Mateta kostar 40 milljónir punda - Liverpool og Man Utd vilaj Robinson - Douglas Luiz aftur í ensku úrvalsdeildina?
banner
   sun 09. mars 2025 16:00
Brynjar Ingi Erluson
England: Vítaklúður Palmer kom ekki að sök - Bournemouth missti unninn leik niður í jafntefli
Cole Palmer klikkaði af vítapunktinum í fyrsta sinn
Cole Palmer klikkaði af vítapunktinum í fyrsta sinn
Mynd: EPA
Marc Cucurella skoraði eina mark Chelsea
Marc Cucurella skoraði eina mark Chelsea
Mynd: EPA
Heung-Min Son bjargaði stigi fyrir Tottenham
Heung-Min Son bjargaði stigi fyrir Tottenham
Mynd: EPA
Kepa átti arfaslakan leik í marki Bournemouth
Kepa átti arfaslakan leik í marki Bournemouth
Mynd: EPA
Chelsea vann annan leik sinn í röð í ensku úrvalsdeildinni er liðið bar sigurorð af nýliðum Leicester, 1-0, á Stamford Bridge í dag. Bournemouth kastaði á meðan frá sér sigrinum í Lundúnum er liðið gerði 2-2 jafntefli við Tottenham.

Leicester hefur gengið illa að ná í sigra á tímabilinu og ætlaði Chelsea að nýta sér það.

Liðið var töluvert meira með boltann og fékk dauðafæri til að komast yfir á 22. mínútu er Victor Kristiansen braut á Jadon Sancho í teignum. Snertingin var klárlega til staðar en Sancho gerði heldur mikið úr snertingunni og kastað sér í loftið.

Vítaspyrna var dæmd og fór Cole Palmer á punktinn. Spyrnan var föst niðri í hægra hornið en Mads Hermansen var fljótur í hornið og varði frábærlega.

Þetta var í fyrsta sinn sem Palmer tekst ekki að skora úr vítaspyrnu í deildinni. Englendingurinn verið heldur kaldur í síðari hluta mótsins og ekki var þetta að hjálpa sjálfstrausti kappans.

Chelsea gerði hins vegar nóg til að vinna leikinn. Spænski bakvörðurinn Marc Cucurella skoraði eina markið er hann fékk boltann fyrir utan teiginn og hamraði honum neðst í hægra hornið.

Heimamenn vildu aðra vítaspyrnu í leiknum á síðustu tíu mínútunum er fyrirgjöf Sancho hafnaði í olnboganum á Conor Coady, en ekkert var dæmt.

Það breytti engu fyrir Chelsea sem fagnaði 1-0 sigri og öðrum sigrinum í röð en liðið fer upp í 4. sæti deildarinnar með 49 stig, tveimur á undan Manchester City.

Bournemouth missti unninn leik niður í jafntefli

Tottenham og Bournemouth gerðu 2-2 jafntefli í Lundúnum, en gestirnir naga sig eflaust í handarbökin fyrir að hafa ekki unnið í dag.

Marcus Tavernier skoraði eina mark fyrri hálfleiksins eftir stórkostlega fyrirgjöf Milos Kerkez frá vinstri. Boltinn flaug yfir alla vörn Tottenham á fjær á Tavernier sem fleygði sér í boltann og setti hann undir Guglielmo Vicario.

Tottenham var meira með boltann í fyrri hálfleiknum en var ekki að ógna mikið fram á við og virkaði liðið heldur brothætt í öftustu línu.

Snemma í síðari hálfleiknum kom Justin Kluivert boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum. Réttur dómur og áfram með smjörið.

Þrettán mínútum síðar bætti Evanilson við öðru marki Bournemouth eftir sniðuga sendingu frá Kluivert inn fyrir. Evanilson komst einn á móti Vicario og vippaði honum skemmtilega yfir Ítalann og í hægra hornið.

Tottenham komst aftur inn í leikinn tveimur mínútum síðar með stórfurðulegu en flottu marki frá Pape Matar Sarr. Senegalinn var með boltann um 35 metrum frá marki og setti háan bolta yfir Kepa í markinu. Ætlaði hann að gefa fyrir eða var hann að reyna þetta? Það veit enginn, en þetta gaf Tottenham von.

Bournemouth fékk nokkur færi til að gera út um leikinn. Vicario var í miklu basli í markinu og þá átti Kluivert skot í stöng og var það því mikið högg fyrir Bournemouth þegar Kepa braut á Heung-Min Son í teignum á 83. mínútu.

Solanke tók upp boltann en rétti Son hann sem fór á punktinn og jafnaði metin.

Lokatölur 2-2. Leikmenn Bournemouth fara svekktir af velli enda töldu þeir nánast öruggt að þeir myndu sigra, en jafntefli niðurstaðan og er Tottenham í 13. sæti með 34 stig en Bournemouth í 8. sæti með 44 stig.

Chelsea 1 - 0 Leicester City
0-0 Cole Palmer ('22 , Misnotað víti)
1-0 Marc Cucurella ('60 )

Tottenham 2 - 2 Bournemouth
0-1 Marcus Tavernier ('42 )
0-2 Evanilson ('65 )
1-2 Pape Matar Sarr ('67 )
2-2 Son Heung-Min ('84 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner