Inter vann ótrúlegan endurkomusigur gegn botnliði Monza í ítölsku deildinni í gær og er með fjögurra stiga forystu á Napoli á toppnum fyrir leiki dagsins.
Inter lenti tveimur mörkum undir en kom til baka og skoraði þrjú. Simenoe Inzaghi, stjóri Inter, hrósaði Alessandro Nesta, stjóra Monza, eftir leikinn en þeir spiluðu saman á sínum tíma.
„Alessandro Nesta var frábær liðsfélagi hjá Lazio, hann var þegar orðinn fyrirliði þegar ég kom. Svo fór hann til Milan og var liðsfélagi bróður míns (Filippo Inzaghi)," sagði Inzaghi.
„Ég verð að óska honum til hamingju því Monza spilaði mjög vel á San Siro, ég óska líka mínum mönnum til hamingju með endurkomuna. Þetta var ekki auðvelt þar sem þeir vörðust vel, ég held að við náðum metinu yfir flest skot á markið á tímabilinu en héldum haus."
Liðið er á toppnum í deildinni, komið í undanúrslit bikarsins og í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið vann Feyenoord 2-0 í fyrri leiknum. Inzaghi sagði fyrir þann leik að liðið væri að eltast við þrennuna.
„Ég hefði átt að leiðrétta sjálfan mig og segja fernuna því við erum í baráttunni á HM félagsliða líka," sagði Inzaghi brosandi eftir leikinn í gær.
Athugasemdir