„Tilfinningin er alveg æðisleg og geggjað að klára þetta í síðasta leiknum, það var öðruvísi í fyrra," sagði Skagamaðurinn Andri Adholpsson sem varð í dag Íslandsmeistari með Val annað árið í röð eftir 4-1 sigur á Keflavík í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 1 Keflavík
„Vikan var löng og maður er búinn að vera bíða eftir þessum leik alla vikuna. Ég hefði helst viljað spila þennan leik fyrr en við vorum einbeittir og kláruðum þetta."
Andri var lánaður í byrjun sumars til ÍA í Inkasso-deildinni en hann missti af miklu á undirbúningstímabilinu og var því lánaður til ÍA til að koma sér í betra spilform.
Þegar upp er staðið, var Andri því hluti af sigurliði bæði Inkasso-deildarinnar og Pepsi-deildarinnar. Geri aðrir betur.
„Ég fór upp á Skaga í byrjun sumars og þetta sumar hefur verið ótrúlega skemmtilegt. Það hefur gengið vel í sumar og ég er ánægður að hafa klárað þetta."
„Þetta er skemmtilegt. Ég er ánægður með mína menn upp á Skaga. Það er gaman að vera hluti af því að fara með þeim upp í Pepsi-deildina," sagði Andri sem býst við því að vera áfram hjá Val á næsta ári.
„Ég á eitt ár eftir af samningi þannig ég verð hérna áfram á næsta ári."
„Við hefðum viljað fara lengra í Evrópukeppninni og í bikarnum. Nú er bara að stefna á að gera betur á næsta ári," sagði Andri.
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir