Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 06. apríl 2016 09:00
Þórður Már Sigfússon
Leikið um Ofurbikarinn á Íslandi?
Gríðarlegir möguleikar felast í stærri þjóðarleikvangi
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær bindur Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, vonir við að leikið verði á Íslandi í lokakeppni Evrópumótsins 2024 eða 2028, fari svo að Norðurlöndin hreppið hnossið um að fá að halda sameiginlegt mót.

Þar að auki eru raunhæfar líkur á því að góðgerðarskjöldur UEFA; leikurinn um hinn evrópska Ofurbikar (Super Cup) geti farið fram hér á landi í náinni framtíð. Þetta herma heimildir Fótbolti.net.

Allt veltur þetta hins vegar á framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvangs. Til þess að viðburðir af þessari stærðargráðu geti orðið að veruleika hér á landi þarf augljóslega að stækka og betrumbæta núverandi þjóðarleikvang Íslands í knattspyrnu, Laugardalsvöll, eða byggja samskonar aðstöðu upp á öðrum stað.

Það dylst engum að Laugardalsvöllurinn er of lítill í núverandi mynd; 10.000 sæti eru einfaldlega of fá nú á merkustu tímum íslenskrar knattspyrnu. Sætanýting vallarins er sú besta í keppnisleikjum á þjóðarleikvangi í Evrópu og stækkun um 50% - 100% er raunsætt mat að mati erlendra sérfræðinga sem Fótbolti.net hefur ráðgast við.

Með stækkun vallarins og frekari uppbyggingu opnast gríðarlega spennandi möguleikar.

Ofurbikarinn á flakk
UEFA ákvað árið 2013 að falla frá þeirri hefð að spila leikinn um Ofurbikarinn í Mónakó en þar glitti oft í tóma áhorfendabekki og áhugalausa áhorfendur. Sú hefð hafði haldist frá 1998 og var þess í stað ákveðið að senda leikinn á flakk um Evrópu.

Frá 2013 hafa Tékkland, Georgía og Wales fengið að hýsa þennan viðburð og í ár munu frændur okkar í Noregi eiga þann heiður. Hann mun fara fram á heimavelli Rosenborg, Lerkendal leikvanginum í Þrándheimi, en sá völlur rúmar um 21 þúsund manns í sæti.

Næsta ár mun leikurinn spilast í Makedóníu og þá hafa Eistar lýst yfir áhuga á því að leikurinn fari fram í Tallinn 2018. Þar á bæ hafa menn ráðist í 50% stækkun á þjóðarleikvanginum, úr 10 þúsund sætum upp í 15 þúsund sæti.

Ísland áhugaverður leikstaður
Fótbolti.net hefur á undanförnum vikum sent fyrirspurnir til UEFA um möguleika Íslands í þessum málum og er óhætt að segja að viðbrögðin hafi verið jákvæð. Svo virðist sem að flest sem tengist íslenskri knattspyrnu sé vinningsuppskrift um þessar mundir og ljóst að landið nýtur gríðarlegrar virðingar innan evrópska knattspyrnusambandsins.

„Ef uppbygging á Íslandi verður með þeim hætti að hún mætir óskum og viðmiðum UEFA í þessum efnum er ljóst að landið yrði raunhæfur kostur til að hýsa leik um Ofurbikarinn. Næsti leikur verður haldinn í Þrándheimi og Ísland er um þessar mundir mjög framarlega í framþróun evrópskrar knattspyrnu og mjög spennandi staður fyrir svona viðburð,” segir í svari við fyrirspurn Fótbolta.net.

Þrándheimur er á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík og því er ljóst að lega Íslands skiptir engu máli fari svo að sóst verði eftir því að halda leikinn um Ofurbikarinn í framtíðinni.

„Að sjálfsögðu munum við gefa Íslandi gaum. Tilgangurinn með því að færa ofurleikinn milli staða er að gefa þjóðum sem hafa ekki burði til að halda úrslitaleiki Meistaradeildarinnar eða Evrópudeildarinnar möguleika á því að skipuleggja og hýsa svipaða leiki," segir í öðru svari.

KSÍ hefur áhuga
Geir segir að þetta nýja fyrirkomulag hjá UEFA opni dyr að nýjum tækifærum fyrir knattspyrnu hérlendis, svo fremi sem ráðist verði í uppbyggingu á þjóðarleikvanginum.

„Með úrbótum/uppbyggingu á Laugardalsvelli þannig að völlurinn uppfylli nútímakröfur til knattspyrnuleikvanga er Super Cup raunhæfur möguleiki á Íslandi. Nýtt fyrirkomulag er einmitt hugsað til þess að minni lönd geti tekið að sér framkvæmd leiksins – og augljóslega hefðum við áhuga á því," sagði Geir í skriflegu svari við fyrirspurn Fótbolti.net.

Ljóst er að leikur um Ofurbikarinn yrði stærsti knattspyrnuviðburður sem farið hefur fram hérlendis enda ekki á hverjum degi sem tvö af bestu félagsliðum heims etja kappi um bikar á Íslandi.

Ofurbikarleikir síðustu þriggja ára:
2013: Bayern München - Chelsea. Fór fram á Eden Arena í Prag í Tékklandi. Áhorfendur voru 17.686.
2014: Real Madrid - Sevilla. Fór fram á Cardiff Stadium í Cardiff í Wales. Áhorfendur voru 30.854.
2015: Barcelona - Sevilla. Fór fram í Dinamo Arena í Tblisi í Georgíu. Áhorfendur voru 51.940.
Athugasemdir
banner
banner
banner