mán 06.feb 2023 16:00 Mynd: Tobias Giesen/Fortuna Sittard |
|
Nýtur lífsins í Hollandi - „Var orðin rosa þreytt á löngu dögunum heima"
Hildur Antonsdóttir gekk í raðir hollenska félagsins Fortuna Sittard síðasta sumar. Fortuna er með lið í kvennadeildinni í fyrsta sinn á þessu tímabili. Hildur er 27 ára miðjumaður sem uppalin er hjá Val en hafði verið hjá Breiðabliki frá sumrinu 2016 þar til kallið kom frá Hollandi í sumar. Hún ræddi við Fótbolta.net um lífið í Hollandi og ýmislegt fleira.
Það hefur vantað kvennalið í þennan hluta Hollands sem ungar stelpur geta dreymt um að spila fyrir svo Fortuna tók á skarið og stofnaði lið.
Mynd/Tobias Giesen/Fortuna Sittard
Fyrir mér var þetta ekki neitt og benti ég þeim á að við í Breiðabliki spiluðum leik í Meistaradeildinni á móti Real Madrid í mun meiri snjó en þetta
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mér finnst ég vera orðin rólegri á boltann þar sem Hollendingar leggja mikið upp úr því.
Mynd/Tobias Giesen/Fortuna Sittard
Breiðablik er náttúrulega með topp aðstæður og ég vildi finna lið sem væri með svipaða stefnu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú erum við búnar spila saman í hálft ár og erum í 3. sæti. Það er draumurinn að enda í því sæti á þessu tímabili.
Mynd/Tobias Giesen/Fortuna Sittard
Ég er ekki í neinu námi svo ég get sett alla orkuna í fótboltann, eitthvað sem ég var ekki vön heima.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildur hefur byrjað fjóra leiki í vetur og komið sjö sinnum inn af bekknum í tólf leikjum.
Mynd/Tobias Giesen/Fortuna Sittard
Ég var búin að eiga frábæra tíma heima með Breiðabliki og það er alltaf erfitt að yfirgefa liðið sitt, hvað þá á miðju tímabili en það var kominn tími á að ég tæki næsta skref.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildur hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Auðvitað vil ég fá mun meiri spilatíma, ég vil alltaf spila 90 mínútur þannig er ég bara.
Mynd/Tobias Giesen/Fortuna Sittard
Á að baki tvo landsleiki - Miðað við það sem ég hef afrekað á ferlinum finnst mér að ég ætti að eiga fleiri en þessa tvo landsleiki.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á ferlinum hefur hún leikið með Val, Breiðabliki, HK/Víkingi og Fortuna Sittard.
Mynd/Tobias Giesen/Fortuna Sittard
Ég gat farið út 18 ára en mér fannst ég ekki vera tilbúin þá.
Mynd/Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
„Því skil ég ekki af hverju við gátum ekki verið í þessum hóp"
Kominn tími á næsta skref
Hildur segir að ákvörðunin að fara út hafi ekki verið erfið. „Mér fannst ég vera löngu tilbúin í þetta skref og gat eiginlega ekki beðið lengur með þetta. Ég var búin að eiga frábæra tíma heima með Breiðabliki og það er alltaf erfitt að yfirgefa liðið sitt, hvað þá á miðju tímabili en það var kominn tími á að ég tæki næsta skref."
„Ég hef alltaf stefnt á atvinnumennskuna, alveg síðan ég var lítil en það þurfti að vera réttur tímapunktur. Ég gat farið út 18 ára en mér fannst ég ekki vera tilbúin þá. Auk þess var ég með önnur markmið hér heima sem ég vildi ná áður, eins og að verða Íslandsmeistari og komast í A-landsliðið. Ég sleit síðan krossband 2020 og það seinkaði auðvitað þessu skrefi en þá var ég farin að íhuga að koma mér út."
Glænýtt lið
Þegar hún heyrði fyrst af Fortuna Sittard þá hugsaði hún að það væri spennandi og skemmtilegt að prófa að spila í hollensku deildinni. En hvernig kom nafnið hennar upp hjá Fortuna?
„Umboðsmaðurinn minn hjálpaði liðinu að finna nokkra leikmenn og þannig heyrðu þau af mér. Fortuna Sittard er mikill stemningsklúbbur hér í Hollandi en þau hafa aldrei haft kvennalið. Það hefur vantað kvennalið í þennan hluta Hollands sem ungar stelpur geta dreymt um að spila fyrir svo Fortuna tók á skarið og stofnaði lið. Það er mikill metnaður hjá eigendum og starfsfólki til að gera þetta að klúbbi sem getur keppt um Evrópusæti og titilinn."
„Þetta var aðal ástæðan fyrir því að ég ákvað að hoppa á þetta tækifæri en mér fannst einnig spennandi að taka þátt í uppbyggingu nýs liðs, þrátt fyrir að það sé náttúrulega ákveðin áhætta í því."
Vildi finna lið með svipaða stefnu
Sittard er í Suður-Hollandi og Hildur nýtur þess að vera þar. „Lífið hérna er mjög gott! Hollendingar eru rosalega vingjarnlegir, taka lífinu mjög rólega og ekki of alvarlega. Lífið er mun einfaldara hérna myndi ég segja, allavega fyrir mig."
Hvernig eru aðstæður miðað við þær sem Breiðablik hefur upp á að bjóða?
„Breiðablik er náttúrulega með topp aðstæður og ég vildi finna lið sem væri með svipaða stefnu. Ég myndi segja að aðstæðurnar væri mjög góðar hér í Fortuna, allavega með þeim bestu í hollensku deildinni. Við spilum á sama velli og karlaliðið, höfum aðgang að sjúkraþjálfurum og styrktarþjálfurum þeirra, og æfingasvæðið okkar er mjög fínt."
Hildur er á fullu að læra hollenskuna og er aðeins farin að geta beitt henni. „Það gengur mjög vel að læra hollenskuna, ég er farin að skilja allt og tala smá. Það var eiginlega nauðsynlegt fyrir mig að læra sem fyrst því æfingarnar fara fram á hollensku. Annars voru leikmenn að þýða fyrir mig eða þá að þjálfarinn talaði við mig á ensku."
Ekkert lið á Íslandi hefði hætt við æfingar út af þessu veðri
Hefur eitthvað komið henni mikið á óvart frá komunni til Hollands?
„Það sem kom mér mest á óvart var bara í síðustu viku þegar það snjóaði nokkra sentímetra hér og það fannst öllum alveg ómögulegt að æfa. Það var smá snjór á gervigrasinu og því var ekki æft í þrjá daga, bara einstaklingshlaup í ræktinni. Fyrir mér var þetta ekki neitt og benti ég þeim á að við í Breiðabliki spiluðum leik í Meistaradeildinni á móti Real Madrid í mun meiri snjó en þetta. Þarna sá ég þessa svokölluðu íslensku geðveiki sem maður er vanur heima, því ekkert lið á Íslandi hefði hætt við æfingar út af þessu veðri."
Yrði draumur að enda í 3. sæti
Fortuna er í þriðja sæti hollensku deildarinnar eftir þrettán leiki. Twente er á toppnum með fullt hús stiga og Ajax er í öðru sæti, ellefu stigum fyrir ofan Fortuna. Fyrir rúmri viku síðan hófst hollenska deildin aftur eftir vetrarfrí og hefur Fortuna unnið tvo fyrstu leiki sína eftir áramót.
„Við byrjuðum tímabilið á tveimur erfiðum leikjum en eftir þá hefur okkur gengið betur. Heilt yfir erum við ánægð með spilamennskuna en við viljum alltaf bæta okkar leik til að komast nær toppliðunum tveimur. Það tekur náttúrulega tíma fyrir nýtt lið að spila sig saman og þekkja inná hver aðra. En nú erum við búnar spila saman í hálft ár og erum í 3. sæti. Það er draumurinn að enda í því sæti á þessu tímabili."
Hildur hefur komið inn af bekknum í síðustu tveimur leikjum.
„Ég er ánægð með eigin frammistöðu. Auðvitað vil ég fá mun meiri spilatíma, ég vil alltaf spila 90 mínútur þannig er ég bara. En ég lenti í óheppilegum meiðslum í öðrum leiknum í haust, brákaði rifbein og það tók sinn tíma að jafna sig á því. Ég missti af einum leik en síðan fór ég að koma inná en það var mjög erfitt þar sem ég var alls ekki 100%. Ég jafnaði mig síðan um miðjan nóvember og kom þá aftur í byrjunarliðið stuttu seinna."
Er hún í frábrugðnu hlutverki frá tíma sínum hjá Breiðabliki?
„Fortuna sækir mig sem miðjumann en ég er einnig búin að leysa báðar bakvarðastöðurnar. Það er því aðeins öðruvísi en ég var vön hjá Breiðabliki. Hér er ég meira hugsuð varnarlega og í því að koma boltunum á framherjana, en í Breiðabliki var ég meira í fremstu línu. Árið 2022 spilaði ég því allar stöðurnar nema markið. Ég lít samt bara á það sem kost, ég fæ að spila og sjá leikinn frá mörgum mismunandi sjónarhornum og hefur það hjálpað mér að bæta minn leik. Mér finnst góður kostur að geta leyst allar stöður á vellinum."
„Ég myndi segja að það væru öðruvísi áherslur í leikstílnum, hér snýst þetta meira um að vera róleg á boltann, láta hann vinna fyrir þig og spila í millisvæðin. Það er allt mjög skipulagt hérna svo þú átt helst bara að vera í þínu svæði og ekki hlaupa óþarfa hlaup, bæði varnar- og sóknarlega."
Skref upp á við frá Bestu deildinni
Hvernig er deildin í styrkleika miðað við Bestu deildina?
„Hollenska deildin er skref upp á við frá Bestu deildinni, myndi ég segja. Öll liðin eru mjög taktísk og spila góðan fótbolta. Leikmennirnir eru með betri leikskilning og grunntækni. Hér eru talsvert fleiri mjög góðir leikmenn sem geta auðveldlega tekið skrefið í stórlið í bestu deildum Evrópu."
„Ajax og Twente eru tvö bestu liðin hérna og ég myndi segja að þau væru betri en bestu liðinu heima. Það er samansafn af hollenskum landsliðskonum í báðum þessum liðum og ef leikmennirnir eru ekki í A-landsliðinu þá eru þær í yngri landsliðunum. Einnig eru margir leikmenn sem hafa verið lengi hjá sínum klúbbum þannig liðin eru vel æfð saman."
Mættar til að berjast um efstu sætin
Hverjir eru hápunktarnir og lágpunktarnir til þessa?
„Hápunkturinn var að vinna PSV 2-0. Þetta var fyrsti alvöru sigurinn og á móti liði sem við erum að keppast við um sæti. Með þeim sigri fengum við, og allir í kringum liðið, enn meiri trú á verkefninu. Við sýndum líka öðrum liðum í keppninni að við værum mættar í deildina til að keppast um efstu sætin en ekki bara til að taka þátt."
„Lágpunkturinn var algjörlega að bráka rifbein í öðrum leiknum. Aðallega því ég missti af leikjum og því þessi meiðsli voru svo leiðinleg. Ég átti rosalega erfitt með djúpöndun í mánuð og það er frekar slæmt ef þú ætlar að spil fótbolta. Síðan var ekkert hægt að gera nema bara bíða eftir að þetta færi. Engin meðferð eða æfingar sem hjálpa manni að jafna sig fyrr, bara tíminn."
Var orðin þreytt á löngu dögunum heima
Hvernig er að vera atvinnukona í fótbolta?
„Það er mjög fínt, eins og er hef ég meiri frítíma en ég var vön á Íslandi. Ég er ekki í neinu námi svo ég get sett alla orkuna í fótboltann, eitthvað sem ég var ekki vön heima. Á Íslandi var ég annað hvort í 100% námi og vinnu með boltanum eða 100% vinnu og fótbolta. Dagarnir voru því langir og eini frítíminn seint um kvöldið."
