Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   mán 03. júní 2024 16:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Engin læti í fluginu og náðu að kjósa - Risaleikur á morgun
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, hér til hægri.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, hér til hægri.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland spilar aftur við Austurríki á morgun.
Ísland spilar aftur við Austurríki á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Allir á völlinn!
Allir á völlinn!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ferðalagið gekk bara fínt. Það var smá seinkun en við komumst og náðum að kjósa. Það var allt upp á tíu hvað varðar það. Svo höfum við verið að funda og melta fyrri leikinn. Sjá hvað við getum lært af honum til að ná í sigur á morgun," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði, á fréttamannafundi á Laugardalsvelli í dag.

Ísland spilar á morgun aftur við Austurríki í undankeppni EM 2025. Liðin gerðu jafntefli ytra í síðustu viku en leikurinn á morgun er afar mikilvægur fyrir íslenska liðið.

Íslenska liðið flaug heim á laugardag og æfði á Laugardalsvelli í dag, en í sama flugi var lið Austurríkis. Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður að því hvort það hefði verið einhver hiti á milli liðanna í fluginu.

„Þetta var bara rólegt flug. Það voru engin læti í því," sagði Steini og brosti, en það var mikið í gangi á laugardaginn þegar stelpurnar ferðuðust heim. „Við sáum ekkert af úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Seinkunnin eyðilagði það. Þeir leikmenn sem áttu eftir að kjósa náðu svo að gera það. Svo leit maður á fyrstu tölur og fór svo að sofa," sagði landsliðsþjálfarinn um laugardagskvöldið.

„Var þetta ekki augljóst í byrjun?" sagði Glódís spurð að því hvort hún hefði eitthvað vakað eftir úrslitunum úr kosningunum.

Afar mikilvægur leikur
Bæði Ísland og Austurríki eru með fjögur stig fyrir leikinn í baráttunni um annað sætið í riðlinum. Efstu tvö liðin fara beint á EM en Þýskaland er fimm stigum á undan. Svo er Pólland án stiga. Það gefur því augaleið að leikurinn á morgun er risaleikur.

Ísland spilaði vel í fyrri leiknum en sá leikur endaði með 1-1 jafntefli. Landsliðsþjálfarinn segir augljóst hvað liðið þurfi að gera til að breyta einu stigi í þrjú á morgun.

„Við þurfum að skora. Nýta færin. Það er grundvallaratriði. Þær voru meira með boltann en voru ekki að skapa sér mikið. Við vörðum markið okkar vel og sköpuðum færi. Við þurfum bara að nýta þau," sagði Steini

„Heilt yfir getum við horft í frammistöðuna úr fyrri leiknum og verið nokkuð jákvæð með leikinn. Við erum bara bjartsýn fyrir morgundeginum og förum inn í leikinn til að vinna hann. Það er ekkert annað sem kemst að hjá okkur, við ætlum að vinna. Við vitum að þetta verður hörkuleikur en við munum spila til sigurs á morgun. Það er algjörlega þannig. Mikilvægið er mikið."

Glódís býst við hörkuleik aftur. „Auðvitað eru þetta tvö lið sem eru að berjast um annað sætið og að komast beint á EM. Hver leik gefur okkur þrjú stig og við förum í hvern leik til að vinna. Þetta verður hörkubarátta og ef það verður vont veður, þá verður þetta örugglega bara eins og stríð um þetta farmiða. Það er ekkert klárt sama hvernig þessi leikur fer samt sem áður."

Undirbúum okkur fyrir bæði
Það kom íslenska liðinu á óvart hversu passíft austurríska liðið var á heimavelli. Þær fóru ekki í neina hápressu eins og þær höfðu gert fyrr í riðlinum. Líklega hefur hraði Sveindísar Jane Jónsdóttur þar eitthvað að segja.

„Þú verður eiginlega að spyrja þær að því," sagði Steini er hann var spurður út í það hvernig leikskipulagi má búast við hjá gestunum á morgun. „Við undirbúum okkur fyrir bæði. Ég býst alveg við því þess vegna að þær fari í hápressu. Maður veit það ekki alveg. Það kom okkur á óvart hversu passívar þær voru síðast. Við þurfum að vera tilbúin í báða möguleikana."

Elskum við ekki vindinn?
Það er búist við sjö stiga hita og tólf metrum á sekúndu þegar leikurinn fer fram á morgun. Liðið er ekkert að stressa sig á veðrinu.

„Ég hef verið mjög rólegur yfir veðrinu og ekkert kíkt á veðurspánna. Það er verið að tala um einhverjar gular viðvaranir og eitthvað svoleiðis. Við sjáum bara hvernig vindar blása á morgun, en við erum róleg yfir því," sagði Steini.

„Elskum við ekki vindinn eða?" sagði Glódís svo og hló en leikurinn á morgun hefst klukkan 19:30 á Laugardalsvelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner