fös 21.apr 2017 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 5. sæti: Breiðablik
Breiðablik hafnar í fimmta sæti Pepsi-deildarinnar í sumar ef spá Fótbolta.net rætist. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig.
Viktor Örn Margeirsson fyllir skarð Elfars í hjarta varnarinnar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Breiðablik 66 stig
6. Fjölnir 52 stig
7. KA 44 stig
8. Víkingur R. 42 stig
9. ÍBV 35 stig
10. ÍA 24 stig
11. Grindavík 19 stig
12. Víkingur Ólafsvík 10 stig
Um liðið: Endirinn á síðasta tímabili voru gríðarleg vonbrigði fyrir Breiðablik. Liðið gaf rækilega eftir í lokaleikjunum og missti af Evrópusæti. Það er alveg ljóst að fimmta sætið í ár yrðu einnig stór vonbrigði fyrir Blika enda stefna þeir sjálfir hátt í sumar og telja sig hafa hópinn til þess að gefa þessari spá langt nef. Reynslumiklir leikmenn eru farnir og ungir leikmenn munu klárlega fá tækifæri til að láta að sér kveða í sumar.
Þjálfari – Arnar Grétarsson: Nýtur verðskuldaðrar virðingar í Kópavoginum enda slær hjarta hans með Breiðabliki og hann er fyrrum fyrirliði liðsins. Hefur sótt mikla reynslu og það er alltaf fróðlegt að hlusta þegar hann tjáir sig um fótbolta. Neikvæður endir á síðasta tímabili var þó svartur blettur og ljóst að Breiðablik þarf að byrja tímabilið vel, annars verður pressa fljót að myndast.
Ný sóknarlína fengin á einu bretti
Styrkleikar: Áhersla Arnars í vetur var að laga vandamálið í fyrra og það gerði hann með hvelli. Markaskorun gekk bölvanlega og ný sóknarlína var keypt á einu bretti og það allt þrír leikmenn sem voru markakóngar hjá sínum félögum í Pepsi-deildinni í fyrra; Aron Bjarna frá ÍBV, Martin Lund frá Fjölni og Tokic frá Víkingi Ólafsvík. Einkennismerki Blika hefur verið góður varnarleikur alls liðsins með reynsluboltann síunga Gunnleif Gunnleifsson í markinu.
Veikleikar: Miklar breytingar hafa orðið á varnarlínunni en alls þrír leikmenn sem léku stór hlutverk í öftustu línu eru horfnir á braut. Mögulegt er að Elfar Freyr Helgason snúi aftur en annars verður hægara sagt en gert að ná upp sömu dínamík í miðverðinum og hann skapaði með Damir. Blikum hefur gengið illa að klára leiki en vonast til þess að liðsstyrkurinn sóknarlega umturni því.
Lykilmenn: Damir Muminovic og Oliver Sigurjónsson. Damir var í úrvalsliði deildarinnar í fyrra. Hefur sannað sig sem einn allra besti varnarmaður sem spilar hér á landi og myndað frábært miðvarðapar með Elfari Frey. Oliver er akkerið á miðjunni sem tengir saman vörn og sókn. Veitir öftustu línu öflugt skjól og getur líka látið markverði andstæðingana hafa fyrir hlutunum.
Gaman að fylgjast með: Davíð Kristján Ólafsson er að verða öflugri í vinstri bakverðinum. Var settur í þá stöðu í fyrra og er reynslunni ríkari. Breiðablik vill vera með bakverði sem taka virkan þátt í sóknarleiknum og Davíð er svo sannarlega leikmaður sem getur látið að sér kveða með krafti í þeim þætti.
Spurningamerkið: Hversu vel smella nýju sóknarmennirnir saman? Aron Bjarnason og Martin Lund Pedersen eru báðir stórskemmtilegir leikmenn sem eru illviðráðanlegir þegar þeir eru á deginum sínum. Hrvoje Tokic er hreinræktaður markaskorari sem er nú með betri leikmenn í kringum sig. Blikar vilja forðast aðra Glenn martröð.
