Chelsea gæti gert tilboð í Garnacho - Man City vill Cambiaso - Dortmund dregur sig úr baráttunni um Rashford
   fim 20. júní 2019 12:14
Arnar Daði Arnarsson
Haukur Páll gat ekki opnað munninn: Læstist allur í kjaftinum
Haukur Páll.
Haukur Páll.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik í 3-2 tapi liðsins gegn KR í Frostaskjólinu í gærkvöldi.

Haukur Páll fékk boltann í andlitið eftir aukaspyrnu KR-inga snemma leiks. Haukur Páll fékk aðhlynningu sjúkraþjálfara Vals, Einars Óla en kom svo inná stuttu síðar.

„Þetta var algjör óheppni. Það kemur fyrirgjöf og svo kemur flökt á boltann. Ég hoppa upp og boltinn smellur í kjálkanum á mér. Ég læsist allur í kjaftinum og er svolítið aumur í kjálkanum núna, annars er ég góður," sagði Haukur Páll í samtali við Fótbolta.net þar sem hann lýsir atvikinu.

Hann segir að í kjölfarið hafi hann ekkert náð að opna munninn og því hafi verið erfitt að tjá sig við sjúkraþjálfarann hvað væri að angra hann.

„Í kjölfarið leið mér ekkert alltof vel. Mér leið þokkalega eftir að ég var búinn að jafna mig en eftir að ég fór aftur inná þá byrjaði mér að líða ekkert alltof vel og ákvað því að biðja um skiptingu," sagði Haukur Páll sem vonast til að ná næsta leik Vals gegn Grindavík í 10. umferð deildarinnar á sunnudaginn.

„Til öryggis þá ætla ég að láta lækni skoða mig í dag. Til að taka af allan vafa þá er fínt að láta skoða þetta. Ég er aumur í kjálkanum núna en við verðum að sjá hvað verður."

Valsmenn komust í 2-0 snemma í seinni hálfleik í leiknum í gær gegn KR en töpuðu hinsvegar leiknum 3-2 þar sem Pablo Punyed skoraði sigurmarkið á 80. mínútu með glæsilegri aukaspyrnu.

„Það er grautfúlt að missa niður 2-0 forystu. Það á ekkert að gerast hjá jafn reynslu miklu liði og við erum en það gerðist. Við þurfum að fara spýta í lófana og taka einn leik fyrir í einu. Við verðum að hætta að hugsa langt fram í tímann. Það er næsti leikur sem gefur þrjú stig og við verðum að fara hala inn stigum, það er klárt."

Valsmenn sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar síðustu tveggja tímabila eru nú með sjö stig í 9. sæti eftir níu leiki. Haukur segir andrúmsloftið í leikmanahópi Vals ágætt þrátt fyrir slæmt gengi.

„Árið í fyrra er búið. Við unnum þetta mót þá en það gefur okkur ekki neitt. Í sjálfum sér byrjuðum við mótið ekkert rosalega vel í fyrra en síðan kom það. Núna er liðinn svolítið lengri tími en stemningin er fín inn í klefa en stemningin er auðvitað alltaf betri þegar maður vinnur leiki," sagði Haukur Páll að lokum.
Athugasemdir
banner
banner