Margrét Sif og Maggý eru komnar aftur til uppeldisfélagsins en þær léku með HK/Víking á síðustu leiktíð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. FH
2. Haukar
3. ÍA
4. Þróttur
5. Augnablik
6. Fjölnir
7. Tindastóll
8. Afturelding
9. Grindavík
10. ÍR
Lokastaða í fyrra: 10. sæti í Pepsi-deildinni
Þjálfari: Guðni Eiríksson tók við liði FH síðastliðið haust.
Styrkleikar: Liðið hefur fengið marga uppalda FH-inga aftur heim í Krikann og ásamt ungu og efnilegu leikmönnum FH gæti þetta verið hin fullkomna blanda. Liðið er með góðan kjarna, fljóta leikmenn í fremstu línu og það er fín breidd í hópnum.
Veikleikar: Það er mikil breyting á liði FH frá síðasta tímabili. Nýjir leikmenn og nýtt þjálfarateymi. Það gæti reynst snúið að stilla saman strengi og það gæti tekið liðið aðeins fram á sumar að finna taktinn.
Lykilmenn: Margrét Sif Magnúsdóttir, Selma Dögg Björgvinsdóttir og Helena Ósk Hálfdánardóttir
Gaman að fylgjast með: Þórey Björk Eyþórsdóttir er ung, efnileg og eldfljót. Hefur verið að spila vel á undirbúningstímabilinu og gæti sprungið út í sumar.
Við spurðum Guðna þjálfara út í spánna og komandi tímabil:
Kemur spáin þér á óvart?
„Nei, ég get ekki sagt að hún geri það. Það eru nokkur lið sem fyrirfram má gefa sér að verði í toppbaráttunni og við erum eitt þeirra. Auðvitað er ánægjulegt að þjálfarar og leikmenn andstæðinganna líti á FH sem verðugan mótherja en það gefur ekkert þegar út á völlinn er komið.“
Finnur þú fyrir pressu um að koma liðinu upp strax?
„Nei, alls ekki. FH er í uppbyggingu kvennamegin og þetta sumar er einungis einn hluti af þeirri heildarmynd. Við tökum okkur einfaldlega þann tíma sem við þurfum til þess að móta öflugt lið.”
Hver eru markmið FH í sumar?
„Mótið snýst um stigasöfnun og við ætlum að gera harða atlögu að því að ná í þrjú stig í hverjum einasta leik. Svo er bara að sjá hverju það skilar okkur í lok tímabils.”
Hvernig hefur gengið að setja saman nýtt FH-lið fyrir sumarið?
„Framar vonum. Það er vitað mál að þegar lið fellur um deild verða breytingar á leikmannahópi þess liðs. Að sama skapi ýta þjálfaraskipti einnig undir slíkar breytingar. Brottfall leikmanna reyndist þó vera í lágmarki og þeir leikmenn sem við höfum fengið í staðinn hafa fallið vel inn í hópinn enda flestir fyrrum leikmenn FH og saman höfum við myndað sterka heild. Breiddin í hópnum er að sama skapi mikil sem hjálpar okkur að halda gæðum þegar við þurfum að fást við meiðsli eða gera taktískar breytingar í leik.”
Hvernig áttu von á að deildin spilist?
„Eins og margir hafa nefnt, þá á ég von á því að deildin verði tvískipt og mikil spenna á báðum vígstöðum. Liðin sem við mætum eru með mjög færa og skipulagða þjálfara sem eru góðir í nýta sem allra best þá styrkleika sem lið þeirra hafa upp á að bjóða. Það kæmi mér ekki á óvart að við sæjum nokkur óvænt úrslit í sumar og að úrslitin á toppi og botni deildarinnar ráðist ekki fyrr en í lokaumferðinni.”
Komnar:
Margrét Sif Magnúsdóttir frá HK/Víkingi
Maggý Lárentsínusdóttir frá HK/Víkingi
Aldís Kara Lúðvíksdóttir frá Breiðabliki
Nótt Jónsdóttir frá Stjörnunni
Selma Dögg Björgvinsdóttir frá Val (til baka úr láni)
Snædís Logadóttir frá ÍA (til baka úr láni)
Ragna Guðrún Guðmundsdóttir frá Val (á láni)
Farnar:
Halla Marinósdóttir í KR
Arna Dís Arnþórsdóttir í Stjörnuna
Jasmín Erla Ingadóttir í Stjörnuna
Diljá Ýr Zomers í Stjörnuna
Guðný Árnadóttir í Val
Nadía Atladóttir í Fjölni
Þórdís Elva Ágústsdóttir í Fylki
Birta Georgsdóttir í Stjörnuna (var á láni)
Maria Selma Haseta
Lilja Gunnarsdóttir
Tatiana Saunders
Alda Ólafsdóttir
Bryndís Hrönn Kristinsdóttir
Hanna Barker
Marjani Hing-Glover
Fyrstu leikir FH:
10. maí ÍA - FH
19.maí Tindastóll - FH
24.maí FH - Fjölnir
Athugasemdir