Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg unnu 2-0 sigur á Leipzig í þýsku deildinni í dag.
Íslenska landsliðskonan sagði frá því í viðtali við RÚV á dögunum að hún væri fremur ósátt við að fá ekki meiri spiltíma hjá þýska stórveldinu.
Í dag fékk hún tækifærið í byrjunarliðinu en hún spilaði klukkutíma áður en henni var skipt af velli.
Hún deildi velli með Emilíu Kiær Ásgeirsdóttur í nokkrar mínútur, sem hafði komið inn á hjá Leipzig stuttu áður.
Wolfsburg er í öðru sæti með 38 stig, jafnmörg og Eintracht Frankfurt, sem er með betri markatölu.
Amanda Andradóttir snéri þá aftur hjá hollenska liðinu Twente sem vann 4-1 sigur á Feyenoord í deildinni. Amanda hefur ekki verið með síðustu vikur vegna meiðsla, en kom inn af bekknum í dag.
Twente er á toppnum með 42 stig.
Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn með Bröndby sem lagði AGF, 1-0, í 8-liða úrslitum danska bikarsins. Hafrún Rakel Halldórsdóttir spilaði síðustu mínútur leiksins fyrir Bröndby sem er komið í undanúrslit og mætir þar Nordsjælland.
Sunneva Hrönn SIgurvinsdóttir lagði þá upp sigurmark FCK sem vann Álaborg Freja í framlengingu, 4-3. Sunneva gaf stoðsendinguna þegar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni og sá til þess að FCK færi áfram í undanúrslitin en liðið mætir Fortuna Hjörring.
Guðrún Arnardóttir lék í vörn Rosengård sem gerði 1-1 jafntefli við nágranna sína í Malmö í riðlakeppni sænska bikarsins. Bæði lið eru með 4 stig, en Rosengård er með betri markatölu og því í bílstjórasætinu um að komast áfram.
Lára Kristín Pedersen og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir spiluðu báðar í belgísku úrvalsdeildinni.
Lára var í liði Club Brugge sem fagnaði 4-0 sigri á Genk á meðan Vigdís byrjaði hjá Anderlecht sem gerði 1-1 jafntefli við Standard Liege.
Diljá Ýr Zomers var ekki með Leuven sem lagði Gent að velli, 1-0.
Leuven og Anderlecht eru í harðri titilbaráttu en bæði lið eru með 43 stig á meðan Club Brugge er með 28 stig í 4. sæti.
Athugasemdir