótboltanum.
„Ég er með mjög mikið keppnisskap og ég er stundum pirruð heima ef ég tapa á æfingum. Ef við erum ekki að standa okkur, þá lætur maður stelpurnar heyra það. Sömuleiðis er ég að peppa þær líka. Það eru engar vondar tilfinningar eftir æfingar eða leiki ef einhver er að drulla yfir mig. Við erum allar vinkonur."
Ég er ekkert eðlilega spennt
Núna er það næsta áskorun, Besta deildin.
„Ég er mjög mikið í núinu og vil ekki vera að hugsa of mikið um framtíðina"
„Ég er ekkert eðlilega spennt að spila fyrsta leiknum í Bestu deildinni. Fólk er enn að tala um seinasta sumar en við þurfum að reyna að hætta að fókusa á það of mikið. Núna erum við að koma í Bestu deildina og þurfum að einbeita okkur að því. Ég er að gera allt til að ég muni spila eins margar mínútur og ég get," segir Birta.
„Markmiðið núna er bara að vera í efri hluta Bestu deildarinnar. Þegar því er náð kemur annað markmið. Varðandi lengri markmið þá langar mig fyrst að klára háskólann hér heima og svo sé ég hvað gerist. Ég er mjög mikið í núinu og vil ekki vera að hugsa of mikið um framtíðina," sagði Birta að lokum en það verður spennandi að fylgjast með henni og Víkingsliðinu í sumar.
Athugasemdir