Það bárust mjög óvænt tíðindi frá Danmörku síðasta sunnudag. Þá tilkynnti AGF frá Árósum frá því að Jack Wilshere, fyrrum leikmaður Arsenal, West Ham og enska landsliðsins, væri búinn að skrifa undir samning við félagið.
Wilshere er eitt stærsta nafnið sem hefur komið í danska fótboltann. Hann var eitt sinn vonarstjarna Arsenal en er núna liðsfélagi tveggja íslenskra landsliðsmanna í Árósum í Danmörku; Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson leika fyrir hönd félagsins.
Meiðsli hafa sett stóran svip á feril Wilshere og hefur hann verið gríðarlega óheppinn. Hann hefur verið án félags síðustu mánuði og verið að hugsa leið til að endurvekja feril sinn. Það gerist ekki oft að leikmenn með eins stóra ferilskrá endi á Norðurlöndum. Svo hvernig gerðist það?
Stór ástæða fyrir skiptunum er Roy Hodgson, fyrrum þjálfari enska landsliðsins og núverandi stjóri Watford. Hann vann með Wilshere hjá landsliðinu og tók hann meðal annars með sér á EM 2016 þar sem miðjumaðurinn kom við sögu í tapleik gegn Íslandi í 16-liða úrslitunum.
Hodgson þekkir til aðstoðarþjálfara AGF, Dave Reddington. Þeir störfuðu saman hjá Crystal Palace í þrjú ár. Hodgson heyrði í Reddington - sem byrjaði að vinna hjá AGF á síðasta ári - og mældi með Wilshere. Það er The Athletic sem segir frá þessu.
Reddington fékk upplýsingar Wilshere og hringdi í hann fyrir um tveimur vikum síðan. Hjólin fóru að snúast við það. Hinn þrítugi Wilshere fær núna tækifæri til að endurvekja feril sinn í Danmörku.
Ekki launahæstur hjá félaginu
Enska götublaðið The Sun hefur heimildir fyrir því að Wilshere hafi tekið á sig verulega launahækkun frá fyrri samningum til að semja við AGF. Hann er ekki á neinum úrvalsdeildarlaunum. Og hann fær heldur ekki góð laun samanborið við leikmenn sem eru að spila í næst efstu deild Englands.
Sun segir að Wilshere muni fá um 5 þúsund pund á viku í laun frá AGF. Launahæsti leikmaður félagsins, Frederik Tingager, er með 6,7 þúsund pund í vikulaun og er Wilshere því ekki launahæstur hjá félaginu.
Wilshere gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir AGF á föstudagskvöld þegar liðið heimsækir Vejle.
Athugasemdir