Ísland 0 - 2 Danmörk
0-1 Signe Bruun ('16 )
0-2 Signe Bruun ('40 )
Lestu um leikinn
Íslenska kvennalandsliðið tapaði gegn Danmörku í vináttuleik á Pinatar-leikvanginum í Murcia á Spáni í kvöld í síðasta leik liðsins á þessu ári. Þetta var seinni leikur liðsins á Spáni en liðið gerði markalaust jafntefli gegn Kanada fyrir helgi.
Íslenska liðið byrjaði leikinn vel en það gekk þó illa að koma boltanum á markið. Fanney Inga Birkisdóttir markvörður íslenska liðsins gerði slæm mistök snemma leiks þegar Signe Bruun komst inn í sendingu frá henni.
Bruun náði sem betur fer ekki valdi á boltanum og þetta rann út í sandinn.
Danska liðið komst yfir eftir stundafjórðung þegar Bruun skallaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf.
Alexandra Jóhannsdóttir átti besta færi íslenska liðsins en boltinn datt fyrir hana inn á teignum en skot hennar fór beint á Maja Bay Östergaard í danska markinu.
Stuttu síðar bætti Bruun við sínu öðru marki eftir slæm mistök hjá Ingibjörgu Sigurðardóttir. Hún ætlaði að senda boltann til baka á Fanneyju en hitti ekki boltann. Bruun náði til hans og vippaði snyrtilega yfir Fanneyju og boltinn hafnaði í netinu.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn einnig vel en náði þó ekki að skapa sér teljandi marktækifæri en annar svar lítið markvert sem gerðist í seinni hálfleiknum og sigur Danmerkur staðreynd.