fim 07.apr 2022 23:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 7. sæti: KA
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að KA muni enda í 7. sæti í Bestu deildinni í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. KA endar í efsta sæti neðra umspilsins ef spáin rætist.
Ungstirnir mælir með því að fylgjast með Sveini Margeiri
Mynd/Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Dusan sýndi í fyrra að hann gat spilað við hlið Brynjars Inga og Mikkel Qvist. Í ár fær hann nýjan leikmann sér við hlið.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. KA 65 stig
8. Leiknir 47 stig
9. ÍBV 35 stig
10. ÍA 33 stig
11. Keflavík 19 stig
12. Fram 17 stig
Um liðið: KA endaði í fjórða sæti deildarinnar síðasta sumar og var hársbreidd frá því að ná Evrópusæti. KA hefur haldið mjög svipuðu leikmannahóp frá því í fyrra. Liðið hefur í raun misst út miðvörð og bakvörð og fengið inn miðvörð og bakvörð. Þá er Haukur Heiðar hættur en Hallgrímur Jónasson gæti leyst svipað hlutverk.
Þjálfari - Arnar Grétarsson: Arnar er að fara inn í sitt annað heila tímabil sem þjálfari KA. Hann tók við snemma tímabils árið 2020. Arnar er mjög fær þjálfarim með mikinn metnað og ætlar sér klárlega að enda ofar en í 7. sæti. Honum til aðstoðar er Hallgrímur Jónasson sem er spilandi aðstoðarþjálfari.
Styrkleikar: Húsvíkingarnir þrír og Nökkvi Þeyr mynda mjög öfluga sóknarlínu sem getur hrellt allar varnir deildarinnar. Liðið ferðaðist vel í fyrra, var með jafn góðan útivalla árangur og Íslandsmeistarar Víkings. Liðið heldur sömu miðjumönnum í fyrra og er með einn öflugasta djúpa miðjumann deildarinnar í Rodri. Liðið er með fínustu breidd og ef einhver dettur út, sama í hvaða stöðu, þá er einfalt að sjá hver getur leyst þann leikmann af.
Veikleikar: Heimavöllurinn gaf ekki það sama í fyrra og árin á undan. Það var kannski af því heimavölllurinn var ekki til staðar fyrr en þegar langt var liðið á tímabilið. Meiðsli leikmannahópsins í vetur hjálpar liðinu varla komandi inn í tímabilið og gæti haft áhrif í upphafi tímabils.
Lykilmenn: Hallgrímur Mar og Rodri. Tveir bestu leikmenn liðsins eru lykilmennirnir. Grímsi getur bæði spilað á kantinum eða sem 'tía' ef KA spilar með slíkt kerfi. Hann skoraði næstmest í deildinni þrátt fyrir einhver klikk á vítapunktinum og lagði upp sex. Rodri er þetta akkeri sem öll lið vilja vera með. Þú ferð ekki svo glatt framhjá spænska miðjumanninum sem er oft upphafspunktur sókna KA bæði í uppspili og með því að vinna boltann.
Hlaðvarpsþátturinn Ungstirnin mælir með: Sveinn Margeir Hauksson. Einn af Dalvíkingunum í hópnum hjá KA. Sveinn er fæddur árið 2001 og hefur verið í nokku stóru hlutverki hjá KA síðustu tvö sumur, spilað 30 leiki og skilað einu marki. Við viljum sjá meira frá Dalvíkingnum knáa í sumar. KA er ekki búið að styrkja sig gríðarlega mikið og gott tækifæri fyrir ungu leikmennina eins og Svein að stíga upp og heilla Norðurlandið og aðdáendur Bestu Deildarinnar með sínum hæfileikum
Spurningarnar: Rót á varnarlínunni - fyrst fór Brynjar Ingi, svo fór Mikkel Qvist og Dusan byrjar í banni - hvenær kemst réttur taktur í varnarlínuna? Nær Elfar að finna sitt fyrra form? Veit Arnar hver besta miðjan sín er? - margir leikmenn á miðsvæðinu sem virka með mjög svipuð gæði og sá næsti. Verður heimavöllurinn klár í maí? Nær Stubbur að halda uppi sömu gæðum og í fyrra?
Völlurinn: Í fyrra spilaði liðið fyrst á Dalvíkurvelli og svo á Greifavellinum. Í ár er stefnt að því að spila einungis fyrstu tvo heimaleikina á Dalvík en spila svo hina 11-12 heimaleikina á nýjum velli á KA-svæðinu. KA menn vilja spila á gervigrasi og menn vonast til að ekkert verði spilað á Greifavellinum í sumar.
Fyrirliðinn segir - Ásgeir Sigurgeirsson
„Nei, ég get nú ekki sagt að ég sé sáttur við þessa spá. Við sýndum í fyrra að við erum með sterkt lið. Ég er allavega ekki sammála þessu orðum það þannig. Ég held að það sé næsti punktur hjá okkur, færa okkur aðeins upp í töflunni og ná Evrópusætinu. Við vorum nálægt því í fyrra og erum búnir að kynnast þeirri baráttu aðeins. Ég held að við höfum lært svolítið af þessu og þegar þú ert búinn að vera þarna uppi þá viltu ekki fara að keppast um eitthvað neðar."
Komnir
Bryan Van Den Bogaert frá Belgíu
Oleksiy Bykov frá Úkraínu (á láni)
Farnir
Haukur Heiðar Hauksson hættur
Jonathan Hendrickx til Belgíu
Mark Gundelach til Danmerkur
Mikkel Qvist til Horsens og svo Breiðabliks (var á láni)
Fyrstu fimm leikir KA:
20. apríl KA - Leiknir
24. apríl ÍBV - KA
2. maí KA - Keflavík
7. maí KR - KA
11. maí KA - FH
Hin hliðin:
Bjarni Aðalsteinsson
Steinþór Már Auðunsson
Sterkasta byrjunarliðið að mati Fótbolta.net:
Aðrir leikmenn:
Ívar Arnbro Þórhallsson - 1
Kristijan Jajalo - 12
Einar Ari Ármannsson - 24
Ívar Örn Árnason - 5
Hallgrímur Jónasson - 6
Andri Fannar Stefánsson - 14
Hákon Atli Aðalsteinsson - 17
Áki Sölvason - 18
Ýmir Már Geirsson - 19
Nökkvi Þeyr Þórisson - 21
Hrannar Björn Steingrímsson - 22
Steinþór Freyr Þorsteinsson - 23
Björgvin Máni Bjarnason - 25
Jakob Snær Árnason - 29
Sveinn Margeir Hauksson - 30
Kári Gautason - 31
Þorvaldur Daði Jónsson - 32
Valdimar Logi Sævarsson - 44
Bjarni Aðalsteinsson - 77
Elvar Máni Guðmundsson - 90
Spámennirnir: Aksentije Milisic, Brynjar Ingi Erluson, Egill Sigfússon, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Hafliði Breiðfjörð, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Tómas Þór Þórðarson og Úlfur Blandon
Athugasemdir