Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjaði á bekknum þegar Leverkusen heimsótti Jena í þýsku deildinni í dag.
Leverkusen komst yfir á 54. mínútu og Karólína kom inn á eftir klukkutíma leik. Hún lagði upp annað mark liðsins þegar rúmur stundafjórðungur var til leiksloka en lokatölur urðu 2-0.
Glódís Perla Viggósdóttir var ekki í leikmannahópi Bayern sem vann Köln 3-0 vegna meiðsla hnémeiðsla. Íslenska landsliðið spilar leiki gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni í byrjun apríl og vonandi verður Glódís klár í slaginn.
Kristianstad er með sex stig eftir tvær umferðir í riðlakeppni sænska bikarsins eftir 1-0 sigur á Örebro í dag. Katla Tryggvadóttir bar fyrirliðabandið og Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir voru einnig í byrjunarliðinu.
Fanney Inga Birkisdóttir var í markinu hjá Hacken þegar liðið vann öruggan 5-0 sigur á Umea. Hacken er einnig með sex stig eftir tvær umferðir í sínum riðli.
Þá var Íslendingaslagur í Bandaríkjunum í nótt þegar Fort Lauderdale og Tampa Bay Sun gerðu 1-1 jafntefli. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik en Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir kom inn á hjá Tampa Bay á 64. mínútu og Thelma Lóa Hermannsdóttir kom inn á undir lokin hjá Fort Lauderdale.
Athugasemdir