þri 15.apr 2025 15:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 1. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Breiðablik muni verja Íslandsmeistaratitil sinn í Bestu deild kvenna. Álitsgjafar spá í deildina en þeir röðuðu liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig. Breiðablik fékk fullt hús í þessar kosningu; það spáðu allir þeim Íslandsmeistaratitlinum.
Samantha Smith kom ótrúlega vel inn í Blikaliðið á síðasta tímabili.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristín Dís Árnadóttir kom líka sterk inn á miðju síðasta tímabili.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. Breiðablik, 100 stig
2. Valur, 85 stig
3. Víkingur R., 72 stig
4. Þróttur R., 71 stig
5. Þór/KA, 67 stig
6. Stjarnan, 48 stig
7. FH, 47 stig
8. Fram, 25 stig
9. FHL, 19 stig
10. Tindastóll, 16 stig
Um liðið: Það var Breiðablik sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í fyrra eftir að hafa spilað ótrúlega vel nánast allt mótið. Liðið gekk í gegnum breytingar fyrir tímabilið þar sem Nik Chamberlain tók við stjórnartaumunum og kom inn með sínar áherslur. En það gekk ótrúlega vel hjá liðinu að vinna með þessar áherslur og eiginlega frá byrjun var þetta eins og smurð vel. Það komu upp hnökrar hér og þar, meðal annars í bikarúrslitaleiknum þar sem tap var niðurstaðan gegn Val. En það tap kveikti einhvern eld innra með liðinu sem skilaði sér í eftirminnilegum Íslandsmeistaratitli á Hlíðarenda.
Þjálfarinn: Eins og áður kemur fram, þá tók Englendingurinn Nik Chamberlain við liði Breiðabliks fyrir síðasta tímabil. Það var svolítið skrítið til að byrja með að sjá hann í öðru liði þar sem hann hafði stýrt Þrótti frá 2016 en það vandist ótrúlega vel. Hann gerði ótrúlega vel með Þrótt þar sem hann kom liðinu upp úr 1. deild og náði að festa það í sessi í efri hlutanum í Bestu deildinni. Nik er gríðarlega metnaðarfullur þjálfari sem á núna Íslandsmeistaratitil á ferilskránni. Hann ætlar að fara lengra með þetta Blikalið og það verða settar kröfur á hann að vinna fleiri titla í sumar.
Álit Magga
Magnús Haukur Harðarson, fyrrum þjálfari Fjölnis, er sérfræðingur Fótbolta.net í Bestu deild kvenna. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir nokkrum hefði ég spað taplausu tímabili
„Eftir frábæran seinni hluta á síðasta tímabili stóðu Breiðablik uppi sem verðugir sigurvegarar og fyrir nokkrum vikum hefði ég spáð því að þær myndu ekki tapa leik á þessu tímabili en leikurinn gegn Val á dögunum gaf mér von um að spennandi tímabil væri framundan."
„Það var mikið talað um Sammy Smith á síðasta tímabili (eðlilega) en mikilvægasti leikamður liðsins er engu að síður Agla María Albertsdóttir og vægi hennar þegar hún kom tilbaka efir meiðsli voru rosaleg. Skarð Vigdísar Lilju hefur ekki verið fyllt og vantar að mínu mati töluverðan hraða fram á við hjá liðinu."
„Nik hefur stimplað sig inn sem einn af bestu þjálfurum landsins og verður spennandi að sjá hvernig tímabil tvö gengur hjá honum og hvort liðið nái að taka næsta skref strax og vinna mögulega tvennuna sem og að komast í riðlakeppni Evrópu."
„Ásta Eir er hætt og Telma er farinn í atvinnumennsku og eru þetta RISA skörð sem þarf að fylla því þær voru ekki bara sterkar inni á vellinum heldur líka risa raddir í klefanum."
„Blika fólk mætið á völlinn því það er spennandi sumar framundan sem gæti farið í sögubækurnar."
Lykilmenn: Agla María Albertsdóttir og Samantha Smith
Agla María er nýr fyrirliði Breiðabliks en hún tekur við bandinu af Ástu Eir Árnadóttur sem hætti eftir síðasta tímabil. Það þarf ekkert að segja fólki það hversu góð Agla María er. Hún hefur sýnt það í fjöldamörg ár að hún er ein besta fótboltakona Íslands. Hún var stórkostleg á síðasta tímabil og á stóran þátt í titlinum. Hún er magnaður sóknarmaður og það sama má segja um Samönthu Smith sem kom ótrúlega vel inn í Blikaliðið á síðustu leiktíð. Hún kom á miðju tímabili og leikur liðsins fór upp á næsta plan. Leikmenn deildarinnar telja að hún verði leikmaður ársins og það segir fullt.
Gaman að fylgjast með: Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Það er auðvitað mikið af ungum og efnilegum stelpum í Blikaliðinu og ber þar helst að nefna Hranhildi Ásu Halldórsdóttur sem var mjög góð í fyrra. Hún er fædd 2006 og er gríðarlega efnileg. En það verður eiginlega skemmtilegast að fylgjast með endurkomu Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur í Blikaliðið. Hún er á sínu öðru tímabili eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn og er væntanlega komin í betra stand en hún var í fyrra. Ef Berglind nær góðum takti, þá á hún góðan möguleika á að verða markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar.
Komnar:
Kate Devine frá Írlandi
Berglind Björg Þorvaldsdóttir frá Val
Heiðdís Lillýardóttir frá Basel
Helga Rut Einarsdóttir frá Grindavík
Sara Svanhildur Jóhannsdóttir frá Fram (var á láni)
Farnar:
Telma Ívarsdóttir til Skotlands
Ásta Eir Árnadóttir hætt
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir til Anderlecht
Jakobína Hjörvarsdóttir í Stjörnuna á láni
Margrét Lea Gísladóttir í Stjörnuna
Mikaela Nótt Pétursdóttir í FHL á láni
Hildur Þóra Hákonardóttir í FH
Olga Ingibjörg Einarsdóttir í Fram á láni (var á láni hjá HK)
Samningslausar:
Aníta Dögg Guðmundsdóttir (2000)

Fyrstu fimm leikir Víkings:
15. apríl, Breiðablik - Stjarnan (Kópavogsvöllur)
22. apríl, Þróttur R. - Breiðablik (AVIS völlurinn)
29. apríl, Breiðablik - Fram (Kópavogsvöllur)
3. maí, Breiðablik - Víkingur R. (Kópavogsvöllur)
8. maí, Tindastóll - Breiðablik (Sauðárkróksvöllur)
Spámennirnir: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Anton Freyr Jónsson, Brynjar Óli Ágústsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Mist Rúnarsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Athugasemdir