Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   mið 29. janúar 2014 16:25
Hafliði Breiðfjörð
Stefán Gíslason á heimleið: Planið að spila á Íslandi
Stefán spilaði 92 landsleiki fyrir Ísland frá 2002 - 2009. Hann ætlar að spila í íslenska boltanum næsta sumar.
Stefán spilaði 92 landsleiki fyrir Ísland frá 2002 - 2009. Hann ætlar að spila í íslenska boltanum næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Stefán í leik með Keflavík en þar lék hann árin 2003 og 2004.
Stefán í leik með Keflavík en þar lék hann árin 2003 og 2004.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Gíslason fyrrverandi landsliðsmaður Íslands ætlar sér að finna lið á Íslandi til að spila með á komandi sumri en þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag.

Stefán gekk frá starfslokasamningi við OH Leuven í Belgíu fyrr í dag og ætlar að halda heim á leið. Hann hefur ekki ákveðið með hvaða liði hann spilar í sumar en segir að það verði á suð-vestur horni landsins.

,,Ég var að skrifa undir starfslokasamning í dag," sagði Stefán við Fótbolta.net í dag. ,,Þetta var sameiginleg ákvörðun hjá mér og klúbbnum."

,,Fjölskyldan flutti til Íslands í mars en það var planið hjá mér að taka eitt tímabil í viðbót. Svo lenti ég í meiðslum í lok síðasta tímabils þegar ég tognaði í kálfa, það gerðist svo aftur þegar undirbúningstímabilið byrjaði og við ákváðum svo að þetta væri orðið fínt."


Stefán segir að þrátt fyrir að atvinnumennskunni sé að ljúka sé hann langt frá því að vera hættur í fótbolta og ætlar að spila hér á landi í sumar. Hann verður 34 ára gamall á árinu.

,,Ég er búinn að æfa og vera til taks síðustu mánuði svo ég á nóg eftir og er í góðu standi. Ég er ekkert unglamb lengur en líkaminn er í góðu lagi og ég er ekkert að leggja skóna á hilluna."

Stefán sem er að austan spilaði með unglingaliði Arsenal á sínum yngri árum en var lánaður til KR árið 1998. Hann spilaði svo tímabilið 2003 og 2004 með Keflavík en hefur þess utan verið í atvinnumennsku erlendis. Hann hefur þó ekki ákveðið hvar hann spilar í sumar.

,,Það eru lið á Íslandi sem hafa heyrt í mér og fengið að fylgjast með hvernig málin standa hjá mér," sagði Stefán. ,,Ég hef heyrt í nokkrum liðum heima og líka í liðum frá Skandinavíu. En ég kem að öllum líkindum heim á næstunni og þá alkominn. Planið er að skoða hvort ég geti ekki spilað á Íslandi."

Aðspurður hvar hann sæi fyrir sér að spila næsta sumar, hvort það væri með liðum á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar sagði hann:

,,Ég er með hús í Garðabænum svo það verður á suðvesturhorninu sem ég myndi verða, en það eru nokkuð mörg lið á þeim punkti."
Athugasemdir
banner
banner
banner