Hinn magnaði Ejub Purisevic stýrði Víkingi Ólafsvík af hliðarlínunni í 300. sinn í gær þegar liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Þór Akureyri í Inkasso-deildinni.
Ejub hefur gert ótrúlega hluti fyrir Ólafsvíkurfélagið en hér að neðan má sjá skeyti frá Ólsurum í tilefni af þessum áfanga auk mynda úr safni Fótbolta.net.
Ejub hefur gert ótrúlega hluti fyrir Ólafsvíkurfélagið en hér að neðan má sjá skeyti frá Ólsurum í tilefni af þessum áfanga auk mynda úr safni Fótbolta.net.
Frá Víkingi Ólafsvík:
Ejub Purisevic stýrði Víkingi Ólafsvík af hliðarlínunni í 300. skipti í deild og bikar þegar liðið heimsótti Þór Akureyri í kvöld.
Kynni Ejubs og Víkings Ó. hófust árið 2003 en fyrsti deildarleikur Ejubs sem spilandi þjálfari liðsins var í maí það sama ár gegn Deiglunni í gömlu 3.deildinni og vannst leikurinn 1-0. Hann spilaði sinn seinasta leik fyrir félagið árið 2005, þá 37 ára gamall, og hefur stýrt liðinu af hliðarlínunni síðan ef frá er talin stutt pása árið 2009.
Ejub var ekki skráður þjálfari á þeim leikskýrslum leikja sem hann var spilandi þjálfari fyrstu árin en spilaði á þeim árum 55 leiki fyrir félagið í deild og bikar.
Óhætt er að fullyrða að samband Ejubs og Víkings Ó. hafi verið farsælt enda hefur félagið spilað í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins óslitið síðan 2011. Sex ár í næst efstu deild og þrjú ár í efstu deild. Þá hefur félagið einnig komist tvisvar í undanúrslit bikarkeppninnar undir stjórn Ejubs.
Samkvæmt veraldarvefnum er meðal líftími þjálfara hjá einu félagi einungis 91 leikur og því ljóst að okkar maður er langt yfir meðaltalinu og er það í raun fáheyrt í nútíma knattspyrnu að einstaklingur starfi fyrir eitt og sama félagið, sem leikmaður og þjálfari, í rúmlega 16 ára eins og Ejub hefur nú þegar gert fyrir félagið.
Athugasemdir