Völlurinn: Kópavogsvöllur er yfirleitt í toppstandi enda er vallarstjórn í höndum Bö-vélarinnar, Magnúsar Vals Böðvarssonar. Tekur um 1.700 áhorfendur í sæti en ekki eru mjög mörg ár síðan flott stúka var tekin í notkun.
„Spáin kemur mér fullkomlega á óvart"
Formaðurinn segir – Ólafur Hrafn Ólafsson
„Það kemur mér fullkomlega á óvart að Breiðablik sé aðeins spáð 5. sætinu í sumar. Ég hafði satt að segja reiknað með að okkur yrði spáð einu af topp þremur sætunum. Við höfum verið í topp baráttunni undanfarin ár og markmið okkar er að halda okkur í henni. Við teljum okkur hafa styrkt hópinn okkar töluvert fyrir átök sumarsins og ungu strákarnir okkar eru einu árinu reyndari. En auðvitað eru svona spár fyrst og fremst skemmtilegir samkvæmisleikir, það sem skiptir máli er hvað menn gera inn á vellinum."
Sjá einnig:
Arnar Grétars: Reynum að gera atlögu að titlum
Af djamminu yfir í fremstu röð
Hin hliðin - Gísli Eyjólfsson (Breiðablik)
Komnir:
Aron Bjarnason frá ÍBV
Hrvoje Tokic frá Víkingi Ó.
Martin Lund Pedersen frá Fjölni
Farnir:
Alfons Sampsted til Norrköping
Aron Snær Friðriksson í Fylki
Arnór Sveinn Aðalsteinsson í KR
Atli Sigurjónsson
Árni Vilhjálmsson í Jönköping (Var á láni)
Daniel Bamberg
Elfar Freyr Helgason til Horsens (Á láni)
Ellert Hreinsson í Augnablik
Gunnlaugur Hlynur Birgisson í Víking Ó.
Jonathan Glenn til Armada FC í Bandaríkjunum
Kári Ársælsson í Augnablik
Leikmenn Breiðabliks sumarið 2017:
1 Gunnleifur Gunnleifsson
2 Kolbeinn Þórðarson
3 Oliver Sigurjónsson
4 Damir Muminovic
6 Aron Kári Aðalsteinsson
7 Höskuldur Gunnlaugsson
8 Arnþór Ari Atlason
9 Hrvoje Tokic
10 Martin Lund Pedersen
11 Gísli Eyjólfsson
13 Sólon Breki Leifsson
14 Óskar Jónsson
15 Davíð Kristján Ólafsson
16 Ernir Bjarnason
18 Willum Þór Willumsson
19 Aron Bjarnason
20 Ólafur Hrafn Kjartansson
21 Viktor Örn Margeirsson
22 Sindri Þór Ingimarsson
23 Skúli E. Kristjánsson Sigurz
24 Elías Rafn Ólafsson
25 Davíð Ingvarsson
28 Alexander Helgi Sigurðarson
29 Gísli Martin Sigurðsson
30 Andri Rafn Yeoman
31 Guðmundur Friðriksson
Leikir Breiðabliks 2017:
1.maí Breiðablik – KA
8.maí Fjölnir – Breiðablik
14.maí Breiðablik – Stjarnan
21.maí Víkingur R – Breiðablik
28.maí Breiðablik – Víkingur Ó
5.júní ÍA – Breiðablik
14.júní Breiðablik – Valur
18.júní KR – Breiðablik
26.júní Breiðablik – Grindavík
9.júlí ÍBV – Breiðablik
15.júlí Breiðablik – FH
23.júlí KA – Breiðablik
31.júlí Breiðablik – Fjölnir
9.ágúst Stjarnan – Breiðablik
14.ágúst Breiðablik – Víkingur R
20.ágúst Víkingur Ó – Breiðablik
27.ágúst Breiðablik – ÍA
10.sept Valur – Breiðablik
14.sept Breiðablik – KR
17.sept Grindavík – Breiðablik
24.sept Breiðablik – ÍBV
30.sept FH – Breiðablik
Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Hafliði Breiðfjörð, Kristófer Kristjánsson, Magnús Már Einarsson, Magnús Þór Jónsson.