mið 02.apr 2025 11:00 Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina: 3. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Valur muni enda í þriðja sæti Bestu deildarinnar í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Valur hafnaði í þriðja sæti síðasta sumar og þeim er aftur spáð þar.
Túfa er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari Vals.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrick Pedersen hefur raðað inn mörkum í Bestu deildinni í mörg ár.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur hefur verið svolítið meiddur á undirbúningstímabilinu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. Valur, 114 stig
4. KR, 104 stig
5. Stjarnan, 102 stig
6. ÍA, 84 stig
7. FH, 62 stig
8. KA, 60 stig
9. Fram, 58 stig
10. Afturelding, 37 stig
11. Vestri, 27 stig
12. ÍBV, 14 stig
Um liðið: Valsmönnum var spáð Íslandsmeistaratitlinum í fyrra en það varð fljótlega ljóst að það var ekki að fara að gerast. Tímabilið endaði á því að vera mikil vonbrigði; Valur endaði í þriðja sæti og fór ekki langt í bikar né Evrópu. Þjálfarinn var rekinn og það var lægð yfir Hlíðarenda. Það var mikil eftirvænting fyrir tímabilinu og sérstaklega eftir að Gylfi Þór Sigurðsson skrifaði undir samning hjá félaginu. Gylfi átti að koma aftur með Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda en það gekk engan veginn eftir. Í vetur hafa orðið stórar breytingar á liðinu en umtalið hefur þó ekki verið neitt sérlega gott, en það hefur þó breyst örlítið til hins betra síðustu vikur og spurning hvort þetta sé á leið í rétta átt.
Þjálfarinn: Srdjan Tufegdzic, betur þekktur sem Túfa, tók við liði Vals á miðju síðasta tímabili eftir að Arnar Grétarsson var rekinn á flugvelli í Skotlandi. Túfa hefur lengi verið á Íslandi en hann spilaði hér með KA í mörg ár. Hann byrjaði svo að þjálfa hjá KA og var aðalþjálfari meistaraflokks frá 2016 til 2018. Undir hans stjórn fór KA upp í efstu deild. Hann stýrði svo Grindavík sumarið 2019 en þeir féllu þá úr Bestu deildinni. Túfa fór í kjölfarið til Svíþjóðar þar sem hann stýrði Öster og Skövde, en hann er núna aftur kominn heim til Íslands í stórt gigg og þarf hann að sanna það að hann sé rétti maðurinn til að stýra Val.
Styrkleikar: Leikmannahópurinn er gríðarlega vel mannaður. Þó þeir hafi misst Gylfa Þór Sigurðsson, þá er þetta eitt best mannaða lið landsins án nokkurs vafa. Þeir eru með stórkostlega sóknarlínu sérstaklega þar sem Patrick Pedersen er fremstur í flokki. Þeir eru með einstaklingsgæði sem geta gert út um leiki. Þeir voru sterkir á heimavelli í fyrra þar sem þeir töpuðu aðeins einum af fyrstu ellefu heimaleikjum sínum og skoruðu flest mörk allra liða á heimavelli. Þeir voru góðir í stóru leikjunum í fyrra og náðu að gíra sig vel upp í þá. Valsmenn hafa verið góðir á undirbúningstímabilinu og unnu Lengjubikarinn, en þeir ættu að geta tekið það með sér inn í mótið.
Veikleikar: Stemningin í kringum Valsliðið hefur ekki verið sérlega góð síðustu árin og leikmannahópurinn hefur ekki náð nægilega vel saman inn á vellinum. Sú umræða hefur verið í kringum Hlíðarenda að menn í liðinu hafi ekki verið að leggja sig nægilega fram og stuðningsmenn hafa ekki verið ánægðir með það. Í vetur hefur komið upp sú umræða í hlaðvörpum að æfingakúltúrinn hafi ekki verið nægilega góður og það er áhyggjuefni. Menn í liðinu þurfa að afsanna þessa umræðu í sumar og gera betur en í fyrra. Blandan á liðinu hefur ekki verið frábær síðastliðin ár, en menn á bak við tjöldin hafa verið að reyna að breyta því í vetur og spurning hvort það hafi gengið upp. Túfa þarf líka að sanna það að hann er nægilega öflugur í að stýra þessari skúta. Valsmenn hafa margt að sanna.
Lykilmenn: Hólmar Örn Eyjólfsson og Patrick Pedersen
Hólmar Örn á að vera leiðtoginn í vörninni og hann þarf að stíga enn frekar upp svo að Valur geti gert góða hluti í sumar. Hólmar er með gríðarlega mikla reynslu og á að geta verið besti varnarmaðurinn í þessari deild. Þá á Patrick Pedersen að geta verið besti sóknarmaðurinn í þessari deild. Hann er búinn að raða inn mörkum í Bestu deildinni öll þessi ár og það er í raun vanmetið hversu góður hann hefur verið. Magnaður sóknarmaður.
Gaman að fylgjast með: Markus Nakkim
Norskur miðvörður sem hefur verið að spila í Bandaríkjunum síðustu ár. Hann hefur verið með fyrirliðabandið þar. Þetta er alvöru karakter sem gæti lyft þessu Valsliði upp og kemur með góða nærveru inn í klefann. Hann og Hólmar ættu að geta myndað sterkt miðvarðapar en það verður gaman að fylgjast með því hvernig þessi skemmtilegi Norðmaður kemur inn í þetta lið.
Spurningamerkin: Hvernig tæklar liðið brottför Gylfa? Er Túfa nægilega stór í þetta starf? Mæta menn nægilega vel gíraðir inn í mótið?
Völlurinn: Það hafa margir titlar farið á loft að Hlíðarenda síðustu árin, bæði í karla- og kvennaboltanum og í öllum íþróttum. Þarna er góð stúka á fótboltavellinum en stemningin gæti satt best að segja oft verið meiri. Árangurinn síðustu ár hefur kannski litað það svolítið en ef það gengur vel í sumar, þá verður gaman að sjá hvernig stemningin verður.
Komnir:
Marius Lundemo frá Lilleström
Markus Nakkim frá Bandaríkjunum
Birkir Heimisson frá Þór
Birkir Jakob Jónsson frá Atalanta
Tómas Bent Magnússon frá ÍBV
Andi Hoti frá Leikni
Kristján Oddur Kristjánsson frá Gróttu
Farnir:
Gylfi Þór Sigurðsson til Víkings
Birkir Már Sævarsson hættur
Frederik Schram til Danmerkur
Gísli Laxdal Unnarsson í ÍA
Þorsteinn Aron Antonsson seldur í HK (var á láni í HK)
Elfar Freyr Helgason hættur
Ólafur Karl Finsen hættur

Leikmannalisti:
1. Ögmundur Kristinsson
2. Tómas Bent Magnússon
3. Hörður Ingi Gunnarsson
4. Markus Lund Nakkim
5. Birkir Heimisson
6. Bjarni Mark Antonsson
7. Aron Jóhannsson
8. Jónatan Ingi Jónsson
9. Patrick Pedersen
10. Kristinn Freyr Sigurðsson
11. Sigurður Egill Lárusson
12. Tryggvi Hrafn Haraldsson
13. Kristján Oddur Kristjánsson
14. Albin Skoglund
15. Hólmar Örn Eyjólfsson
17. Lukas Logi Heimisson
19. Orri Hrafn Kjartansson
20. Orri Sigurður Ómarsson
21. Jakob Franz Pálsson
22. Marius Lundemo
24. Flóki Skjaldarson
25. Stefán Þór Ágústsson
27. Emil Nönnu Sigurbjörnsson
33. Andi Hoti
45. Þórður Sveinn Einarsson
66. Ólafur Flóki Stephensen
97. Birkir Jakob Jónsson
Fyrstu fimm leikir Vals:
6. apríl, Valur - Vestri (N1-völlurinn Hlíðarenda)
14. apríl, KR - Valur (AVIS völlurinn)
23. apríl, Valur - KA (N1-völlurinn Hlíðarenda)
28. apríl, Valur - Víkingur R. (N1-völlurinn Hlíðarenda)
4. maí, FH - Valur (Kaplakrikavöllur)
Spámennirnir: Anton Freyr Jónsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Kári Snorrason, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Sölvi Haraldsson, Tómas Þór Þórðarson og Valur Gunnarsson.
Athugasemdir