Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 09. nóvember 2022 15:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
KR í viðræðum við einn aðila - Stefna á að klára ráðningu fyrir helgi
Fyrir leik hjá KR á Meistaravöllum í sumar.
Fyrir leik hjá KR á Meistaravöllum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Christopher Harrington og Arnar Páll Garðarsson þjálfuðu KR lengst af á síðustu leiktíð.
Christopher Harrington og Arnar Páll Garðarsson þjálfuðu KR lengst af á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það verður vonandi hægt að tilkynna um þjálfara á næstu dögum," segir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrndueildar KR, í samtali við Fótbolta.net.

Arnar Páll Garðarsson fékk ekki áframhaldandi samning eftir síðustu leiktíð og ákvað Christopher Harrington að hætta. KR hefur verið í þjálfaraleit síðustu vikur.

Það er orðið ljóst með þjálfaramál hjá öllum liðum í efstu tveimur deildum kvenna nema hjá KR.

Páll segir að KR-ingar séu búnir að taka ákvörðun en það eigi eftir að ná samkomulagi við þann aðila. Í slúðurpakkanum undir lok síðasta mánaðar voru Jón Stefán Jónsson, Júlíus Ármann Júlíusson og Perry McLachlan orðaðir við starfið. Einnig hefur Edda Garðarsdóttir verið orðuð við starfið. Heyrst hefur að Perry sé líklegastur til að taka við þjálfarastarfinu hjá KR.

KR féll úr Bestu deildinni í sumar. Páll segir að leikmannamálin verði skoðuð þegar nýr þjálfari kemur inn.

„Við erum búin að funda með hópnum og biðja þær um að anda með nefinu þangað til niðurstaða fæst í þjálfaramál. Við ætlum að reyna að koma tvíefld til baka. Við erum að skoða þetta, en það er í forgangi að fá nýjan þjálfara."

„Það er ekki búið að ganga frá þjálfaramálum en við erum í viðræðum við einn aðila í augnablikinu."

Það var mikið talað um kvennalið KR á síðustu leiktíð eftir að leikmenn gagnrýndu umgjörðina og hvernig staðið væri að liðinu. Páll segir að félagið sé í naflaskoðun.

„Ég horfi fram veginn, ég er búinn að ákveða það. Við erum í ákveðinni naflaskoðun og horfum fram veginn. Það er margt sem má bæta."

KR ætlar að fara beint aftur upp. „Það er þar sem KR á að vera. Við verðum að vanda okkur. Það er forgangsatriði að klára ráðningu á nýjum þjálfara. Það er stefnt á að klára það á morgun eða hinn," sagði Páll.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner