Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   þri 04. júní 2024 18:30
Brynjar Ingi Erluson
Forseti Barcelona: Ekki góðar fréttir að Mbappe sé kominn til Real Madrid
Mynd: EPA
Joan Laporta, forseti Barcelona á Spáni, segir það ekki vera góðar fréttir að Kylian Mbappe sé mættur til Real Madrid frá Paris Saint-Germain.

Mbappe, sem er einn af bestu leikmönnum heims, skrifaði undir fimm ára samning við Real Madrid í febrúar, en hann var formlega kynntur í gær.

Real Madrid er nú með einhverja svakalegustu sókn síðari ára en Mbappe mun spila við hlið Vinicius Junior og þá mun Jude Bellingham líklega spila stóra rullu. Brasilíska undrabarnið Endrick mun einnig ganga í raðir félagsins í sumar.

Síðustu ár hefur það reynst erfitt fyrir Börsunga að ná endum saman. Félagið hefur ekki sama kaupmátt og Real Madrid, en Laporta treystir helst á akademíu félagsins.

„Sem stuðningsmaður Barcelona eru það ekki góðar fréttir að sjá að Kylian Mbappe sé kominn til Real Madrid. Ef ég á að vera hreinskilinn þá kýs ég frekar okkar aðferð sem treystir á verkefni með leikmönnum sem koma úr La Masia. Ég ber virðingu fyrir erkifjendum okkar, en við höldum í okkar hugmyndafræði,“ sagði Laporta.
Athugasemdir
banner
banner