FH-ingar kynntu tvo nýja leikmenn hjá kvennaliðinu í dag en þær Deja Jaylyn Sandoval og Maya Lauren Hansen eru komnar og munu spila með liðinu á komandi leiktíð.
Sandoval þarf ekki að kynna fyrir áhugamönnum um íslenskan kvennafótbolta en hún átti stóran þátt í að koma liði FHL upp í Bestu deildina á síðustu leiktíð. Þessi bandaríski varnarmaður er 23 ára gömul.
Hún lék 18 leiki og skoraði 2 mörk í Lengjudeildinni á síðasta tímabili, en mun nú taka slaginn með FH-ingum.
Hansen kemur þá frá Bandaríkjunum en hún lék síðast með háskólaboltanum með Iowa University.
Á síðasta tímabili skoraði hún fimm mörk fyrir Iowa-skólann en áður lék hún með háskólanum í South Dakota og skoraði þar 44 mörk.
Góður liðsstyrkur fyrir FH-inga sem eru í öðru sæti í B-riðli Lengjubikarsins og gætu enn komist í undanúrslit keppninnar. Fyrsti leikur FH-inga í Bestu deildinni er síðan gegn Val á Hlíðarenda, en sá leikur fer fram 16. apríl.
Athugasemdir