„Hér æfum við á morgnana þannig ég er á æfingasvæðinu frá morgni til klukkan tvö flest alla daga. Ég hef því nægan frítíma sem ég nýti í að læra hollensku, fara aukalega í ræktina og göngutúra, eða bara til að slaka á og undirbúa mig fyrir næstu æfingu. Ég fýla þetta mjög mikið en ég var líka orðin rosa þreytt á löngu dögunum heima. Það hefur líka hjálpað mér mikið að komast í nýtt lið og umhverfi, það hefur alltaf þroskandi áhrif, bæði í fótbolta og daglegu lífi."
Einhverjar bætingar sem Hildur finnur fyrir á vellinum? „Mér finnst ég vera orðin rólegri á boltann þar sem Hollendingar leggja mikið upp úr því. Ég hef alltaf verið mjög beinskeyttur leikmaður með sprengikraft en núna er ég að reyna blanda þessu saman til að verða enn betri."
Kom á óvart að Breiðablik náði ekki í 2. sæti
Hildur fylgdist eins vel og hún gat með seinni hluta mótsins á Íslandi eftir að hún fór út. „Ég fylgdist með textalýsingum og sá það helsta úr leikjum því ég gat ekki horft á leikina í beinni."
Var eitthvað sem kom henni á óvart?
„Það kom mér á óvart að Breiðablik náði ekki öðru sætinu. Við vorum með mjög gott lið þrátt fyrir að margir lykilleikmenn duttu út seinni hlutann; Ásta Eir, Telma, Munda og Alex, svo einhverjar séu nefndar. Leikmennirnir sem komu inn í staðinn stóðu sig mjög vel af því sem ég sá, en þetta er fótbolti og allt getur gerst. Stjarnan var líka á siglingu í seinni hlutanum og spilaði á mjög svipuðu liði allt mótið."
„Ég bíð spennt eftir næsta tímabili og ætla fylgjast vel með því, þá sérstaklega Blikunum því ég veit að enginn í Kópavogi var sáttur með 3. sætið."
Gott fyrsta skref í atvinnumennsku
Horfiru á tímann hjá Fortuna Sittard sem mögulegan stökkpall á eitthvað stærra eða er nálgunin meira að njóta tímans og sjá hvað gerist?
„Ég myndi segja bæði, ég lít á þetta sem gott fyrsta skref í atvinnumennskuna og vona að það komu tækifæri í betri deildum í kjölfarið. Á sama tíma er ég að njóta mín á meðan ég er hér og held að það hjálpi upp á næstu skref að gera."
Pirrandi að missa af þessum glugga
Talsvert hefur verið ritað um nóvember verkefni kvennalandsliðsins þar sem ákveðið var að velja leikmenn úr Bestu deildinni á æfingar í stað þess að spila vináttuleikja. Landsliðsþjálfarinn var spurður út í þá ákvörðun fyrir helgi en áður höfðu leikmenn sem spila erlendis en fengu ekki kallið á síðasta ári tjáð sig.
Um málið:
Sér ekki eftir fríinu í nóvember - Heimslistinn spilaði inn í
Gagnrýnir síðasta landsliðsverkefni harðlega - „Hvenær eigum við að fá tækifæri?"
Anna Björk um landsliðið: Skrítið að nýta ekki þann glugga betur
Hildur var spurð út í nóvemberverkefnið.
„Ég get alveg tekið undir þetta með þeim Önnu Björk og Diljá. Við erum fáar sem spilum úti og erum ekki fastamenn í landsliðinu og því skil ég ekki af hverju við gátum ekki verið í þessum hóp. Maður vill alltaf fá sénsinn til að sýna sig sérstaklega þegar það er takmarkaður sýnileiki á leikjum erlendis. Leikmennirnir heima eru mun sýnilegri og því myndi ég halda að það hefi verið kjörið tækifæri að leyfa okkur að fljóta með."
„Ég hef alltaf viljað fá fleiri tækifæri með landsliðinu en ég hef fengið. Ég á tvo leiki að baki og ég er stolt að hafa náð að spila fyrir landsliðið en ég hef alltaf stefnt á og vona enn að ég fái að spila meira fyrir landið."
„Miðað við það sem ég hef afrekað á ferlinum finnst mér að ég ætti að eiga fleiri en þessa tvo landsleiki. Þess vegna var það ennþá meira pirrandi að missa af þessum glugga til að sanna sig," sagði Hildur að lokum.
Athugasemdir