Eze, Rabiot, Dyche, Howe og miðjumannsleit Liverpool í slúðurpakka dagsins
   mán 02. september 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Vonar að Salah verði áfram hjá Liverpool - „Aldrei séð hann eins glaðan og nú"
Mo Salah
Mo Salah
Mynd: EPA
Salah hefur ekki fengið samningstilboð frá John Henry og félögum í FSG
Salah hefur ekki fengið samningstilboð frá John Henry og félögum í FSG
Mynd: Getty Images
Daniel Sturridge, fyrrum leikmaður Liverpool á Englandi, heldur í vonina um að félagið bjóði Mohamed Salah nýjan samning, en hann og Roy Keane ræddu leikmanninn á Sky Sports í gær.

Salah skoraði og lagði upp tvö í 3-0 sigrinum á Manchester United, en hann hefur nú skorað í öllum þremur leikjum úrvalsdeildarinnar á tímabilinu.

Samningur Salah hjá Liverpool rennur út á næsta ári og greindi leikmaðurinn frá því eftir leikinn að hann væri ekki með samningstilboð frá félaginu.

Hann talaði eins og þetta væri hans síðasta ár hjá félaginu, en hélt líka möguleikanum opnum á að vera áfram. Salah er 32 ára gamall og verið langbesti leikmaður Liverpool frá því hann kom frá Roma fyrir sjö árum.

Sturridge vonast til þess að Salah fái nýjan samning en líður eins og þetta séð hans síðasta tímabil.

„Það kæmi mér á óvart ef þeir leyfðu honum að fara. Mo hefur afrekað flest allt sem hann getur afrekað hjá félaginu, en ég hef samt aldrei séð hann eins glaðan og nú.“

„Hvernig hann talaði, það var eins og hann væri að segja að hann vildi vera áfram. Ef félagið ætlar að gefa honum það sem hann vill þá verður hann áfram. Ég vona svo innilega að hann verði áfram því hann hefur verið magnaður,“
sagði Sturridge á Sky

Keane hrósaði Salah í hástert fyrir frammistöðuna gegn United og segir að mörg félög eigi eftir að horfa til hans ef Liverpool ákveður að framlengja ekki samning hans.

„Hann var stórkostlegur. Alger heimsklassa frammistaða. Hann er frábært fordæmi og ég nýt þess að horfa á hann. Þetta er auðvitað erfitt fyrir Man Utd að kyngja þessu, en maður verður að hrósa þegar það á við.“

„Hann er með stjórn á samningamálunum. Ég veit að félög eru með stefnur um að leyfa samningum leikmanna að renna út þegar þeir eru orðnir 31 árs eða 32 ára, en það er hann sem mun ákveða hvað hann vill gera. Þeir þurfa auðvitað að bjóða honum samning því hann er aðalmaðurinn þeirra, en það er líka alveg ljóst að hann verður með nóg af möguleikum,“
sagði Keane.
Athugasemdir
banner
banner
banner