Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   fös 19. ágúst 2022 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Alexandra að ganga í raðir Fiorentina
Icelandair
Alexandra og Guðný Árnadóttir. Fiorentina mætir einmitt AC Milan, liði Guðnýjar, í fyrstu umferð Serie A um næstu helgi.
Alexandra og Guðný Árnadóttir. Fiorentina mætir einmitt AC Milan, liði Guðnýjar, í fyrstu umferð Serie A um næstu helgi.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Alexandra Jóhannsdóttir er gengin í raðir ítalska félagsins Fiorentina samkvæmt heimildum Fótbolta.net. Hún yfirgaf þýska félagið Eintracht Frankfurt í síðustu viku en hefur enn ekki verið tilkynnt sem nýr leikmaður nýs félags.

Alexandra, sem er 22 ára miðjumaður, er í landsliðshópnum fyrir komandi leiki gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi í undankeppni HM. Þorsteinn Halldórsson, þjálfari landsliðsins, var spurður út í Alexöndru á fundinum.

„Já, ég veit í hvaða lið hún er að fara," sagði Steini. „Ætli það verði ekki bara tilkynnt á eftir bara," bætti hann við.

Eins og fyrr segir herma heimildir Fótbolta.net að félagið sem um ræðir sé Fiorentina á Ítalíu og er hún byrjuð að æfa með liðinu.

Alexandra gekk í raðir Frankfurt frá Breiðabliki snemma árs 2020 og var því leikmaður liðsins í rúmlega eitt og hálft ár. Hún var á láni hjá Breiðabliki í rúmlega mánuð í sumar til að vera í sem besta leikforminu þegar EM fór fram. Á EM kom hún við sögu í fyrstu tveimur leikjum Íslands og á að baki alls 26 landsleiki.

Fiorentina endaði í 7. sæti ítölsku deildarinnar í fyrra. Næsti leikur liðsins er æfingaleikur gegn spænska liðinu Atletico Madrid í kvöld og svo hefst nýtt tímabil á Ítalíu eftir rúmlega viku.
Athugasemdir
banner