Liverpool er komið með sextán stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa unnið 3-1 endurkomusigur á botnliði Southampton á Anfield í dag.
Toppliðið átti fínustu byrjun á leiknum og var líklegra til árangurs, en Southampton vann sig hægt og rólega inn í leikinn og fór að ógna þegar leið á hálfleikinn.
Fyrr á tímabilinu lenti Liverpool einmitt undir gegn Southampton og vann þann leik 3-2 og var svipað upp á teningnum í dag.
Alisson og Virgil van Dijk gerðu sig seka um sjaldgæf mistök undir lok fyrri hálfleiks. Will Smallbone fékk boltann í teignum, en missti hann aðeins frá sér. Van Dijk náði að skýla boltanum í von um að Alisson kæmi út og handsamaði boltann.
Brasilíumaðurinn lenti hins vegar á Mateus Fernandes og náði því ekki valdi á boltann sem endaði með því að boltinn datt aftur út á Smallbone sem skoraði nokkuð einfalt mark með því að rúlla boltanum í netið.
Pirringur kom í Liverpool-menn og fékk Darwin Nunez meðal annars heimskulegt gult spjald fyrir óþarfabrot, en heimamenn náðu að stilla saman strengi í hálfleik og var þetta aldrei spurning í þeim síðari.
Nunez jafnaði metin á 52. mínútu eftir frábæran undirbúning Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn keyrði upp að endalínu og fann Nunez á nærsvæðinu. Úrúgvæinn tók góða innkomu gegn PSG í miðri viku með sér í leikinn og skoraði úr færinu.
Mínútu síðar var hann búinn að næla í vítaspyrnu fyrir Liverpool er Smallbone sparkaði aftan í ökklann á honum. Mohamed Salah skoraði sitt 26. deildarmark á tímabilinu úr vítinu.
Á lokakafla leiksins fengu Liverpool-menn aðra vítaspyrnu er Yukinari Sugawara handlék boltann í teignum. Aftur fór Salah á punktinn og aftur skoraði hann. 27. mark hans og hefur hann nú komið að 44 mörkum á tímabilinu.
Hann færist nú nær meti Alan Shearer og Andy Cole sem komu að 47 mörkum á einu tímabili en það er þó vert að taka það fram að þá voru spilaðir 42 leikir.
Tvö mörk frá Salah í góðum endurkomusigri og Liverpool með sextán stiga forystu í efsta sæti deildarinnar, en Southampton áfram á botninum með aðeins 9 stig.
Joao Pedro var hetja Brighton sem vann Fulham, 2-1, á AMEX-leikvanginum í Brighton.
Raul Jimenez skoraði laglegt mark fyrir Fulham á 35. mínútu en Jan Paul van Hecke náði inn jöfnunarmarki fyrir Brighton aðeins sex mínútum síðar.
Seint í uppbótartíma síðari hálfleiks fengu heimamenn vítaspyrnu er Harrison Reed fór í klaufalega tæklingu á Joao Pedro í teignum og fór Brasilíumaðurinn sjálfur á punktinn og tryggði heimamönnum stigin þrjú.
Brighton er í baráttu um að komast í Evrópukeppni en liðið er í 6. sæti með 46 stig, sætinu sem gefur þátttökurétt í Sambandsdeild Evrópu. Fulham er í 9. sæti með 42 stig.
Ismaila Sarr skoraði þá eina mark Crystal Palace í 1-0 sigri á nýliðum Ipswich Town.
Senegalinn fékk boltann í teignum og nýtti allan sprengikraft sinn í að komast framhjá varnarmanni Ipswich áður en hann vippaði boltanum yfir Alex Palmer og í netið.
Sterkur sigur hjá Palace sem er í 11. sæti með 39 stig en Ipswich í 18. sæti með 17 stig.
Brighton 2 - 1 Fulham
0-1 Raul Jimenez ('35 )
1-1 Jan Paul van Hecke ('41 )
2-1 Joao Pedro ('90 , víti)
Crystal Palace 1 - 0 Ipswich Town
1-0 Ismaila Sarr ('82 )
Liverpool 3 - 1 Southampton
0-1 William Smallbone ('45 )
1-1 Darwin Nunez ('51 )
2-1 Mohamed Salah ('54 , víti)
3-1 Mohamed Salah ('88 , víti)
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Liverpool | 29 | 21 | 7 | 1 | 69 | 27 | +42 | 70 |
2 | Arsenal | 27 | 15 | 9 | 3 | 51 | 23 | +28 | 54 |
3 | Nott. Forest | 28 | 15 | 6 | 7 | 45 | 33 | +12 | 51 |
4 | Man City | 28 | 14 | 5 | 9 | 53 | 38 | +15 | 47 |
5 | Chelsea | 27 | 13 | 7 | 7 | 52 | 36 | +16 | 46 |
6 | Brighton | 28 | 12 | 10 | 6 | 46 | 40 | +6 | 46 |
7 | Aston Villa | 29 | 12 | 9 | 8 | 41 | 45 | -4 | 45 |
8 | Newcastle | 27 | 13 | 5 | 9 | 46 | 38 | +8 | 44 |
9 | Bournemouth | 27 | 12 | 7 | 8 | 45 | 32 | +13 | 43 |
10 | Fulham | 28 | 11 | 9 | 8 | 41 | 38 | +3 | 42 |
11 | Crystal Palace | 28 | 10 | 9 | 9 | 36 | 33 | +3 | 39 |
12 | Brentford | 28 | 11 | 5 | 12 | 48 | 44 | +4 | 38 |
13 | Tottenham | 27 | 10 | 3 | 14 | 53 | 39 | +14 | 33 |
14 | Everton | 28 | 7 | 12 | 9 | 31 | 35 | -4 | 33 |
15 | Man Utd | 27 | 9 | 6 | 12 | 33 | 39 | -6 | 33 |
16 | West Ham | 27 | 9 | 6 | 12 | 32 | 47 | -15 | 33 |
17 | Wolves | 28 | 6 | 5 | 17 | 38 | 57 | -19 | 23 |
18 | Ipswich Town | 28 | 3 | 8 | 17 | 26 | 58 | -32 | 17 |
19 | Leicester | 27 | 4 | 5 | 18 | 25 | 61 | -36 | 17 |
20 | Southampton | 28 | 2 | 3 | 23 | 20 | 68 | -48 | 9 |
Athugasemdir