fim 28.mar 2024 14:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 9. sæti: ÍA
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að nýliðar ÍA muni enda í níunda sæti Bestu deildarinnar í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Skagamenn eru að koma upp og munu halda sér uppi ef spáin rætist.
Skagamenn fagna marki á undirbúningstímabilinu.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir/Stein Jøran Sanden
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ÍA, 59 stig
10. Vestri, 34 stig
11. Fylkir, 24 stig
12. HK, 14 stig
Um liðið: Skagamenn hafa verið eitthvað mest jójó lið Íslands síðustu árin þar sem þeir hafa flakkað á milli efstu deildar og þeirra næst efstu. Fólk á Skaganum er ekkert sérlega sátt með þetta enda er ÍA eitt sigursælasta lið í sögu efstu deildar þegar litið er til baka. Þættirnir Skaginn sem voru sýndir á RÚV fyrir stuttu hafa minnt fólk á gömlu góðu tímana á Skaganum og það ríkir ákveðin bjartsýni fyrir sumrinu. ÍA er ekki að fara að vinna deildina en stefnan hlýtur að vera að byggja góðan grunn til framtíðar.
Þjálfarinn: Jón Þór Hauksson er Skagamaður mikill og hann hoppaði á tækifærið þegar það bauðst að taka við liðinu fyrir tímabilið 2022. ÍA féll úr Bestu deildinni á hans fyrsta tímabili en hann fékk traustið áfram og kom liðinu beint upp aftur. Honum er treyst til að byggja upp þessa vegferð sem er í gangi og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig honum mun vegna í sumar. Jón Þór er fyrrum þjálfari Vestra og íslenska kvennalandsliðsins en hann hafði þjálfað hjá ÍA í mörg ár áður en hann tók loksins við sem aðalþjálfari.
Fótbolti.net fær sérfræðingana Einar Guðnason og Harald Árna Hróðmarsson til að rýna í styrkleika, veikleika og annað hjá liðunum sem spila í Bestu deildinni í sumar. Einar, sem er fyrrum aðstoðarþjálfari Víkinga, fer yfir það helsta hjá ÍA.
Styrkleikar: Skagamenn eru öflugir í uppstilltum varnarleik bæði í lágri blokk og 'controlled' pressu. Félagið hefur sterka hefð sem síðustu ár hefur þvælst fyrir leikmönnum inni á vellinum en ég tel að Jón Þór geti látið þessa hefð vinna með liðinu.
Veikleikar: Eins og Skagamenn eru sterkir þegar þeir ná að stilla sér upp í vörn þá geta þeir verið helst til of lengi að koma sér í skipulag þegar þeir snúa sókn í vörn. Þá hefur mér fundist þá vanta hraða framávið í þeim leikjum sem ég hef séð í vetur.
Lykilmenn: Viktor Jónsson, öflugur framherji sem getur skorað 10-15 mörk ef hann ákveður það sjálfur og fær hraðann leikmann nálægt sér til að mata sig (hann getur hringt í mig ef hann þarf pepp). Arnór Smárason, miðjumaður með reynslu og gæði sem mun stjórna umferðinni á Skaganum í sumar. Óliver Stefánsson, hafsent sem var gríðarlegt efni á sínum tíma en hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár. Ef hann nær fullum styrk í sumar verða Skagamenn ekki í fallhættu.
Leikmaður sem á að fylgjast með: Hinrik Harðarson, ungur og spennandi framherji af framherja kyni. Það verður spennandi að sjá hann taka skrefið upp í efstu deild eftir gott tímabili í Lengjudeildinni í fyrra.
Komnir:
Erik Tobias Sandberg frá Noregi
Hinrik Harðarson frá Þrótti R.
Marko Vardic frá Grindavík
Oliver Stefánsson frá Breiðabliki
Guðfinnur Þór Leósson frá Kára
Ísak Máni Guðjónsson frá Víkingi Ó.
Farnir:
Gísli Laxdal Unnarsson til Vals
Indriði Áki Þorláksson hættur
Alex Davey
Marteinn Theodórsson til ÍR
Pontus Lindgren til Svíþjóðar(var á láni frá KR)
Dómur Einars fyrir gluggann: 7, þrátt fyrir að hafa misst Gísla Laxdal frá síðasta tímabili tel ég að hópurinn sé sterkari í ár, en ég hefði viljað sjá þá taka 1-2 sterka leikmenn í viðbót. Til dæmis hraðan vængmann/kantframherja og/eða orkumikinn miðjumann.
Leikmannalisti:
1. Árni Marínó Einarsson (m)
31. Dino Hodzic (m)
3. Johannes Bjorn Vall
4. Hlynur Sævar Jónsson
5. Arnleifur Hjörleifsson
6. Oliver Stefánsson
7. Ármann Ingi Finnbogason
8. Albert Hafsteinsson
9. Viktor Jónsson
10. Steinar Þorsteinsson
11. Hinrik Harðarson
12. Logi Már Hjaltested
13. Erik Tobias Sandberg
14. Breki Þór Hermannsson
17. Ingi Þór Sigurðsson
18. Guðfinnur Þór Leósson
19. Marko Vardic
20. Ísak Máni Guðjónsson
21. Gabríel Þór Þórðarson
22. Árni Salvar Heimisson
23. Hilmar Elís Hilmarsson
24. Kristófer Áki Hlinason
26. Matthías Daði Gunnarsson
66. Jón Gísli Eyland Gíslason
88. Arnór Smárason
Fyrstu fimm leikir ÍA:
7. apríl, Valur - ÍA (N1-völlurinn Hlíðarenda)
14. apríl, HK - ÍA (Kórinn)
21. apríl, ÍA - Fylkir (ELKEM völlurinn)
28. apríl, ÍA - FH (ELKEM völlurinn)
5. maí, Stjarnan - ÍA (Samsungvöllurinn)
Í besta og versta falli: Í besta falli er það sjöunda sæti og er í versta falli ellefta sæti.
Spámennirnir: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Tómas Þór Þórðarson og Valur Gunnarsson.
Athugasemdir