Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   mið 05. júní 2024 15:45
Innkastið
Ferð ekki í golf með hafnaboltakylfu - „Bara það lélegasta sem ég hef séð"
Finnur Tómas Pálmason og Alex Þór Hauksson, leikmenn KR.
Finnur Tómas Pálmason og Alex Þór Hauksson, leikmenn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Axel Óskar var fenginn til KR fyrir tímabilið en virðist ekki henta í þann bolta sem KR spilar.
Axel Óskar var fenginn til KR fyrir tímabilið en virðist ekki henta í þann bolta sem KR spilar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg Ryder er á sínu fyrsta tímabili með KR.
Gregg Ryder er á sínu fyrsta tímabili með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Rúrik Gunnarssyni, ungum leikmanni KR, var kippt af velli í fyrri hálfleik.
Rúrik Gunnarssyni, ungum leikmanni KR, var kippt af velli í fyrri hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óskar Hrafn er án félags. Hann var fyrsti kostur KR eftir síðasta tímabil.
Óskar Hrafn er án félags. Hann var fyrsti kostur KR eftir síðasta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mörkin hjá Val eru pínu 4. flokks mörk, þeir setja boltann bara yfir þá. Þetta var mjög sérstakt að horfa á," sagði Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur, þegar rætt var um KR í Innkastinu í gær.

KR tapaði 5-3 gegn Val í Bestu deildinni á mánudagskvöld en varnarlína liðsins var hörmulega léleg í leiknum. KR hefur litið illa út að undanförnu.

„Þetta er einhver ótrúlegasta frammistaða varnarlínu í sögu fótboltans," sagði Tómas Þór Þórðarson um varnarlínu KR gegn Valsmönnum.

„KR í gær og Brasilía á heimavelli gegn Þýskalandi. Þeir voru ekkert eðlilega lélegir. Rúrik Gunnarsson, Finnur Tómas Pálmason, Axel Óskar Andrésson og Aron Kristófer Lárusson. Þetta er bara það lélegasta sem ég hef séð. Þeir voru hreint út sagt ömurlegir."

Rúrik, sem er 19 ára, var tekin af velli áður en fyrri hálfleikurinn kláraðist en það gekk ekkert upp hjá honum eins og öðrum í varnarlínu KR.

„Ég hef samúð með Gregg að gera þetta. Hann vildi pottþétt bíða fram að hálfleik því þú vilt ekki gera þetta við ungan strák en hann var svo lélegur og var rúinn sjálfstrausti. Hann átti í brasi með vindinn og grasið. Það var enginn munur á honum og Finni. Hann var ekki endilega lélegastur en bar ábyrgð á fyrstu mörkunum," sagði Tómas en Haraldi fannst skiptingin grimm.

„Að taka ungan leikmann af velli eftir níu umferðir í fyrri hálfleik er mjög niðurlægjandi fyrir drenginn og óþarfi. Liðið fékk á sig tvö algjör dauðafæri í fyrri hálfleik eftir að hann fór af velli. Enn einn svartur blettur á frammistöðu KR," sagði Haraldur.

„Hann gerði mest áberandi mistökin," sagði Valur Gunnarsson í þættinum.

„Það er ekkert rangt við það sem þú ert að segja en hin hliðin á peningnum er að kannski er Gregg að hugsa: 'Hvað ef það kemur eitt í viðbót?' Hversu brotinn verður hann þá? Er betra að kippa honum út af og eiga við hann samtalið? Svo verður það að koma í ljós," sagði Tómas.

„Ég vona að Rúrik komi sterkur út úr þessu. Það lítur út eins og hann sé gerður að blóraböggli fyrir ömurlega frammistöðu fjögurra manna. Sem mér fannst ósanngjarnt," sagði Haraldur.

Heppinn að þessi leikur fór ekki 9-2
Varnarleikur KR var barnalegur og minnti á varnarleik hjá liði í yngri flokkum á köflum.

„Hvernig þeir spiluðu og létu boltann skoppa yfir sig. Þeir voru grasliðið en litu út fyrir að hafa aldrei séð gras á ævinni. Ábyrgðarleysi, samskiptaleysi og lengd milli lína. Þetta var bara hrottalegt," sagði Tómas en Valur, sem stjórnaði þættinum, spurði hvort eitthvað lið í Bestu deildinni myndi taka varnarlínu KR fram yfir sína varnarlínu?

„Það er mjög erfitt að tala upp varnarlínu KR eftir leikinn í gær... þetta lítur alveg ofboðslega illa út og þetta landsleikjahlé kemur á ansi góðum tíma held ég fyrir KR," sagði Haraldur Árni.

KR-ingar voru heppnir að tapa leiknum ekki mun stærra en Valsmenn fengu svo sannarlega færi til að skora fleiri mörk. Varnarleikur KR hefur verið afleitur í allt sumar en liðið er að reyna að spila mikinn pressubolta án þess að hafa réttu leikmennina í það.

„Gregg Ryder er heppinn að þessi leikur fór ekki 9-2. Þetta hefði getað verið þannig að hann hefði verið rekinn upp á skrifstofu beint eftir leik," sagði Tómas og hélt áfram:

„Það var alveg ljóst að Gregg Ryder vildi spila pressubolta og heilla KR 'la familia' með fallegum pressubolta og þessum víðfrægu 20 mínútum þar sem allir eru upp við kaðlana á KR-vellinum og allt brjálað. Það heppnaðist í sex mínútur á móti Val. Svo komu aðrar 84 þar sem þetta var ekki alveg eins gott."

„En hvað er þarna? Það sem er mest bent á er Axel Óskar. Hann var síðasta púslið í þetta. Það púsl kom úr allt öðrum púslkassa út frá púsluspilinu sem þeir vilja vera með. Ég ætla ekki að kenna bara Axel um þetta. Mér finnst ekki vera trylltar pressuvélar í þessu KR-liði og ef þú ætlar að vera svona svakalega framarlega með Axel og Finn Tómas, þá er bara neglt yfir þá og þeir eiga ekki breik á að elta einn einasta sóknarmann uppi. Kylfingur fer ekki í golf með hafnaboltakylfu og hermaður fer ekki út á vígvöll með saxafón. Þú verður að vera með vopn í hendi til að gera það sem þú ætlar að gera. Þeir eru alls ekki með það."

„Ég hef miklar áhyggjur af KR eins og staðan er núna," sagði Valur Gunnarsson.

Ef Óskar fer eitthvað annað og partýið byrjar
Óskar Hrafn Þorvaldsson, mikill KR-ingur, er án félags og var á þessum leik í Vesturbænum. „Segjum að Óskar Hrafn væri tilbúinn að taka við á morgun, mynduð þið skipta?" spurði Valur Gunnarsson.

„Að sjálfsögðu," sagði Tómas Þór. „Þetta tengist Gregg Ryder ekkert. Þeirra draumur er laus og þeir hefðu bara átt að gera þetta strax. Áður en hann fer eitthvað annað. Núna er annað félag (Stjarnan) sem er væntanlega vel spennt fyrir honum."

„Ég held að það væri skynsamlegt að gefa þessu þennan landslekjaglugga. Gefa þessu aðeins lengri tíma. Ég vona að KR-ingar séu rólegir. En það þarf að vera bæting, alveg klárlega," sagði Haraldur.

„Það sem er vonda við það er að ef Óskar fer eitthvað annað og partýið byrjar þar. Og KR situr eftir með að ráða Loga Ólafs í september. Þetta tengist Gregg ekki neitt. Maðurinn þeirra er bara laus," sagði Tómas Þór.
Gregg Ryder: Stuðningsmenn eiga þetta ekki skilið
Innkastið - Ömurlegur varnarleikur í markaveislu
Athugasemdir
banner