Belgíski markvörðurinn Koen Casteels hefur ákveðið að leggja landsliðsshanskana á hilluna vegna endurkomu Thibaut Courtois í landsliðið, en hann segist verulega ósáttur við hvernig staðið er að málum hjá belgíska sambandinu.
Casteels, sem er 32 ára gamall, var gerður að aðalmarkverði landsliðsins eftir að Courtois neitaði að gefa kost á sér.
Courtois hætti þar sem hann sagðist ekki lengur hafa trú á þjálfaranum Domenico Tedesco og fór það svo að Casteels var settur í rammann fyrir EM á síðasta ári.
Tedesco var rekinn í byrjun ársins og tók Rudi Garcia við en Courtois ákvað í kjölfarið að gefa aftur kost á sér í landsliðið. Þessi ákvörðun hefur neytt Casteels til að leggja landsliðshanskana á hilluna.
„Í fyrsta lagi finnst mér svolítið skrítið að Courtois geti ákveðið sjálfur að snúa aftur. Framkvæmdastjóriinn (Vincent Mannaert), fór til Madrídar og grátbað hann um að koma aftur,“ sagði Casteels í hlaðvarpsþættinum Midmid.
„Þó sambandið hafi upphaflega ekki tekið vel í hegðun þá finnst mér að enginn leikmaður sé stærri en liðið. Allir eru jafnir, en núna hefur sambandið ákveðið að snúa sér í 180 gráður og rúllað út rauða dreglinum fyrir Courtois.“
„Hann er boðinn velkominn með opnum örmum, þó ekkert hafi breyst.“
Hann segir að afsökunarbeiðni frá Courtois hefði engu breytt.
„Ég heyrði hann nýlega tala um brottrekstur Tedesco sem sannar bara að ég hef rétt fyrir mér. Það sýnir að sektarkenndin er engin.“
Casteels vildi þó ekki setja alla sökina yfir á Courtois heldur væri það sambandið sem ætti að skoða mál sín betur.
„Ég hendi ekki allri sökinni yfir á Thibaut, heldur á sambandið. Þetta helst ekki í hendur í við hann staðal og gildi sem ég tel vera viðeigandi fyrir liðsíþrótt eða íþróttastofnun. Ég get ekki verið hluti af stofnun sem samþykkir svona hegðun.“
„Þess vegna hef ég ákveðið að gefa ekki lengur kost á mér í landsliðið. Ég get ekki farið í landsliðið með hreina samvisku, þar sem allir heilsast skælbrosandi og segja að hlutirnir séu í lagi.“
Casteels segir að sambandið hafi tekið ranga ákvörðun og að margir leikmenn séu á sama máli og hann.
„Það eru margir leikmenn sem eru að hugsa það sama. Ég er mjög forvinn að vita hvað hinir leikmennirnir munu segja um þetta, en þetta snerist ekki bara um eitt atvik milli Courtois og Tedesco. Það voru aðrir hlutir sem voru sagðir sem höfðu mikil áhrif, annars myndi þetta ekki hafa svona djúp áhrif á marga leikmenn,“ sagði hann í lokin.
Courtois verður í landsliðshópnum hjá Belgíu sem mætir Úkraínu í tveimur leikjum í Þjóðadeild Evrópu síðar í þessum mánuði, en það er alla vega klárt mál að Casteels verður ekki þar.
Casteels er í dag á mála hjá Al Qadsiah í Sádi-Arabíu en hann gekk í raðir félagsins síðasta sumar frá þýska félaginu Wolfsburg. Hann spilaði alls 20 landsleiki fyrir Belgíu.
Athugasemdir