Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   þri 04. júní 2024 16:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Formaður KF um völlinn ótrúlega: Súr veruleiki sem við lifum í
Úr leik KF og KFA sem fór fram á Ólafsfjarðarvelli. Ekki merkilegar aðstæður.
Úr leik KF og KFA sem fór fram á Ólafsfjarðarvelli. Ekki merkilegar aðstæður.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Mikael Nikulásson, þjálfari KFA, sagði það hneyksli fyrir KSÍ að hafa leyft leiknum að fara fram við slíkar aðstæður.
Mikael Nikulásson, þjálfari KFA, sagði það hneyksli fyrir KSÍ að hafa leyft leiknum að fara fram við slíkar aðstæður.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KF fagnar marki í leiknum.
KF fagnar marki í leiknum.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
KF vann leikinn 4-0.
KF vann leikinn 4-0.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Skot að marki.
Skot að marki.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Yfirlitsmynd frá leiknum sem var tekin úr sjónvarpsútsendingu.
Yfirlitsmynd frá leiknum sem var tekin úr sjónvarpsútsendingu.
Mynd: Aðsend
Aðstæður á Ólafsfirði eru hreint út sagt ekki frábærar eins og sjá má vel á þessari mynd.
Aðstæður á Ólafsfirði eru hreint út sagt ekki frábærar eins og sjá má vel á þessari mynd.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
„Það er ekkert gaman að bjóða upp á þetta en við nýtum okkur bara hvernig reglurnar eru settar upp. Við græddum á því. Ég skil það vel að það er engin stemning að mæta á gulgráan völl. En þetta er bara veruleikinn sem við lifum við. Hann er súr. Við verðum að taka það á kassann bara," segir Örn Elí Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar KF, í samtali við Fótbolta.net.

Það er óhætt að segja að það hafi verið spilað við afar skrautlegar aðstæður þegar KF vann óvæntan 4-0 sigur á KFA í 2. deild karla um liðna helgi. Ekki var grænt gras að finna á Ólafsfjarðarvelli og var hann nánast grár. Bara alls ekki tilbúinn í slaginn.

„Ef við tökum síðustu 30 árin, þá held ég að þetta sé versti völlur sem hefur verið spilað á í íslenskum fótbolta," sagði Mikael Nikulásson, þjálfari KFA, við Fótbolta.net í gær.

Súr veruleiki og við búum í honum
Fótbolta.net hafði samband við formann knattspyrnudeildar KF í dag. Hann segir að sá möguleiki að færa leikinn yfir á Dalvík hafi verið ræddur en sú tímasetning sem var fengin hafi ekki hentað.

„Jú, það var rætt en fyrsti tíminn sem ég fékk var 19:15 og við höfðum öðrum hnöppum að hneppa á þeim tíma. Við vorum búnir að færa leikinn yfir á föstudag að beiðni KFA. Þegar kom í ljós að völlurinn yrði svona þá höfðum við ekki mikinn tíma til að vinna úr þessu. Eins og ég sagði við KFA þá yrði rekstur félagsins að ganga fyrir. Tekjutapið yrði alltof mikið að fara yfir á Dalvík; bæði leiga og svo er þetta stærsta helgin í Fjallabyggð þar sem allir eru að mæta. Það er mikið um að vera hérna yfir sjómannadagshelgina," segir Örn Elí.

„Mike (þjálfari KFA) kom og sagði mér að þeir hefðu getað spilað leikinn seinna, en það hentaði okkur ekki. Því miður fyrir þá. KSÍ var búið að koma og taka út völlinn. Þeir sjá ekkert að honum. Það er leiðinlegt að horfa á hann svona og allt það, en þeir telja hann sléttan og ekki hættulegan. Menn verða að finna eitthvað í reglunum hjá KSÍ til að aftra okkur frá því að spila þarna. Við höfum spilað í ansi mörg ár fyrstu umferðirnar annars staðar og það er þreytt. Eitt árið voru þær fimm eða sex."

Örn Elí spilaði með KF fyrir nokkrum árum og hann þekkir það að spila á vellinum þegar hann er í slíku ástandi.

„Já, ég spilaði á vellinum þegar hann var í svona standi. Ég hef nú séð hann verri. Eins og ég sagði áðan, þá er þetta súr veruleiki og við búum í honum. Það er ekkert leyndarmál að við höfum verið í baráttu lengi um að fá gervigras. Þessi völlur rann út á sínum líftíma fyrir mörgum árum og það er ekkert gert almennilegt til að viðhalda honum. Það er ekki settur almennilegur kostnaður í að kaupa tæki og tól til að viðhalda honum eða fjárfesta í sáðningu fræja og áburði. Þú uppskerð það sem þú sáir."

Fínt spark í rassinn
KF hefur barist fyrir því lengi að fá gervigras á völlinn sinn svo hægt sé að spila og æfa lengur í Fjallabyggð. Það er ekki hægt núna.

„Við búum hér á norðurhjara veraldar, erum einhvers staðar lengst út í rassgati og það er snjór núna. Ef það er einhver staður á landinu sem þarf gervigras þá er það hér. Við erum að lenda á eftir öðrum sveitarfélögum og þetta er kannski fínt spark í rassinn fyrir bæinn. Þó umræðan um gervigras sé komin í farveg þá er hún komin of stutt á of löngum tíma. Það er mitt mat allavega."

