Kolbeinn Þórðarson og félagar hans í sænska félaginu Gautaborg eru komnir áfram í undanúrslit sænska bikarsins eftir að hafa pakkað Hammarby saman, 4-0, í dag.
Gautaborg, sem hefur unnið bikarinn átta sinnum, var tveimur mörkum yfir í hálfleik, en Kolbeinn kom inn af bekknum á 69. mínútu og skoraði liðið síðan tvö til viðbótar.
Auðvelt hjá Gautaborg sem mætir annað hvort Elfsborg eða Malmö í undanúrslitum.
Þrír Íslendingar komu við sögu í dönsku úrvalsdeildinni en óheppnin heldur áfram að elta Nóel Atla Arnórsson, leikmann Álaborgar, sem fór meiddur af velli eftir aðeins 17 mínútur í 4-1 tapi gegn Elíasi Rafni Ólafssyni og félögum í Midtjylland.
Nóel fékk höfuðhögg eftir einvígi við Dario Osorio og þurfti á skiptingu að halda
Nóel Atli hefur aðeins komið við sögu í tíu leikjum á tímabilinu en meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn.
Elías Rafn stóð á milli stanganna hjá Midtjylland sem er með 42 stig og tyllir sér á toppinn í deildinni.
Sævar Atli Magnússon spilaði allan leikinn í 1-0 sigri Lyngby á Silkeborg. Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Lyngby sem er í næst neðsta sæti með 15 stig.
Hólmbert Aron Friðjónsson fékk þá tækifæri í byrjunarliði Preussen Münster sem tapaði fyrir Nürnberg, 1-0, í þýsku B-deildinni. Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Hólmberts á árinu en liðið er einu sæti fyrir ofan fallsæti.
Athugasemdir