Líklega er það vakning fyrir bæjarfélagið þegar fótboltaleikur fer fram við slíkar aðstæður í bænum.

„Það hlýtur að vera. Þetta er ekki góð ásýnd fyrir hvorki félagið né bæinn. Ég skil Mækarann mjög vel að pirra sig á þessu sko. Og liðið í heild sinni. En á sama tíma varð það þeim að falli því þeir mættu bara 2-0 undir í leiknum. Að bögga sig á þessu í staðinn fyrir að taka þetta á kassann. Þeir læra á því. Ég skil þá samt mjög vel, eins og ég segi. Það er leiðinlegt að þurfa að bjóða upp á þetta en nauðsynlegt að okkar mati eins og staðan er núna."

Má segja að það hafi verið ákveðin skilaboð að spila á vellinum?

„Ég ætla ekki að fara að gefa frá mér öll pólitísku útspilin mín strax en það lítur jafnilla út fyrir bæinn að við spilum hér á honum svona og ef við spilum næstu fimm umferðir á Dalvík. Það kemur út á því sama: Aðstaðan er bara ekki nógu góð. Svo einfalt er málið," segir Örn Elí.

„Ef við förum á Dalvík þá þurfum við að leigja völlinn. Þeir eru mjög góðir við okkur en þetta er ekki ódýrt samt. Og það er sama ef við förum í Bogann. Á endanum erum við samt ekki að spila við viðunandi aðstæður hvort sem við erum hér heima eða á Dalvík. Völlurinn á Dalvík er sennilega besti völlurinn á landinu en ég ætla ekki að segja að það séu geggjaðar aðstæður því við erum ekki að spila á heimavelli þá. Þetta er fínt spark í rassinn, sama hvernig er," segir Örn Elí.

Við lifum í algjörri óvissu og það er bara glatað
Meistaraflokkar og börn á svæðinu þurfa að æfa fótbolta annars staðar yfir árið þar sem aðstæður eru ekki nægilega góðar á Ólafsfirði.

„Allt árið erum við að keyra á Akureyri eða Dalvík. Það er djöfulsins kostnaður sem fer í þetta. Við kölluðum framboðsflokkana í bæjarstjórnarkosningunum síðast núna á fund með okkur og gerðum þeim góð skil á því hvað við viljum og af hverju. Þó urðu loksins flestallir sammála um að það þyrfti að gera eitthvað og bara spurning hvernig ætti að gera það. Maður sýnir því skilning að þetta gerist ekki á einni nóttu en þetta er samt að gerast heldur of hægt fyrir mig. Það var myndaður stýrihópur og það virðist vera vilji til framkvæmda en á meðan þetta tekur svona rosalega langan tíma, þá er ég ekki með neina fullvissu um að gervigrasið komi. Öll okkar verkefni standa í stað á meðan það kemur ekkert staðfest svar eða fyrsta skóflustunga," segir Örn Elí.

„Í árferði sem þessu... bensínverð er að rjúka upp úr öllu valdi, við erum að ferðast á óhentugustu tímum í gegnum snjóflóðasvæði og við erum að senda menn frá Ólafsfirði til Akureyrar klukkan 21 á kvöldin til að æfa. Þá eru þeir komnir heim um miðnætti. Við erum að borga upp í 2 milljónir á ári í leigu til að spila í 2. deild. Þetta er bara bull orðið. Það er ekki hægt að koma til móts við okkur í styrkveitingu frá bænum; skilaboðin eru þannig að það sé verið að vinna í því að setja gervigras og við verðum að lifa með því. Það er ekkert komið staðfest svar hvort þeir ætli að byrja á þessu 2028, 2032 eða 2035. Við lifum í algjörri óvissu og það er bara glatað."

En getur hann spáð eitthvað fyrir um það hvenær gervigrasið kemur?

„Ef að nefndin sem var skipuð út frá stýrihópnum sem var myndaður klárar sitt strax... það átti að gera ráð fyrir þessu á fjárhagsáætlunargerð núna fyrir 2024 og samkvæmt öllu á teikningin að vera klár á næsta ári. Við höfum ekki enn fengið það staðfest og það gæti alveg seinkað. Ég reyni að vera bjartsýnn um að þetta verði klárt 2027. Hvort sem það er 2027 eða 2032, þá vil ég bara vita hvenær þetta verði klárt svo ég geti sett upp einhvers konar framtíðarplan fyrir meistaraflokkinn en fyrst og fremst fyrir krakkana. Það er ekki hægt að búa til plan á meðan við búum í óvissu."

„Við erum í samstarfi við Dalvík í yngri flokkum sem gengur bara mjög vel. Það fara flestallar samæfingar fram á Dalvík og það er eðlilegt þar sem þar eru miklu, miklu betri aðstæður. En það kostar líka að vera með rútu á ferðinni og keyra krökkunum yfir. Og það er aukatími fyrir þjálfarana. Þetta tikkar allt. Á meðan allt er svona ógeðslega dýrt eins og það er í dag, þá lifir þú ekkert endalaust svona," sagði formaðurinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner